Fara í efni

Fjarnám - skráning í fullum gangi

Skráning í fjarnám VMA lýkur 29. ágúst nk.
Skráning í fjarnám VMA lýkur 29. ágúst nk.

Vert er að minna á að þó svo að skólastarfið sé komið í fullan gang í VMA er einn angi þess þó ekki hafinn – fjarnámið. Nú stendur yfir skráning í fjarnámið og lýkur að tæpri viku liðinni, mánudaginn 29. ágúst nk. Kennsla hefst síðan 12. september nk.

Efst hér á forsíðu heimasíðunnar er flipi þar sem allar upplýsingar um fjarnámið er að finna, m.a. eru þar upplýsingar um alla áfanga sem eru í boði. Nánari upplýsingar veita Baldvin B. Ringsted, sviðsstjóri fjarnáms og námsráðgjafar.

Fjarnám í VMA byggist á kennsluleiðbeiningum og verkefnum í gegnum kennsluvefinn Moodle og/eða með tölvupóstsamskiptum. Nemendur skila verkefnum í gegnum Moodle og geta tekið lokapróf í sinni heimabyggð í samráði við skólann og samstarfsaðila hans. 

Nám, námsefni, yfirferð, kennsla og kröfur í fjarkennslu VMA eru í samræmi við kröfur í dagskóla. Námsgögn geta verið alfarið á Moodle-síðu áfangans og/eða kennslubækur sem hægt er að kaupa í bókabúðum. Í námsáætlun kemur fram það námsefni sem liggur að baki áfanganum, upplýsingar um yfirferð og skipulag námsins ásamt upplýsingum um námsmat. Nemendur fá námsáætlun í upphafi annar.

Rétt er að undirstrika að iðnmeistaranám er í boði í fjarnámi VMA og er það fyrir þá sem lokið hafa sveinsprófi í iðngrein. Iðnmeistaranám skiptist í megindráttum í þrennt: almennt bóknám, nám í stjórnunar- og rekstrargreinum og fagnám. Almennt bóknám ásamt stjórnunar- og rekstrargreinum skiptist í kjarna (skyldunám) annars vegar og valnám hins vegar og er valnámið mismikið að vöxtum eftir iðngreinum. Í meistaraskóla VMA er unnt að ljúka námi í almennum bóknámsgreinum og stjórnunar- og rekstrargreinum. Þar sem meistaranámið er að mótast er ekki enn ljóst að hve miklu leyti Verkmenntaskólinn getur sinnt námi í faggreinum. Nánari upplýsingar um meistaraprófsnám fyrir iðnsveina í löggiltum iðngreinum er að finna hér.