Fara í efni

Aldarfjórðungur frá upphafi fjarkennslu í VMA

Frumkvöðlarnir Haukur og Adam í janúar 2019.
Frumkvöðlarnir Haukur og Adam í janúar 2019.

Í þessum mánuði eru tuttugu og fimm ár liðin frá því að fjarkennsla hófst í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Á þessum tíma var unnið algjört brautryðjendastarf í fjarkennslu, bæði hér á landi og þótt víðar væri leitað, með þá Hauk Ágústsson og Adam Óskarsson, kennara í VMA, í fararbroddi.

Verkmenntaskólinn á Akureyri hóf starfsemi árið 1984 en fjarkennsla hófst þar tíu árum síðar. Eins og svo oft þegar góðir hlutir gerast var það á ýmsan hátt tilviljunum háð að mál þróuðust á þennan veg.

Adam Óskarsson var í hópi fyrstu starfsmanna skólans þegar hann hóf starfsemi sína árið 1984 og raunar er hann, 35 árum síðar, enn starfandi við skólann. Haukur Ágústsson hóf kennslu í VMA árið 1989 og starfaði við skólann til ársins 2002. Haukur hóf á sínum tíma að kenna strax eftir stúdentspróf vestur á Patreksfirði og síðar var hann við kennslu og skólstjórn á Eiðum og Laugum í Reykjadal áður en hann flutti til Akureyrar. Haukur er guðfræðimenntaður og var auk kennslunnar starfandi prestur á Vopnafirði í átta ár.

Frumkvöðullinn Pétur Þorsteinsson
Adam rifjar upp að einhverju sinni, líklega 1992, hafi hann hitt Pétur Þorsteinsson skólastjóra á Kópaskeri á leiksýningu í Samkomuhúsinu á Akureyri. Þeir áttu það sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á tölvum sem á þessum tíma voru hreint ekki á hverju skrifborði. Pétur hafði árið 1990 ýtt úr vör Imbu, tölvumiðstöð skóla, á Kópaskeri. Í framhaldinu var Íslenska menntanetið stofnað árið 1992. Á árunum 1985 - 1986 hafði Pétur kynnst og heillast af Unix-stýrikerfinu og tölvusamskiptum að hætti Internetsins. Á þessum tíma hafði hann tekið þátt í nokkrum norrænum ráðstefnum um tölvumál en talað fyrir fremur daufum eyrum um nauðsyn þess að hin lægri skólastig byggðu tölvusamskipti sín á Internetinu. Ástæðan fyrir dræmum undirtektum var fyrst og síðast sú að Internetið var nánast óþekkt á þessum tíma utan háskóla- og rannsóknageirans. Í ársbyrjun 1988 fjárfesti Pétur í Unix-tölvu í þeim tilgangi að byggja upp boðskiptakerfi innan menntakerfisins að hætti Internetsins og veita menntastofnunum aðgang að upplýsingaveitum heimsins, að því marki sem tækni og fjárhagur leyfði. Í upphafi árs 1990 byrjuðu menntastofnanir að tengjast Imbu og í ársbyrjun 1992 var ljóst að tölvusamskipti voru orðin sjálfsögð staðreynd á lægri skólastigum. Þá hafði Pétur heimsótt meira en helming íslenskra skóla og haldið ótal fyrirlestra og kynningarfunda um land allt. Þetta ár stofnaði Pétur síðan Íslenska menntanetið hf., sem fyrr segir, og voru í byrjun settar upp þrjár miðstöðvar, á Kópaskeri, Akureyri og í Reykjavík.

Misstu af seinni hluta leiksýningar
„Við Pétur gleymdum okkur algjörlega í samræðum um tölvumál í hléinu á leiksýningunni í Samkomuhúsinu og áður en við vissum af var leiksýningunni lokið, við höfðum talað frá okkur seinni hluta hennar! Á þessum tíma átti ég módem og mig langaði til þess að prófa að nota það og senda tölvupóst á þau fáu netföng sem þá voru til. Við mæltum okkur mót daginn eftir og eftir það fóru hjólin að snúast. VMA tengdist Íslenska menntanetinu og ég fór í það að kenna starfsmönnum skólans að senda tölvupóst. Þegar við byrjuðum síðan fjarkennsluna tæpum tveimur árum síðar var fyrirkomulagið ennþá það sama, einungis var hægt að senda tölvupóst í gegnum eina tölvu í skólanum,“ segir Adam.

Nokkru síðar var sett upp leigulína milli starfsstöðvar Íslenska menntanetsins við Furuvelli á Akureyri og VMA. Þetta var fyrsta fastlínutenging framhaldsskóla á Íslandi.

Var eins og smurð vél frá byrjun
Haukur Ágústsson segir að hann hafi á þessum árum haft mikinn áhuga á tölvum og fylgst vel með frumkvöðlastarfi Péturs Þorsteinssonar. Einnig hafi hann kynnst miklum tölvuáhugamanni í Laugaskóla, Konráð Erlendssyni.

„Ég vissi af því að Kennaraháskólinn byði upp á fjarnám en mér hugnaðist ekki alveg þeirra aðferðarfræði, sem m.a. fólst í því að nemendur þyrftu einnig að taka hluta námsins í staðnámi. Ég fór að velta því fyrir mér hvort ekki mætti gera þetta öðruvísi og hafa það að leiðarljósi að gagnvirk samskipti væru milli nemenda og kennara án þess að þeir þyrftu að hittast. Ég fór til Adams Óskarssonar og spurði hann hvað honum þætti um þessa hugmynd. Hann sagði þetta áhugavert og vert væri að reyna. Í framhaldinu fórum við til Bernharðs þáverandi skólameistara og bárum þetta undir hann. Hann setti sig ekki upp á móti því að við myndum til að byrja með gera tilraun með þetta í ensku. Ég sagðist vera tilbúinn að vinna að þessu launalaust og það var samþykkt. Niðurstaðan var að bjóða upp á þrjá enskuáfanga til að byrja með á vorönn 1994, ensku 102, ensku 202 og ensku 212. Það þarf ekki að orðlengja það að þetta gekk ótrúlega vel á þessari fyrstu önn og sannast sagna var þetta eins og smurð vél, tæknimálin gengu fullkomlega upp en aðeins minniháttar hnökrar komu upp í samskiptum nemenda og kennara sem auðvelt var að leysa úr,“ rifjar Haukur upp, en hann var kennslustjóri fjarnáms í VMA frá upphafi og þar til hann hætti störfum við skólann árið 2002.

„Mér er það eftirminnilegt þegar við Haukur gengum inn til Bernharðs skólameistara og spurðum hann hvort við mættum gera þessa tilraun. Hann sagði að það væri allt í lagi, ef við vissum hvað við værum að gera. Bernharð treysti því hundrað prósent að við værum að gera eitthvað sem vit væri í og efaðist aldrei um það. Ef við hefðum ekki fengið það frjálsræði sem við höfðum, þá hefði þetta að mínu viti ekki gengið. En þrátt fyrir að þessi aðferðafræði okkar væri Bernharð framandi vildi hann endilega fylgjast vel með því sem við vorum að gera og fannst að þetta væri fjöður í hnappagat skólans,“ segir Adam.

„Ég var frakkur“
„Vissulega fetti ráðuneytið fingur út í þetta, sem var ekki óeðlilegt því þetta var því algjörlega nýtt. Þegar ráðuneytismennirnir áttuðu sig betur á því hvað við vorum að gera fannst þeim þetta svolítið skrítið. Bernharð stóð í þeirri baráttu að ná í peninga fyrir fjarkennsluna og það var ekki alltaf einfalt mál. Stundum kom til umtalsverðra átaka um launamálin, hörðust voru þau síðsumars 1998. Ráðuneytið vildi ákveða hversu margir nemendur væru í áföngum. Þeir skildu ekki hugsunina í fjarkennslunni. En ég var frakkur og hélt mínu striiki. Haustið 1998 var fjarnámið fullbókað en ekkert samkomulag um laun kennara. Nemendur biðu og voru ekki mjög kátir. Þeir voru fastir fyrir og skrifuðu Birni Bjarnasyni þáverandi menntamálaráðherra tugi ef ekki hundruð bréfa þar sem þeir lögðu að honum að leysa málin. Í kjölfarið var þessu komið í fastar skorður. Fjarnámið naut fljótt mikilla vinsælda og við vorum með nemendur bæði hér á landi og víða erlendis. Ég minnist þess til dæmis að fjarnemandi kom alla leið frá Namibíu til þess að útskrifast frá skólanum. Fjarnámið gerði m.a. sjómönnum og bændum sem áttu erfitt með að sækja nám í dagskóla allt í einu fært að bæta við þekkingu sína. Þetta var eitthvað alveg nýtt og framandi í menntun á Íslandi. Mér þykir vissulega ánægjulegt og hlýlegt að hafa átt þátt í því að fólk gat aukið færni sínu og þekkingu í fjarnámi,” segir Haukur.

Þrír enskuáfangar á fyrstu önninni
Gaman er að skoða gamlar blaðagreinar  um fyrstu ár fjarkennslunnar í VMA. Í grein í Morgunblaðinu 30. desember 1993 er greint frá því að fjarkennsla hefjist í upphafi vorannar 1994 í tveimur enskuáföngum. Tekið er fram að nemendur geti verið hvar sem er á landinu en þeir verði að hafa aðgang að tölvu, síma og mótaldi (módemi). Í þessari fréttagrein í Morgunblaðinu er haft eftir Hauki og Adam að fjarkennslan hæfist með ensku 102 og ensku 212 en vonir stæðu til þess að í framhaldinu yrði hægt að bjóða upp á mun fleiri áfanga. Raunar var á fyrstu önninni einnig kennd enska 202 og því voru í boði þrír enskuáfangar. „Við þykjumst að sumu leyti vera að brjóta upp nýja leið, einstaklingum gefst nú kostur á að velja þann tíma sem hentugast er til námsins og nemendur geta verið hvar sem er á landinu," sögðu Haukur og Adam við Morgunblaðið í þessari grein um fyrstu skref fjarkennslunnar í skólanum. 

Vakti mikla athygli
Vorönn 1994 markaði upphafið og hún var sannarlega bara byrjunin. Þessi nýjung í menntamálum á Íslandi vakti verðskuldaða athygli, ekki bara hér á landi heldur líka utan landsteinanna. Meðal annars komu í VMA fulltrúar framhaldsskóla í Gautaborg í Svíþjóð til þess að kynna sér fjarkennsluna í því skyni að koma henni á fót þar ytra. Á haustönn 1994 voru auglýstir fjaráfangar í bókfærslu, dönsku, ensku, íslensku, stærðfræði, sögu, sálfræði og þýsku og áfram hélt námsgreinunum að fjölga á vorönn 1995. Boltanum var kastað, viðtökurnar voru framúrskarandi góðar og til VMA var litið sem fyrirmyndar í fjarkennslu í landinu. Í blaðaviðtali í september 1996 upplýsti Haukur Ágústsson að á fyrstu fimm önnunum í fjarkennslu í VMA hefðu um 300 nemendur, bæði hér á landi og utan landsteinanna, nýtt sér fjarkennslu VMA. Og á vorönn 1997 voru nemendur í fjarnámi um 170, þar af tíu sjómenn á frystitogararanum Sigurbjörg ÓF frá Ólafsfirði.

Samstarf við HA árið 1997
Á vorönn 1997 var komið á fót samstarfi VMA og Háskólans á Akureyri og var undirritaður samningur skólanna þar að lútandi að viðstöddum m.a. Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra. Við þetta tækifæri sagði Bernharð Haraldsson, þáverandi skólameistari, m.a.: „Við höfum yfirunnið hin landfræðilegu landamæri þess að geta menntast. Nemendur okkar eru ekki bara frá Akureyri eða koma til Akureyrar til að sitja í misskemmtilegum tímum hjáj misskemmtilegum og fróðleiksfúsum kennurum. Nú geta menn setið heima hjá sér og unnið verkefni sín þegar þeim hentar best. Það skiptir ekki máli hvar nemandinn er, hann geetur verið á Sauðárkróki eða Seyðisfirði, í innstu dölum, úti við sjávarsíðuna, eða jafnvel á togara allt norður í Smugu." 

Ágreiningur um laun kennara
Litið var á fjarkennsluna í VMA sem nokkurra ára tilraunaverkefni en haustið 1998 kom ákveðið bakslag þegar upp reis ágreiningur milli menntamálaráðuneytisins og kennara við VMA um fjárframlög til fjarkennslunnar, eins og Haukur Ágústsson nefnir hér að framan. Ráðuneytið boðaði lækkun á greiðslum fyrir fjarkennsluna og á það litu kennarar sem ávísun á skert laun fyrir kennsluna. Menntamálaráðuneytið sagði að ekki væri verið að skerða laun kennara heldur að breyta fyrirkomulagi fjarkennslunnar. Kennarar litu málið öðrum augum en úr þessari flækju tókst síðan að greiða og áfram var haldið í fjarkennslunni og bætt í ár frá ári.

VMA og Íslenska menntanetið gerðu með sér samstarfssamning um þróun í fjarkennslu og var hluti af samningnum námskeið fyrir netstjóra í grunn- og framhaldsskólum og var fyrsta námskeiðið haldið í ágúst 1999.

Hálfdán Örnólfsson, kennari og stjórnandi við VMA á þessum tíma, segir að það sé ekkert launungarmál að menntamálaráðuneytinu hafi þótt fjarkennslan í VMA nokkuð dýr, sem hafi falist í því að hún hafi byggst á meiri þjónustu við nemendur en í öðrum skólum sem fylgdu í kjölfarið með fjarkennslu, Fjölbrautaskólanum við Ármúla og Verzlunarskóla Íslands. Út af þessu hafi nokkrum sinnum risið ágreiningur milli skólans og ráðuneytisins og það hafi oft komið í hlut Bernharðs skólameistara að verja fjarkennslu skólans af krafti.

Web CT – Moodle
Adam Óskarsson kynntist vefkerfinu Web CT - Web Course Tool – sem hafði m.a. verið notað til fjarkennslu í dreifðum byggðum í Norður-Kanada. Adam setti sig í samband við eigendur kerfisins og fékk leyfi þeirra til þess að nota það í fjarkennslunni í VMA og þýða það yfir á íslensku. Við það naut hann aðstoðar Guðjóns Ólafssonar, þáverandi kennara á Ísafirði og núverandi enskukennara við VMA. „Þetta kerfi kynntum við á svokallaðri UT-messu í Kópavogi og þar vakti það mikla athygli og sló satt best að segja í gegn. Á þessum tíma vildu yfirvöld menntamála innleiða annað kerfi, Lotus Learning Space, en fljótlega kom í ljós að skólar höfðu engan áhuga á því og vildu miklu frekar nota kerfið sem við vorum búnir að taka upp í VMA, Web CT. Þetta kerfi þýddum við í þrígang á íslensku og það nýttist okkur prýðilega til fjölda ára en eftir að ég kom heim úr námsleyfi í Kanada árið 2008 talaði ég fyrir því að taka upp Moodle kerfið, sem síðan varð niðurstaðan. Nú er það kerfi í notkun um allt land,“ segir Adam. „Vissulega vorum við ekki alltaf í takti við það sem stjórnvöld töluðu fyrir. Við vildum fara aðrar leiðir og það var ekki alltaf vinsælt. En við létum það aldrei á okkur fá, við höfðum fyrst og fremst svo gaman af því sem við vorum að gera.“

Bylting í menntamálum
Þegar þessi gagnvirka fjarkennsla hófst í VMA var hún byltingarkennd breyting í menntun á Íslandi og þótt víðar væri leitað og því voru Adam og Haukur fengnir til þess að flytja um hana fyrirlestra erlendis, bæði á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og víðar. Og meira að segja þótti OECD – Efnahags- og framfarastofnuninni svo mikið til koma að hún gaf út bækling í sínu nafni um þessa nýjung í menntamálum.

Tuttugu og fimm árum eftir að fjarkennslu í VMA var ýtt úr vör af frumkvöðlunum Adam Óskarssyni og Hauki Ágústssyni er hún ennþá mikilvægur þáttur í starfi VMA. Afar fátítt er þó nú til dags að nemendur taki nám sitt að fullu til stúdentsprófs í fjarnámi eins og dæmi voru um áður. Sigurður Bjarni Sigurðsson frá Brautarhóli í Svarfaðardal var fyrsti nemandinn sem lauk námi til stúdentsprófs í VMA, einungis í fjarnámi. Það var árið 2001. Sigurður Bjarni hélt raunar áfram námi við skólann síðar og lauk húsasmíði árið 2007 og meistararéttindinum í húsasmíði árið 2011.

Á fjórða hundrað fjarnemar á vorönn 2019
Á þessari önn eru á fjórða hundrað fjarnemar í VMA, þar af eru um fimmtíu nemendur í dagskóla í VMA sem taka fjaráfanga til þess að fylla upp í stundatöfluna og/eða flýta fyrir sér í námi. Flestir voru fjarnemar í VMA árið 2003, rösklega 600.

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA segir að á 25 árum hafa orðið miklar breytingar í þessum efnum. Mun fleiri skólar bjóði nú upp á fjarnám en áður var. Ekki séu eins margir eldri fjarnemar og áður, nú sé mikill meirihluti þeirra sem taki fjarnámsáfanga framhaldsskólanemar. Mikilvæg sérstaða VMA í fjarnáminu sé sem fyrr að bjóða þar upp á iðnmeistaranám.

 

 

.