Fara í efni

Eitt og annað í NÁSS

Ein af námsstöðvunum sem nemendur sækja heim og kynnast er Fab Lab Akureyri, sem er í húsakynnum VMA…
Ein af námsstöðvunum sem nemendur sækja heim og kynnast er Fab Lab Akureyri, sem er í húsakynnum VMA.

Nemendur á brautabrú, sérnámsbraut og starfsbraut sækja áfanga núna á haustönn sem hefur yfirskriftina NÁSS – kynning á verk- og starfsnámi. Áfanginn hefur að geyma nákvæmlega það sem yfirskrift hans segir til um – að fá kynningu á verk- og starfsnámi í skólanum.

Margir nemendur hafa ekki lagt sínar framtíðarlínur þegar þeir koma í skólann en oft fá þeir ákveðnar hugmyndir um hvert leiðin liggur eftir að hafa kynnst einu og öðru í skólanum. Í þessum tilgangi var NÁSS-ið sett upp á sínum tíma, til þess að gefa nemendum kost á því að fá stutta sýn á ólíkar námsbrautir.

Núna á haustönn er nemendum af framangreindum þremur brautum skipt í hópa og síðan fara þeir á milli nokkurra námsstöðva og fá ákveðinn fjölda kennslustunda á hverri. Meðal annars fá nemendur innsýn í nokkur grunnatriði á listnámsbraut, málmiðnbraut, matvælabraut (matreiðsla og framreiðsla) og Fab Lab.

Í námslýsingu segir m.a.:

Í áfanganum gefst nemandanum kostur á að kynnast þeim verknámsmöguleikum sem eru í boði hverju sinni í skólanum. Nemandinn fæst við fjölbreytt verkefni og kynnist vinnubrögðum sem nýtast honum í daglegu lífi s.s. líkamsbeitingu. Að auki kynnist hann starfsgreinum og atvinnumöguleikum sem bjóðast að loknu starfsnámi í framhaldsskóla. Nemandinn fer á milli verklegra deilda í skólanum og tekst á við margvísleg verkefni tengd hverri faggrein fyrir sig. Mikið er lagt upp úr öryggi á vinnustöðum og umgengni. Leitast er við að nemandinn finni styrkleika sína og öðlist sjálfstraust til að sinna ólíkum verkefnum og finni áhugasvið sitt í gegnum fjölbreytt nám.

Þessar myndir voru teknar í nokkrum kennslustundum í NÁSS.