Fara í efni

Brautskráning VMA í Hofi

Brautskráning VMA í Hofi
Brautskráning VMA í Hofi
Brautskráning fór fram í glæsilegum aðalsal Hofs kl. 17, fimmtudaginn 20. desember. Útskrifaðir voru nemendur sem lokið hafa burtfararprófi á iðn- og starfsnámsbrautum ásamt stúdentum. 80 nemendur brautskráðust frá skólanum í þetta sinn. Veitt voru verðlaun fyrir góðan námsárangur og blómvendi fengu nokkrir nemendur fyrir góða og virka þátttöku í skólastarfi. Fleiri myndir eru komnar inn.

Brautskráning fór fram í glæsilegum aðalsal Hofs kl. 17, fimmtudaginn 20. desember. Útskrifaðir voru nemendur sem lokið hafa burtfararprófi á iðn- og starfsnámsbrautum ásamt stúdentum. 80 nemendur brautskráðust frá skólanum í þetta sinn. Veitt voru verðlaun fyrir góðan námsárangur og blómvendi fengu nokkrir nemendur fyrir góða og virka þátttöku í skólastarfi.

Hilmar Friðjónsson kennari tók einnig myndir sem eru á Google+ vefnum:
Albúm 1: https://plus.google.com/photos/103302800084112684965/albums/5824206398327384257?banner=pwa
Albúm 2: https://plus.google.com/photos/103302800084112684965/albums/5824220562718131025?banner=pwa

Brautskráning VMA

Hjalti Jón Sveinsson skólameistari flutti góða ræðu og fer hún hér á eftir.

Ágætu brautskráningarnemar, aðstandendur, samstarfsfólk og aðrir gestir.
Ég býð ykkur hjartanlega velkomin á brautskráningu Verkmenntaskólans á Akureyri á jólaföstu árið 2012.

Í dag munum við brautskrá 80 nemendur af hinum ýmsu brautum.  
Hópurinn gefur ágæta mynd af þeirri breidd í námsframboði sem Verkmenntaskólinn á Akureyri býður upp á þó svo að fjöldi nemenda úr okkar fjölbreytta námi sé mismikill eftir því hvort brautskráningin á sér stað á haustönn eða að vori en þá er bæði fjölbreytnin og fjöldi brautskráningarnema meiri. Það er von okkar að sá hluti hópsins sem aflað hefur sér starfsréttinda standi vel undir þeim og kunni sitt fag á meðan hinir, stúdentarnir, uppfylli þær kröfur sem gerðar eru stefni þeir á áframhaldandi nám á háskólastigi og hvet ég þá eindregið að láta ekki slíkt tækifæri úr greipum sér ganga. Þess má geta að 12 nemendur hafa lokið stúdentsprófinu á þremur og hálfu ári.
Iðnaðarmennirnir eiga reyndar sveinsprófið eftir þar sem þeir þurfa að sanna bæði verklega og bóklega getu og færni sína og etja kappi við próftaka víðs vegar af landinu. Er það ekki síður prófsteinn á skólann en á nemendurna – en staðreyndin er sú að þeir hafa jafnan staðið sig með prýði á sveinsprófum og oft skarað fram úr.
Þá má til gamans geta þess að  nemendur okkar hafa tekið þátt í keppnum af margvíslegu tagi að undanförnu þar sem þeir hafa þurft að nota innsæi, verklega færni og þekkingu. Síðast tóku fjórir nemendur þátt í nýsköpunarkeppninni Boxið sem haldið er árlega í Háskólanum í Reykjavík. Þar sameinuðu krafta sína VMA-nemendur úr vélstjórn, rafvirkjun og af náttúrufræðibraut og kræktu sér í fjórða sætið og voru aðeins hársbreidd frá verðlaunasæti. Við þurfum að gera meira af því að fá nemendur af bóknámsbrautum til að vinna lokaverkefni með nemendum af tæknisviði. Úr því geta tvímælalaust komið góðir hlutir.

Brautskráning VMA

Skólakerfið liggur undir skemmdum
Það hefur verið kraftur í skólastarfinu í haust eins og endranær. Þrátt fyrir áralangan samdrátt í fjárframlögum til skólans og sparnaðaraðgerðir af ýmsu tagi hefur okkur tekist að bjóða yfir 1300 nemendum nám í haust, sem er nánast sami fjöldi og á síðasta ári, auk 500 nemenda í fjarnámi. Við höfum borið gæfu til þess að halda úti óbreyttu námsframboði og reyndar höfum við sótt í okkur veðrið og bjóðum nú á ný upp á nám í rafeindavirkjun sem mikil þörf var orðin fyrir.
    Háværar raddir hafa verið um það í þjóðfélaginu að undanförnu að heilbrigðisstéttir séu að kikna undan sífellt auknu álagi sem sé afleiðing hagræðingarkrafna ríkisvaldsins eftir efnahagshrunið. Hið sama á við um starfsfólk framhaldsskóla sem hefur þurft að sinna starfi sínu í skugga niðurskurðar á fjárheimildum síðan þremur árum fyrir hrun en þá var um svokallaða hagræðingarkröfu að ræða. Nú er svo komið að lengra verður ekki gengið; en reyndar sagði ég þetta líka úr þessum ræðustóli fyrir nákvæmlega tveimur árum síðan. Fjárveitingar munu nánast standa í stað á næsta ári; en miðað við þá verðbólgu sem geisar í íslensku efnahagslífi verðum við enn að rifa seglin. Við gerum það í skugga launadeilu kennara og ríkisins en framhaldsskólakennarar hafa nú dregist um 14% aftur úr viðmiðunarhópum innan Bandalags háskólamanna – sem erfitt verður að leiðrétta í ljósi aðstæðna. Þetta verður því þungur róður fyrir okkur áfram við þá miklu vinnu sem bíður okkar við að innleiða nýja námskrá.  Engu að síður hafa allir kappkostað að þessar erfiðu aðstæður komi sem minnst niður á gæðum kennslu og annars skólastarfs. Ég vil þakka bæði nemendum skólans og starfsfólki fyrir umburðurlyndið og seigluna. - En óhætt er að segja um íslenskt skólastarf í dag – að það liggi undir skemmdum.
Það hefur þó verið svolítil huggun harmi gegn að Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur boðið fram svolitla styrki til þróunar nýrra starfsnámsbrauta og höfum við fengið nokkra slíka í hús í haust og eigum vonandi eftir fá einhverja fleiri. Þá höfum við einnig verið dugleg að sækja um styrki í sjóði Evrópusambandsins meðal annars til þróunar tæknináms fyrir fólk úti á vinnumarkaðinum sem aðeins er með grunnskólapróf. Þeir fiska sem róa – en það er auðvitað ekki á vísan að róa vegna þess að margir eru um hituna og svo veit enginn hvernig aðildarviðræðum Íslendinga við Evrópusambandið mun reiða af.
    Þrátt fyrir allt hefur haustönnin verið ein sú allra fjörugasta að minnsta kosti þau fjórtán ár sem ég hef starfað við Verkmenntaskólann á Akureyri. Ég var í námsleyfi á síðasta skólaári og því átti Sigríður Huld Jónsdóttir aðstoðarskólameistari, sem leysti mig af í fyrra, og samstarfsfólk okkar heiðurinn af þeirri nýbreytni sem boðið var upp á í september; en þá var haldin vika málm- og véltæknigreina. Fjölbreytt dagskrá var unnin í samráði við fyrirtæki og hagsmunasamtök í þessum greinum auk Iðunnar fræðsluseturs, sem annast endurmenntun iðnaðarmanna. Tilgangurinn var annars vegar að styrkja samstarf atvinnulífs og skóla í þessum stóru og mikilvæga vettvangi og hins vegar að vekja athygli á námi og störfum í málm- og véltæknigreinum. Þessi vika tókst í alla staði mjög vel. Afraksturinn var heldur ekki lítill en í því sambandi má nefna að stofnað var sérstakt fagráð sem í eiga sæti fulltrúar bæði atvinnulífs og skóla og á hinn bóginn Hollvinasamtök VMA í kjölfarið. Þessir tveir aðilar munu vinna með okkur að eflingu skólans og aðstoða okkur við að forgangsraða og afla fjár til kaupa á ýmsum tækjum og búnaði sem skólann vanhagar um en hefur ekki bolmagn til að fjármagna sjálfur. Síðast en ekki síst var það mikill styrkur fyrir okkur að finna þann mikla stuðning og velvilja sem VMA á úti í atvinnulífinu og hvarvetna; sem segir okkur að við höfum verið að standa okkur vel um leið og það er ómetanleg hvatning.
    Alltaf verð ég  jafn glaður í hjarta og hissa þegar ég á þess kost að skoða  lokaverkefni nemenda í  hand- og hugverki í hinum ýmsu deildum skólans. Ævinlega kemur þetta mér jafnmikið á óvart hversu frábærum árangri nám nemenda og vinna kennara getur skilað og stundum á ótrúlega stuttum tíma.  Eins þykir mér alltaf jafn ánægjulegt að heimsækja nemendur og kennara inn í kennslustundir til að spjalla og verða vitni að hinu spennandi ferli sem þar fer fram og fólgið er í námi og kennslu. Það er ákveðinn galdur sem fram fer og vona ég að allir þeir nemendur sem eru að útskrifast hér í dag hafi gert sér grein fyrir því. Stundum tekur það nokkurn tíma fyrir nemendur að átta sig á því að maður lærir til dæmis ekki tungumál með því að anda því að sér og sumir halda jafnvel að orðaforðinn og málfræðin komi af sjálfu sér í gegnum húðina. Maður þarf nefnilega að leggja það á sig að læra, leggja á minnið, tengja og yfirfæra. Markmið okkar er ekki flókið; að allir geri sitt besta.

Brautskráning VMA    


Gestagangur og alþjóðleg samstarfsverkefni
Á nýliðinn haustönn hafa margir starfsmenn og nemendur skólans tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum hvort sem er innan Norðurlandanna eða í tengslum við hina svokölluðu Leonardo-menntaáætlun Evrópusambandsins á grundvelli aðildar Íslands að EES-samningnum. Fjöldi fólks hefur því verið á faraldsfæti til þess að hitta samstarfsaðila sína á vettvangi skólastarfs. Þá höfum við líka tekið á móti fjölmörgum kennurum og nemendum frá öðrum skólum víðs vegar í Evrópu og hefur vart liðið sú vika að ekki hafi verið hér fleiri eða færri erlendir gestir til lengri eða skemmri tíma.
    En við höfum ekki einungis fengið heimsóknir erlendis frá því að starfsmenn íslenskra skóla hafa sótt okkur heim í því skyni að kynna sér bæði húsakynni okkar og búnað en ekki síður starf okkar í fjölmörgum greinum. Og eitt af því sem mesta forvitni hefur vakið er gæðakerfið okkar en Verkmenntaskólinn á Akureyri  er einn þriggja íslenskra framhaldsskóla sem starfar eftir alþjóðlega gæðakerfinu ISO-9001. En það er engu að síður fjölbreytni skólans og búnaðar  hans sem vekur forvitni fólks. Og síðast en ekki síst; nemendur hans og starfsfólk.

Stöndum andspænis nýrri ógn; sítengdum nemendum
Kennarar standa um þessar mundir frammi fyrir nýjum aðstæðum sem engan gat órað fyrir til dæmis árið 1976 þegar ég hóf kennsluferil minn 23 ára gamall við Kvennaskólann í Reykjavík. Þá var í raun aðeins um að ræða krítina og töfluna og kennarinn átti ekki í neins konar samkeppni um athygli stúlknanna í bekknum nema ef vera skyldi við endurnar á Tjörninni. Þetta var nú meiri dýrðin! Engir farsímar, fartölvur eða Facebook. Engin tónlist í símanum eða tölvunni til að hlusta á í heyrnartólum á meðan kennarinn talaði, ekkert Internet. Þvílík paradís!
Nú standa kennarar andspænis þeirri ógn að nemandi svari í símann í miðri kennslustund, eða sé svo upptekinn við að skrifa tölvupóst eða að fylgjast með Facebook í snjallsímanum sínum, eða að skrifa SMS, að engu líkara er en  nemandinn hafi algjörlega kúplað sig út úr þeim veruleika sem kennslustundin er. - Og hvað er til ráða?, spyrja sumir kennarar. Þetta eru óneitanlega sérkennilegar aðstæður fyrir okkur sem enn erum með gamlan Nokia-farsíma, og höfum jafnvel ekki aðgang að eigin fartölvu, höfum ekki enn lyft okkur upp á I-phone-stigið, hvað þá fengið okkur I-pad og höfum aldrei hlaðið niður tónlist í I-pod sem við getum borið á okkur alla tíð og hlustað á uppáhaldslögin í agnarsmáum heyrnartólum við hvers konar athafnir daglegs lífs.
Gera má ráð fyrir því að á meðal þeirra nemenda sem eru að brautskrást frá okkur hér í dag séu einhverjir sem geta best einbeitt sér að náminu, hvort sem er heima eða í kennslustund, með því að vera með tónlist í eyrunum, í góðu þráðlausu netsambandi með fartölvuna fyrir framan sig, með snjallsímann tengdan á sama hátt við Internetið þannig að þeir geti tekið við sms-skilaboðum að minnsta kosti, hringingum og tölvupósti og eigi þess jafnframt kost að geta svarað símtölum ef svo ber undir. Þeir eru jafnvel háðir því að vera tengdir við Facebook og jafnvel fleiri samskiptasíður í senn og síðast en ekki síst að geta jafnvel lagt kapal á skjánum á meðan þeir hlusta á kennarann eða að hugsa hvað þeir eigi að skrifa næst. Þetta finnst mörgu ótrúleg lýsing á aðstæðum en þetta er veruleiki okkar í dag. Ég held að við bregðumst ekki við þessum nýja raunveruleika með því að fyrirskipa nemendum að aftengja sig áður en þeir ganga inn í kennslustofuna – því að þá finnst þeim fótunum kippt undan sér og þeir missi tengslin við umheiminn og það að vera í beinu netsambandi við vini sína í öðrum kennslustofum eða öðrum skólum.
    Greinilegt er að við sem stjórnum og störfum í skólunum þurfum að tileinka okkar tæknina helst jafnharðan. Ef vel ætti að vera þyrftum við að kappkosta að vera að minnsta kosti einu skrefi á undan nemendum okkar í stað þess að þeir séu mörgum skrefum á undan okkur. Við megum ekki líta á þetta sem ógnun heldur frekar spennandi tækifæri sem jafnvel væri unnt að nýta í þágu kennslunnar. Við þurfum líka að komast að samkomulagi við nemendur – en það getum við ekki gert nema með því að reyna að setja okkur í þeirra spor. Þessi dæmi eru okkur líka víti til varnaðar; þau minna okkur á að við sem skólafólk þurfum alltaf að vera á tánum, vera sveigjanleg, reiðubúin að tileinka okkur nýjungar á sviði kennsluhátta og kennsluaðferða. Auk þess þarf að gera skólum kleift að bjóða kennurum sínum upp á nýjustu tækni hverju sinni.

Mér er það því mikil ánægja að sýna ykkur hér og nú verkefni sem nemendur í áfanganum NÁT 123 gerðu um Norðurljósin nú á haustönninni en kennari þeirra, Elín Unnarsdóttir, lagði sérstaka áherslu á að bæði hún og nemendur hennar nýttu sér upplýsingatæknina í skólastofunni á nýliðinni önn.

3. Ræða skólameistara

Brautskráning VMA
Skóli eða meðferðarstofnun?
En þó að okkur gangi flest í haginn nú sem endranær getum við ekki leynt áhyggjum okkar af því að brotthvarf nemenda úr skólanum hefur verið ívið meira nú á haustönninni en við höfum átt að venjast.  Tilfinning okkar er sú að fleiri nemendur eigi við andlega vanlíðan að stríða en verið hefur. Sumir kennarar hafa haft orð á þessu en þó einkum þeir starfsmenn skólans sem sinna stoðþjónustu af ýmsu tagi og eru því oft og tíðum í návígi við nemendur utan sjálfra kennslustundanna. Má í því sambandi nefna umsjónarkennara, kennslustjóra, námsráðgjafa og sálfræðing; en síðan í haust höfum við boðið nemendum upp á þjónustu hans. Hefur hann haft kappnóg að gera við að taka nemendur í einkaviðtöl auk þess sem hann hefur einnig boðið upp á hópmeðferð. Við þurfum að hafa í huga að skólinn hefur ákveðnum skyldum að gegna gagnvart öllum nemendum sínum og höfum við ævinlega reynt það eftir megni í samræmi við lög en þar segir að framhaldsskólar skuli leitast við að veita þeim nemendum sérstakan stuðning sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða eða veikindi.
Í lögunum segir jafnframt að skólameistari skuli hafa samráð við heilsugæslustöð í nágrenni skólans um heilsuvernd og hollustuhætti. Fleira segja lögin ekki en þar liggur einmitt hundurinn grafinn. Staðreyndin er sú að skólanum ber að gegna hlutverki sínu sem menntastofnun en þegar kemur að veikindum, sem bæði geta verið af andlegu og líkamlegu tagi, kemur að heilsugæslustöðinni og sjúkrahúsinu. Ágætlega gengur jafnan að veita þeim viðeigandi þjónustu sem eiga við líkamlega kvilla að stríða en þegar andleg veikindi eiga í hlut fækkar mjög þeim úrræðum sem boðið er upp á. Þörfin hefur aukist á undanförnum árum og mikilvægt er að við því sé brugðist með aukinni þjónustu á sviði geðheilbrigðis.
Kvíði og þunglyndi ungmenna eru dauðans alvara.

Neikvæð umræða
Sem betur fer líður langflestum nemendum okkar vel og njóta lífsins í leik og starfi eins og ungu fólki er eiginlegt. Félagslíf nemenda hefur verið með hefðbundnum hætti á nýliðinni haustönn.
Hin svokölluðu karla- og konukvöld hafa verið vinsæl eins og fyrr en segja má að nemendur reyni á þeim vettvangi á gamansaman hátt að gera lítið úr hefðbundnum jafnréttisgildum og leggi áherslu á hið karlmannlega annars vegar og hið kvenlega hins vegar. Finnst reyndar sumum stundum nóg um og fengum við að kenna á því að þessu sinni. Dansatriði ungra pilta í lok konukvöldsins var tekið upp á snjallsíma og sent umsvifalaust á vefmiðilinn dv.is. Það birtist að fáum klukkustundum síðar með frétt þar sem blaðamaður átti varla orð yfir þessu hneykslanlega athæfi piltanna. Í lokaatriðinu fylltist sviðið af reyk og dansararnir kvöddu en um leið mun einhver piltanna hafa svipt sér úr efnisrýrri brókinni en það sást að sjálfsögðu ekki fyrir reyknum. Í ljós kom að þessi frétt var sú mest lesna og skoðaða í heila viku dv.is.
    Mistök sem áttu sér stað á karlakvöldinu við val á happdrættisvinningi, þótti óviðurkvæmileg. Þessu var slegið upp í aðalfréttatíma Ríkisútvarpsins daginn eftir án þess að nokkur hér í skólanum fengi rönd við reist. Vegna þessara atburða hefur mikil umræða farið fram úti í samfélaginu um klámvæðingu í framhaldsskólum og kvenfyrirlitningu meðal karlkyns framhaldsskólanema.
    Um sama leyti og fyrri viðburðurinn átti sér stað fór fram sýning á upptökum frá keppninni um fyndnasta mann Íslands á vinsælasta vefmiðli landsins, mbl.is. Þar komu upp á svið hver ungi karlmaðurinn á fætur öðrum og fór með gamanmál.  Það sem einkenndi öll atriðin voru neðanbeltisbrandarar. Sá sem þótti djarfastur virtist jafnframt þykja fyndnastur og sigraði keppnina. Engum virtist þykja þetta ámælisvert og enginn talaði um klámvæðingu af þessu tilefni. - En viðburðir af þessu tagi eru einmitt meðal þess sem nemendur í framhaldsskólum hafa sér til fyrirmyndar og ráða viðhorfum þeirra á ýmsa lund. Mér finnst stundum að sumir hinna eldri mættu líta í eigin barm þegar þeir setja sig á háan hest og hneykslast á unga fólkinu okkar. Ég leyfi mér í því sambandi að minna á hin fleygu orð að ekki skuli kasta steinum úr glerhúsi og hins vegar að sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum. Að sjálfsögðu var málið rætt ítarlega á milli skólastjórnenda og fulltrúa nemendafélagsins. Voru allir á einu máli um að gengið hafi verið of langt í ljósi aðstæðna og hafa nú allir gert sér grein fyrir að aldrei er það of oft fyrir okkur brýnt að aðgát skal höfð í nærveru sálar, að oft sé í holti heyrandi nær og ekki síst í ljósi þess að öldur ljósvakans eru allt um kring. Þá er það nú sem endranær ófrávíkjanleg krafa okkar að klám er ekki liðið í skólanum auk þess sem það er brýnt fyrir nemendum að hér eru allir jafnir og jafnrétti kynjanna sé eitt af leiðarljósum okkar í lífinu. Ég hef aldrei orðið var við annað, hvorki meðal starfsfólks  né í  hinum fjölmenna hópi nemenda.

Í frásögur færandi?    
Nú er þegar farið að undirbúa viðburði vorannarinnar; eins og opna daga, árshátíð og síðast en ekki síst söngkeppnina sem alltaf nýtur geysilegra vinsælda langt út fyrir veggi skólans. Okkur hefur blessunarlega tekist að halda vímulausar samkomur í framhaldsskólunum á Akureyri og þykir okkur það í raun ekki lengur í frásögur færandi því að þetta hefur tíðkast svo lengi. Í skólanum okkar er fyrirmyndarfólk. Það má glöggt sjá á því til dæmis hversu byggingin hefur lítið látið á sjá, jafnvel sá hluti hennar sem orðinn er þriggja áratuga gamall. Skólinn er svo vel um genginn að gestum okkar þykir það furðu sæta. Það sýnir glöggt hversu góðu uppeldi nemendur okkar búa að og einnig það að þeir halda í heiðri þær sjálfsögðu  umgengnisreglur sem gilda  hér. Slíkt bera jafnframt vott um virðingu. Þetta er skemmtilegt samfélag nemenda og starfsfólks og það er trú mín að þeir nemendur sem eru að kveðja okkur hér í dag beri þessa fagurt vitni. Hið sama er að segja um íbúa hinnar sameiginlegu heimavistar MA og VMA. Þar koma saman unglingar af öllum landshornum og búa í sátt og samlyndi. Það er alltaf jafnánægjulegt að taka þátt í hinu árlega jólahlaðborði þeirra þar sem reiddar eru fram krásir fyrir 350 manns. Sé unnt að tala um menningu eða kúltúr; þá er þetta samfélag gott dæmi sem önnur ungmenni, hvar í  heimi sem er, gætu tekið sér til fyrirmyndar. Þess vegna segi ég alltaf óhikað að nemendur okkar séu til fyrirmyndar og er alltaf jafn stoltur af þeim. Það getum við öll verið. En slíkt þykir yfirleitt ekki í frásögur færandi.
Félagslíf í framhaldsskóla er mikilvægur þáttur í þroska ungmenna. Af þeim sökum ber skólayfirvöldum að hlúa vel að því eftir því sem kostur er. Í þeim efnum mættum við gera betur en við reynum að koma  til móts við nemendur þegar þeir sýna frumkvæði. Frumkvæði er aftur á móti eiginleiki sem ekki er öllum gefinn og við þurfum að hvetja nemendur til að sýna frumkvæði, sem er svo mikilvægt í lífinu.
 Í svo fjölmennu og að mörgu leyti flókna skólasamfélagi eins og hér  í VMA leynist víða hæfileikafólk sem segist ekki vilja trana sér fram. Við þurfum að búa svo um hnútana að félagslífið verði aðlaðandi bæði fyrir þetta hæfileikafólk og alla hina – sem ætlað er að njóta þess og taka þátt. Þetta sést best á  söngkeppninni þar sem ekki er óalgengt að boðið sé upp á á þriðja tug frábærra tónlistaratriða ár hvert. Slíkra hæfileika, sköpunargleði og menningar viljum við gjarnan njóta við fleiri tækifæri. Og við kennararnir og annað starfsfólk eigum að taka þátt og leggja okkar lóð á vogarskálarnar. Við eigum að styrkja og hvetja nemendur okkar til góðra verka.

4. Tónlistaratriði
Þá hef ég þessi orð mín ekki lengri en bið þau  Silja Garðarsdóttur, sem að brautskrást sem stúdent frá okkur í dag og föður hennar Garðar Má Birgisson að koma upp á svið en þau ætla að flytja okkur tvö lög.

Brautskráning VMA 


5. Brautskráning

Það er alltaf jafnánægjulegt að standa í þessum sporum hér – með föngulegan hóp  fólks sem er að brautskrást úr okkar góða skóla.
Að þessu sinni verða 80 nemendur brautskráðir eins og áður segir af hinum ýmsu námssviðum og brautum.

Okkur er þá ekkert að vanbúnaði. Munu kennslustjórar hinna ýmsu námssviða annast afhendingu prófskírteina og kalla upp þá nemendur sem hver um sig hefur haft innan vébanda sinna.Jónas Jónsson  kennslustjóri félagsfræðibrautar og viðskipta- og hagfræðibrautar.

Arna Valsdóttir  kennslustjóri listnámsbrautar

Ingimar Árnason  kennslustjóri fjarnáms

Borghildur Blöndal náttúrufræðibraut, sjúkraliðar og matartæknar

Baldvin Ringsted  kennslustjóri tæknisviðs


HJS setur upp húfu sína og biður brautskráningarnema að setja upp hvítu kollana.

Ágætu brautskráningarnemar, hjartanlega til hamingju með daginn.

5. Verðlaun afhent

Þá er komið  að því að veita verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur.
Bið ég Sigríði Huld Jónsdóttur  aðstoðarskólameistara, um að aðstoða mig.

Arnar Freyr Baldursson fær verðlaun fyrir bestan árangur í viðskiptagreinum á stúdentsprófi. Gefandi er Kaupmannafélag Akureyrar.

Birna Hólmgeirsdóttir fær verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í þýsku á stúdentsprófi. Gefandi er þýska sendiráðið.
Birna hlýtur einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur í dönsku. Gefandi er danska sendiráðið.

Guðrún Ágústa Ágústsdóttir hlýtur viðurkenningu fyrir afburða námsárangur í matartæknanámi sínu. Gefandi er Lostæti.

Guðlaug Þorsteinsdóttir hlýtur viðurkenningu  fyrir framúrskarandi árangur í textílgreinum á listnámsbraut.
Gefandi er Kvennasamband Eyjafjarðar.

Hannes Heiðar Þórólfsson hlýtur viðurkenningu fyrir bestan árangur í faggreinum rafiðna.
Gefandi er Ískraft á Akureyri.

Helena Karen Árnadóttir fær verðlaun fyrir bestan árangur í íslensku. Gefandi er Eymundsson á Akureyri.
Helena hlýtur einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur í þýsku á stúdentsprófi. Gefandi er þýska sendiráðið í Reykjavík.

Íris Þengilsdóttir hlýtur verðlaun fyrir bestan árangur í raungreinum á stúdentsprófi. Gefandi er Gámaþjónusta Norðurlands.

Kristín Halla Eiríksdóttir hlýtur viðurkenningu frá skólanum fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi.
Kristín fær jafnframt viðurkenningu frá fræðslusviði Íþróttasambands Íslands á Akureyri  fyrir frábæran árangur í sérgreinum íþróttabrautar.
Sigrún Lind Sigurðardóttir  hlýtur viðurkenningu fyrir bestan árangur á myndlistargreinum á listnámsbraut. Gefandi er Litaland Akureyri.


Unnur Arnsteinsdóttir  hlýtur viðurkenningu fyrir bestan árangur á lokaprófi og í sjúkraliðagreinum. Gefandi er Sjúkrahúsið á Akureyri.
Unnur hlýtur einnig viðurkenningu fyrir framúrskarandi meðaleinkunn.
Gefandi er Ljósgjafinn.

Góður skólaþegn.
Jónas Þór Karlsson hlýtur viðurkenningu frá skólanum fyrir að vera góður skólaþegn. Hann er verðugur fulltrúi allra þeirra nemenda sem stunda nám sitt af samviskusemi og koma fram af prúðmennsku og kurteisi.

Hvatningarverðlaun skólameistara eru veitt nemanda sem hefur sýnt miklar framfarir á námstíma sínum í skólanum, starfað að félags- eða hagsmunamálum nemenda og haft jákvæð áhrif á skólasamfélagið auk þess að hafa verið sjálfum sér, samnemendum sínum og skólanum til sóma á einhvern hátt. Að þessi sinni hlýtur Rebekka Matcke, stúdent af listnámsbraut, þessi verðlaun.

Ásmundur Kristjánsson fær alveg sérstaka viðurkenningu fyrir það að hafa slegið einingamet brautskráningarnema fyrr og síðar við skólann. Hann hefur þegar brautskráðst sem fjórða stigs vélstjóri, tæknistúdent og bifvélavirki en nú sem rafvirki og hefur hlotið í allt 331 einingar. Gefandi er Nýherji á Akureyri.

6. Blómvendir
Við afhendum ávallt nokkrum nemendum  sem  hafa starfað dyggilega að félagslífi í skólanum blómvönd sem þakklætisvott fyrir dugnað og ósérhlífni í þágu félaga sinna. Ýmist hefur það ágæta fólk gegnt ábyrgðarstörfum fyrir nemendafélagið Þórdunu eða í heimavistarráði ellegar tekið eða lagt gjörva hönd á plóginn á öðrum sviðum skólalífsins.

Börkur Guðmundsson
Ingvi Þór Bessason
Jónas Þór Karlsson
Kristín Halla Eiríksdóttir. Kristján Árnason
Rebekka Matcke
Sigurjón Andrés Jónasson
Silja Garðarsdóttir
Sólveig Sara Ólafsdóttir
Sunna Mjöll Bjarnadóttir

7. Ávarp brautskráningarnema:  Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir

8. Kveðja og athafnarlok
Ágætu brautskráningarnemar.
Nú, sem endranær, á stund sem þessari, langar mig að brýna fyrir ykkur nokkur mikilvæg gildi – eins og það að bera virðingu fyrir viðhorfum og skoðunum annarra. Að sýna samferðarfólki ykkar umburðarlyndi, jafnrétti og gagnkvæma virðingu og vera æðrulaus gagnvart því sem þið ráðið ekki við.
Hafið í huga að ekkert  það starf er svo ómerkilegt að það eigi ekki skilið af vera leyst af hendi af alúð og samviskusemi. Verið trú yfir því sem ykkur er treyst fyrir – í stóru sem smáu.
Þá vil ég biðja ykkur að vera trú uppruna ykkar og heimabyggð – fara vel með móðurmál ykkar og hæfileikana sem ykkur eru í blóð bornir.

Þá þakka ég samstarfsfólki mínu fyrir vel unnin störf á önninni og undirbúning og framkvæmd þessarar hátíðar okkar í dag.

Vil ég enda þessi orð mín með ljóðinu Aðventu eftir hinn mæta mann Hákon heitinn Aðalsteinsson. Það á ekki síður við í dag en þegar það birtist fyrst í ljóðabókinni Bjallkollu sem út kom árið 1992. Ég las það hér upp fyrir tveimur árum og leyfi mér að gera það aftur nú.Aðventa
 
Brátt nálgast sú helgasta hátíð í bæ
með heilögu ljósunum björtum
andi guðs leggst yfir lönd, yfir sæ
og leitar að friði í hjörtum.
 
En nú virðist fegurðin  flúin á braut,
friðurinn spennu er hlaðinn.
Lífsgæðakapphlaup og kauphallarskraut
er komið til okkar í staðinn.
 
Þá vill hann oft gleymast sem farveg oss fann
fæddur á jötunnar beði,
við týndum úr hjartanu trúnni á hann
og tilefni jólanna gleði.
 


Vökvaðu kærleikans viðkvæmu rós
þá veitist þér andlegur styrkur,
kveiktu svo örlítið aðventuljós
þá eyðist þitt skammdegismyrkur.
 
Það ljós hefur tindrað aldir og ár,
yljað um dali og voga,
þó kertið sé lítið og kveikurinn smár
mun kærleikur fylgja þeim loga.
 
Láttu svo kertið þitt lýsa um geim
loga í sérhverjum glugga,
þá getur þú búið til bjartari heim
og bægt frá þér vonleysisskugga.

Brautskráning VMA


Ágætu gestir.
Brautskráningarnemum og aðstandendum þeirra, starfsfólki og öðrum gestum óska ég gleðilegra jóla og þakka öllum fyrir þessa góðu stund hér í Hofi.
Ég vil minna brautskráningarnema á myndatökuna hér á eftir – en nú göngum við niður af sviðinu í fallegri röð.