Fara í efni

Brautskráning VMA í Hofi

Brautskráning fór fram í glæsilegum aðalsal Hofs kl. 10, laugardaginn 26. maí. Útskrifaðir voru nemendur sem lokið hafa burtfararprófi á iðn- og starfsnámsbrautum ásamt stúdentum. Rúmlega 190 nemendur brautskráðust frá skólanum í þetta sinn. Veitt voru verðlaun fyrir góðan námsárangur og blómvendi fengu nokkrir nemendur fyrir góða og virka þátttöku í skólastarfi. Sjá nýjar myndir í myndasafninu.

Brautskráning fór fram í glæsilegum aðalsal Hofs kl. 10, laugardaginn 26. maí. Útskrifaðir voru nemendur sem lokið hafa burtfararprófi á iðn- og starfsnámsbrautum ásamt stúdentum. Rúmlega 190 nemendur brautskráðust frá skólanum í þetta sinn. Veitt voru verðlaun fyrir góðan námsárangur og blómvendi fengu nokkrir nemendur fyrir góða og virka þátttöku í skólastarfi. Sjá nýjar myndir í myndasafninu.

Glæsilegur hópur
Glæsilegur hópur -  ný stærri mynd

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari flutti góða ræðu og fer hún hér á eftir


Kæru brautskráningarnemar, aðstandendur, kennarar og starfsfólk Verkmenntaskólans, formaður skólanefndar og aðrir gestir.

Velkomin á brautskráningarathöfn Verkmenntaskólans á Akureyri.

Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér á þessum fallega vordegi og samfagna með ykkur brautskráningarnemum og ástvinum ykkar.  Það er stolt í mínu hjarta yfir því að vera hér uppi á sviði með þessum glæsilega hópi og ég veit að það er stolt í hjörtum ykkar allra líka.

Hér eru líka kennarar og starfsfólk skólans sem horfa með gleði og stolti til ykkar – en ekki síður þakklæti yfir því að hafa tekið þátt í að móta þá einstaklinga sem sitja hér fyrir aftan mig.

Kennarastarfið er alveg ótrúlega gefandi starf og ég held að við sem störfum við kennslu gleymum því stundum hve heppin við erum að fá að taka þátt í því að móta einstaklinga til framtíðar. Við eigum það til að kvarta yfir áhugaleysi nemenda, jafnvel segjum að þeir séu latir og vilji ekki hafa fyrir hlutunum. Í vetur hefur verið fjallað um þetta áhugaleysi í fjölmiðlum og sitt sýnist hverjum. Sem betur fer vöktu nokkrir nemendur í framhalds- og háskólum athygli fyrir greinar sínar þar sem fjallað var um hið meinta áhugaleysi nemenda - en það var sýn þeirra til náms og kennslu sem vakti áhuga minn. Þessir nemendur kalla á endurskoðun á uppbyggingu náms og kennsluháttum sem eru ekki að ná til nemenda. Við skólafólkið þurfum að hlusta á þessa gagnrýni. Það er engri stétt hollt að festast inni í eigin glerskáp og halda að maður sé yfir alla gagnrýni hafinn. Við eigum að gera miklu meira af því að hlusta á nemendur og þeirra sýn á nám, við eigum að hlusta á það þegar þeir segja að kennarar nái ekki til þeirra og að námið sé ekki áhugavert. - og við verðum að bregðast við því.

Það er hlutverk framhaldsskólans að undirbúa nemendur undir líf og störf í lýðræðisþjóðfélagi og einn liður í þeim undirbúningi er að virkja lýðræðið meira inni í náminu og kennslustofunni. Við verðum að þola þessa gagnrýni og vinna með nemendum. Það að hlusta á raddir nemenda er að vinna með þeim og fá þá til að vinna með okkur. Það er ekki það sama og láta allt eftir þeim og leyfa þeim að hafa námið bara eins og þeim sýnist, lýðræði snýst ekki um það. Við þurfum að kenna nemendum okkar að bera ábyrgð á námi sínu og um leið að bera virðingu fyrir því sem þau eru að gera.

Í byrjun maí var birt úttektarskýrsla á starfsemi VMA sem gerð var fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Í þeirri skýrslu komu berlega í ljós styrkleikar VMA sem framhaldsskóli með fjölbreytt námsframboð og mörg tækifæri tilgreind til að efla skólann enn frekar. Í úttektinni kom jafnframt fram að VMA er góður vinnustaður, starfsfólki líður vel og starfánægja er með því hæðsta sem sést hjá opinberum stofnunum. Ég er stolt af því að tilheyra þessum skemmtilega og metnaðarfulla starfsmannahópi og það hefur verið afar gefandi að fá tækifæri til að leiða starfið með hópnum í vetur.

Það verður sameiginlegt hlutverk okkar kennara og stjórnenda á næsta skólaári að vinna enn frekar að þeim markmiðum sem við höfum sett okkur til framtíðar. Skólann þarf að kynna í nærsamfélaginu og ekki síst hér á Akureyri. Við þurfum að kynna vel fyrir hvað við stöndum, hvað fer fram í skólanum og hvernig við erum að skila nemendum okkar áfram í háskóla og til atvinnulífsins.

Í nýrri úttekt sem Háskóli Íslands gerði á námsgengi nemenda kemur fram að framhaldsskólar á Íslandi eru að öllu jafna að undirbúa nemendur vel undir nám í háskóla. Ungt fólk á Íslandi hefur aðgang að góðum framhaldskólum og erum við í VMA stolt af árangri nemenda okkar í HÍ. En árangur er ekki bara mældur í einkunum nemenda þótt þær séu að sjálfsögðu mikilvægur mælikvarði.

Við höfum alltaf sagt að VMA sé góður skóli fyrir alla nemendur og við það viljum við standa. Við ætlumst að sjálfsögðu til þess að nemendur leggi sig fram en við horfum ekki á einkunir, stétt eða stöðu þegar við tökum nemendur inn í skólann – við viljum geta boðið nemendum okkar upp á fjölbreytileika því það er það sem bíður nemenda okkar í framtíðinni.

Fjölbreytileikinn er einmitt það sem margir okkar nemenda nefna sem einn af helstu kostum skólans. Sú hæfni sem nemendur okkar fá við að takast á við breytingar og kynnast ólíku fólki sem stefnir í fjölbreyttar áttir er veganesti sem styrkir þá til framtíðar.
helmingur hópsins

Á fundi í HÍ sem ég fór á ásamt stjórnendum úr flestum framhaldsskólum landsins þar sem farið var yfir fyrrnefnda úttekt var einnig fjallað um gengi nemenda í framhaldsskóla og háskóla út frá einkunn í grunnskóla. Í stuttu máli sagt var niðurstaðan sú að nemanda sem gengur vel að læra í grunnskóla heldur áfram að ganga vel í framhaldsskóla og honum vegnar líka vel í háskóla. Algjörlega óháð þeim framhaldsskóla sem nemandinn fór í.

Þessi niðurstaða sýnir það enn betur að framhaldsskólar á Íslandi vinna almennt gott starf. Úttektin sýnir líka að þeir skólar sem þurfa að hafna umsækjendum velja þá nemendur sem gengur best í grunnskóla og að sjálfsögðu gengur þeim nemendum áfram vel í framhaldsskólanum og háskóla.

Ögrunin er hjá þeim skólum sem taka við öllum nemendum óháð námsgetu og það er jafn mikilvægt að koma þeim áfram í framhaldsskóla sem þurfa lengri tíma til að ná sínum námsmarkmiðum eins og þeim sem gengur alltaf vel að ná þeim. Gleymum því ekki þegar úttektir á “besta framhaldsskólanum” eru birtar í fjölmiðlum.

Í vetur hefur að frumkvæði Mennta- og menningarmálaráðuneytis verið haldnir 18 fundir með um eitt þúsund þátttakendum um allt land undir heitinu "Starfsmenntun - hvert skal stefna"? Fulltrúar VMA hafa verið á flestum þessum fundum, þar sem fulltrúar úr atvinnulífinu, starfsgreinaráðum, ráðuneytinu, fulltrúar nemenda og skólafólk hefur rætt um stefnumótun starfsmenntunar á Íslandi.

Með þessum fundum hefur samræða og samstarf skóla og atvinnulífs án vafa eflst og við haldið þessari samræðu áfram hér á Akureyri. Við erum búin að halda fundi með kennurum og fyrirtækjum í bifvélavirkjun hér á Akureyri og einnig með hagsmunaaðilum í málm- og véltæknigreinum. Þessir fundir hafa verið mjög góðir fyrir alla aðila og hefur verið ákveðið að halda þessu samskiptum áfram m.a. með kynningum með atvinnulífinu og Félagið málmiðnaðarmanna á Akureyri. Í haust er síðan stefnt að því að funda með fyrirtækjum í byggingagreinum og rafiðngreinum. Þessir fundir hafa fullvissað mig um það að það er hagur nemenda og skólans að vera í góðu sambandi við atvinnulífið – en ekki er það síður mikilvægt fyrir atvinnulífið að þekkja það sem er að gerast í skólanum.

Það er afar mismunandi á milli greina hve mikil þróun hefur orðið á námi einstaka greina en margar hugmyndir í farvatninu enda skólar nú með meira sjálfstæði en áður til að þróa námsbrautir. Kennarar og stjórnendur í VMA hafa í vetur sótt um nokkra styrki til að efla þróun innan skólans og hafa það verið mér ákveðin vonbrigði að hafa fengið höfnun á þeim verkefnum sem við höfum sóst eftir að fá að vinna að.

Það er talað um það á hátíðis og tyllidögum að efla þurfi iðn- og tækninám en enginn útskýrir frekar hvað það er og hvað þurfi til. Það þarf að leggja til fé í þróun inn til skólanna, þar hefur Ríkið lítið gert til að efla skólana. Við höfum ekki marga sjóði til að leita í en mér fannst það frekar skrýtið að þegar úthlutun úr Sprotasjóði var tilkynnt þá fengu tvö verkefni styrk sem snúa að iðn- og tækninámi – af 43,5 milljónum fóru 2,5 milljónir í starfsnám. VMA sótti um styrk í þennan sjóð til að þróa skólanámsskrá skólans að þörfum nærumhverfisins og atvinnulífsins á svæðinu en fékk höfnun. Nú er verið að leggja lokahönd á styrkumsóknir í sjóð sem tengist átaksverkefninu “Nám er vinnandi vegur” og höfum við miklar væntingar til þess að við hljótum náð fyrir þeim sem halda utan um þá sjóði.

En það er eitt að þróa nám og námsbrautir. Iðn- og tækninám kallar á meiri tækjabúnað en hefðbundið bóknám. Framhaldsskólar landsins hafa eins og aðrar stofnanir þurft að spara og í nokkur ár hefur lítið verið keypt af tækjum inn í skólana. Tækjabúnað skólanna þarf að efla og ein leið til þess er að fá atvinnulífið í lið með okkur og vonast ég til að okkur takist með hjálp góðra velunnara skólans að efla tækjakostinn í VMA.

Ég hef líka talsverðar áhyggjur af því að fá ekki kennara í þessar greinar, annars vegar vegna þess að ekki hefur verið í boði í nokkurn tíma kennsluréttindanám fyrir iðnmeistara við Háskólann á Akureyri og hins vegar vegna þess að í sumum greinum getum við ekki boðið samkeppnishæf laun.


Með því að efla starfsnám eflum við um leið okkar góðu stúdentsbrautir. Næsta skólaár verður haldið áfram með þróun stúdentsbrauta úr frá nýrri aðalnámsskrá þar sem grunnþættirnir sex; læsi, lýðræði og mannréttindi, sköpun, sjálfbærni, heilbrigði og velferð og jafnrétti verða hafðir að leiðarljósi.

Félagslífið í skólanum hefur verið hefðbundið á önninni. Það mæðir mikið á stjórn nemendafélagsins við skipulag og framkvæmd t.d. árshátíðar, söngkeppni og á opnum dögum. Fulltrúi VMA í söngkeppni framhaldsskólanna náði frábærum árangri í lokakeppni þar sem Jóhann Óðinsson oftast kallaður Jói Óda náði 2. sæti.

Skólaárið hefur hingað til byrjað með busavígslu. Á hverju ári fer fram umræða um breytingar á þessari hefð sem mörgum nemendum finnst sjálfsagður hluti af félagslífi nemenda meðan aðrir vilja busunina  burt. En nú höfum við ákveðið að fara aðrar leiðir. Í stað þess að eldri nemendur taki á móti nýnemum með látum og jafnvel niðurlægingu verður vel tekið á móti nýnemum með allt öðrum hætti en hingað til hefur tíðkast í framhaldsskólum. Nýnemahátíðin verður hátíð allra í skólanum og í samvinnu við hóp nemenda var ákveðið að hafa ákveðið þema til að vinna eftir – Harry Potter varð fyrir valinu og verður skólastarfið í anda þess sem gerist í sögunum um Harry Potter t.d. verður skólanum skipt upp í vistir eins og í Hagwart-skóla, boðið upp á galdrasúpu, nemendur og kennarar mæta í búningum, keppt verður í ýmsum Harry-Potter þrautum og allt endar þetta með stóru balli. Markmiðið er að hafa gaman, læra og skapa nýja hefð þar sem horft verður til þess að gera nýnemahátíðina meira í anda virðingar og vináttu en áður.

Í mars tóku nokkrir nemendur okkar þátt í Íslandsmeistaramóti iðn- og verkgreina sem fram fór í Háskólanum í Reykjavík. Okkar nemendur stóðu sig frábærlega. Börkur Guðmundsson varð Íslandsmeistari í rafvirkjun. Arnleif Höskuldsdóttir nemi í kjötiðn fékk gullverðlaun. Jeff Chris Hallström á hársnyrtibraut kom heim með silfurverðlaun og það gerðu sjúkraliðarnir Sunna Mjöll Bjarnadóttir og Hildur Björk Benediktsdóttir einnig. Frábær árangur nemenda okkar .

Það er afar mikilvægt að í skólanum sé haldið vel utan um félagslíf nemenda. Í VMA hefur tekist að halda úti öflugu félagslífi þar sem nemendur hafa skemmt sér án áfengis og vímuefna, eitthvað sem er sérstakt fyrir framhaldsskólana á Akureyri og horfa margir framhaldsskólar til okkar í forvarnarmálum og félagslífi nemenda.

Ég vil þakka félagsmálafulltrúum skólans þeim Hrafnhildi Sigurgeirsdóttur og Ómari Kristinssyni fyrir að halda utan félagslífið með nemendum. VMA hefur á síðustu árum haldið þétt utan um starfsemi nemendafélagsins og stutt nemendur í þeirra málum. Sem skólameistara finnst mér það ákveðin forréttindi að eiga þessi góðu samskipti við nemendafélagið því það er ekki sjálfgefið. Ég vil þakka stjórn Þórdunu fyrir vel unnin störf á önninni og hlakka til næsta skólaárs.

Erlent samstarf hefur verið með miklum blóma og er alltaf að eflast innan skólans. Við verðum að hafna mörgum beiðnum um samstarf við erlenda skóla þar sem við ráðum einfaldlega ekki við meira í bili. Nemendur njóta góðs af þessum verkefnum m.a. hafa sjúkraliðar og matvælabrautarnemendur farið til Danmerkur og Finnlands í starfsþjálfun núna undanfarnar annir. Þá fóru nokkrir nemendur með Ólafi Björnssyni íþróttakennara til Svíþjóðar og Noregs á þessu skólaári. Þessi tækifæri fyrir nemendur eru dýrmæt og efla sjálfstæði og víðsýni þeirra.

Skólinn fékk í síðast liðið sumar nær 30 milljóna styrk frá Leonardo starfsmenntasjóði Evrópusambandsins. Styrkurinn fjármagnar samstarfsverkefni nokkura landa þar sem markmiðið er að útbúa leiðbeiningar og gátlista fyrir starfsfólk sem tekur að sér nema á vinnustöðum í starfsþjálfun, svokallaðir Mentorar. Verkefnið er tveggja ára verkefni og er það VMA sem heldur utan um vinnu hópsins. Þetta verkefni er mikilvægt fyrir okkur og styrkir þá vinnu sem mun fara fram á næstu misserum í tengslum við ný framhaldsskólalög þar sem gert er ráð fyrir meiri ábyrgð framhaldsskólanna á námi nemenda úti á vinnustöðunum.


Útskriftarhópurinn í dag er glæsilegur. Að þessu sinni erum við að útskrifa marga afburðarnemendur frá skólanum og eru alls 191 nemandi að brautskrást með 223 skírteini. Þetta er fjölmennasti hópur sem hefur verið útskrifaður frá skólanum og alls höfum við útskrifað 292 nemendur á þessu skólaári þar sem 101 nemandi var útskrifaður í desember. 

Nokkrir nemendur eru nú að útskrifast með tvö og jafnvel þrjú prófskírteini. Sá möguleiki sem áfangakerfið gefur nemendum til að hafa fjölbreytileika í náminu sínu er nánast óendanlegur. Þeir nemendur sem velja að taka iðn- eða starfsnám og bæta síðan við stúdentsprófinu eru á margan hátt mjög vel undirbúin undir háskólanám. Sérstaklega á það við nemendur sem ætla sér í verk- eða tæknifræði þar sem mikilvægt er að gera sér grein fyrir því hvernig það er að starfa við vélar og tæki eða á byggingastað. Þá eru hér nokkrir sjúkraliðar sem útskrifast einnig sem stúdentar og ég veit að sá undirbúningur er afar góður fyrir allt háskólanám í heilbrigðisvísindum. Þá erum við að útskrifa 14 iðnmeistara þar sem helmingur þeirra hefur tekið meistaranám sitt að mestu í gegnum fjarnám VMA en hinn helmingurinn í gegnum í kvöldskóla en kvöldskólaformið var endurvakið í iðnmeistaranáminu eftir nokkurra ára hlé nú í vetur.

Í dag útskrifum við í fyrsta skiptið í mörg ár nemendur í háriðn. Við erum stolt af því að hafa stigið það skref fyrir fjórum árum að hefja aftur kennslu í háriðn og eru nokkrir af þessum nemum sem við útskrifum núna á leið í sveinspróf. Það er alltaf ákveðin tilhlökkun hjá okkur í skólanum að heyra hvernig nemendum okkar gengur í sveinsprófum því þar verða verk kennara og nemenda lögð í endanlegt mat. Svo þið sem eruð að fara í sveinspróf á næstunni – þetta er enginn pressa frá okkur, við vitum að þið komið til að standa ykkur vel.

Það eru ákveðin tímamót í brautskráningu vélstjóra þar sem þetta er síðasti hópurinn sem lýkur námi eftir námskrá þar sem réttindin eru nefnd 1. 2. 3. og  4.-stig en tveir nemendur eru að ljúka námi eftir nýrri námskrá þar sem réttindin eru nefnd A B C og D-réttindi. 

Í dag er uppgangur og bjart yfir málmiðnaðinum í landinu og vöntun á starfsmönnum með góða menntun á þessu sviði. Umsóknum um nám í málm- og véltæknigreinum hefur fjölgað síðustu ár enda um nokkrar leiðir fyrir nemendur að velja eftir grunndeild. Framundan eru einnig spennandi tímar fyrir málm- og véltæknigreinarnar því VMA hefur verið boðið að vera með í verkefni sem tækniskóli í Stavanger í Noregi heldur utan um,  en verkefnið snýst um að undirbúa nám á framhaldsskólastigi í sambandi við olíuleit með skólum á Íslandi (VMA), Færeyjum og Grænlandi.

Þess má geta að á næsta skólaári eru 30 ár frá því að skólinn hóf starfsemi sína í húsnæði skólans á Eyrarlandsholti þegar Málmsmíðadeild við Iðnskólann á Akureyri flutti úr afar litlu húsnæði sem var við Glerárgötuna upp á Holtið. Iðnskólinn á Akureyri var einn af þeim skólum sem stóðu að stofnun VMA á sínum tíma. Þá leiddi starf málmsmíðadeildarinnar Gunnlaugur Björnsson sem hefur verið brautarstjóri og kennari í málmiðngreinum í hartnær 40 ár. Gunnlaugur er því einn af okkar frumkvöðlum sem hefur byggt upp námið í VMA með miklum metnaði og flestir málmiðnaðarmenn hér á Akureyri hafa lært handbragðið og vinnusemina af Gulla. Hann mun láta af störfum nú í vor og vil ég þakka honum fyrir farsælt starf hér í skólanum. 
hinn hluti hópsins

Í útskriftarhópnum núna eru nokkrir nemendur sem hafa farið í gegnum svokallað raunfærnimat þar sem þeir fá metna til eininga þá fagþekkingu sem þau hafa. Þetta styttir tímann sem þau þurfa að vera í skólanum og er frábært tækifæri fyrir þá sem lengi hafa starfað innan ákveðinna greina án formlegrar menntunar og réttinda.

Mig langar til að nefna sérstaklega hóp matartækna sem munu útskrifast hér á eftir. Fyrir ári síðan hitti ég hóp 13 ófaglærðra reynslumikilla kvenna sem flestar störfuðu í skólamötuneytum hér á Akureyri. Þessi hópur hafði farið í raunfærnimat og nú var það skólans að útbúa námsleið fyrir þær til að klára pakkann. Það gerðum við í samvinnu við SÍMEY og Sveitamennt sem er starfsmenntunarsjóður starfsmanna sveitarfélaga á landsbyggðinni. Þessar konur komu á kynningarfund í VMA síðast liðið vor, margar með hnút í maganum og skelfingarsvip yfir því að vera komnar í þessa stöðu að ætla í skóla. Sumar höfðu aldrei verið í framhaldsskóla og því töluvert átak að taka þetta skref. Með styrk frá hvor annarri og frábæru starfi kennaranna tókst þeim að klára faggreinarnar sem vantaði upp á og núna erum við að útskrifa hluta af hópnum. Við héldum litla útskriftarhátíð fyrir þær í VMA fyrir hálfum mánuði síðan og það var allt annað upplit á þeim núna miðað við í fyrra. Gleðin geislaði af þeim og stoltið yfir því sem þær höfðu gert í vetur var greinilegt.

Að öllum þessum konum ólöstuðum verð ég að minnast á eina úr hópnum sem hefur svolítið ólíkan bakgrunn miðað við flest okkar hér. Þessi kona fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Akureyrar fyrir 10 árum síðan sem flóttamaður frá Serbíu. Við komuna til landsins hafði hún engin gögn um menntun sína í heimalandinu en hún hafði lært til kokks í heimalandinu. Gögnin hennar eru ekki lengur til þau hurfu í sprengjuregni og eldum. Hún er ein af mörgum sigurvegurunum okkar hér í dag og skírteinið sem hún fær hér á eftir veit ég að er henni afar dýrmætt. Við hin getum ekki sett okkur í þau spor sem hún og landar hennar hafa þurft að vera í en ég held að við hin getum lært það af sögu hennar að sumir hlutir sem við teljum sjálfgefna eru það ekki alltaf.
Ég má líka til með að nefna það líka að dóttir hennar er líka að útskrifast sem stúdent frá okkur í dag.

Áður en lengra er haldið vil ég biðja Valdísi Eiríksdóttur nemda okkar að koma hingað upp ásamt Heimi Ingimarssyni til að taka fyrir okkur eitt lag. Valdís var fulltrúi VMA í söngkeppni framhaldsskóla árið 2011 og náði þar góðum árangri. Heimir er stúdent frá VMA.

En þá er ekki eftir neinu að bíða og best að leyfa nemendum að eiga sviðið um stund. Ég vil biðja Jónas Jónsson kennslustjóra samfélagsgreinasviðs að koma hingað til að útskrifa nemendur af samfélagsgreinasviði. Ég vil jafnframt biðja gesti um að klappa vel fyrir nemendum – þegar nafn þeirra hefur verið lesið upp.

Þá vil ég bjóða Borghildi Blöndal að koma hingað upp til að útskrifa nemendur af raungreinasviði. Ég mun jafnframt afhenda sjúkraliðanemendum rós frá Deild sjúkraliða á Norðurlandi eystra og þakka ég félaginu fyrir að sýna sjúkraliðanemendum þennan hlýhug við útskriftina.

Ég vil biðja Ragnheiði Gunnbjörnsdóttur kennslustjóra starfsbrautar að koma hingað upp til að útskrifa nemendur af starfsbraut.

Næst býð ég Örnu Valsdóttur kennslustjóri listnámsbrautar að útskrifa nemendur af listnámsbraut.

Þá vil ég biðja Baldvin Ringsted kennslustjóra tæknisviðs að koma hingað til að útskrifa nemendur af tæknisviði.

Að lokum er það kennslustjóri fjarnáms Ingimar Árnason sem kemur hingað upp til að útskrifa nemendur í fjarnámi og meistaraskóla.
Setja upp húfuna!

Áður en lengra er haldið vil ég biðja Valdísi Eiríksdóttur nemda okkar að koma hingað upp ásamt Heimi Ingimarssyni til að taka fyrir okkur eitt lag.

verðlaunahafar
Verðlaunahafar


Þá er komið að því að veita verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur og bið ég Benedikt Barðason aðstoðarskólameistara, um að aðstoða mig við afhendingu verðlaunanna.

Að vanda eru það samstarfsaðilar og velunnarar skólans sem gefa verðlaunin og þakka ég kærlega fyrir þann hlýhug sem skólanum er sýndur.

Verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í samfélagsgreinum eru veitt úr Minningarsjóði Alberts Sölva Karlssonar sem var kennari hér við skólann. Albert Sölvi var frábær kennari, góður félagi og mikill sögumaður og minnumst við hans við hverja útskrift með þessum verðlaunum. Það er Jónas Þórólfsson nýstúdent af félagsfræðabraut sem hlýtur verðlaunin. Jafnframt fær Jónas verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í þýsku en þau verðlaun gefur þýska sendiráðið.

Fyrir framúrskarandi árangur í dönsku gefur danska sendiráðið bókarverðlaun. Sú sem hlýtur verðlaunin er Björk Eldjárn Kristjánsdóttir nýstúdent af listnámsbraut.

Kaupmannafélag Akureyrar gefur verðlaun til fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi af viðskipta- og hagfræðibraut. Verðlaunin hlýtur Kristján Loftur Helgason. Einnig fær hann verðlaun fyrir góðan árangur í faggreinum viðskipta- og hagfræðibrautar sem Landsbankinn gefur.

Það er Kanadíska sendiráðið sem gefur verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í faggreinum myndlistarkjörsviðs listnámsbrautar. Verðlaunin hlýtur Birna Dröfn Pálsdóttir nýstúdent af listnámsbraut.


Eymundsson gefur verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku. Nemandinn sem fær þau verðlaun fær einnig verðlaun fyrir framúrskarandi árangur samanlagt í ensku, íslensku og þýsku frá Hugvísindasviði Háskóla Íslands . Það gefur þá líklega auga leið að umræddur nemandi fær líka verðlaun frá SBA-Norðurleið fyrir framúrskarandi árangur í ensku til stúdentsprófs. Ég vil biðja  Gyðu Dröfn Sveinbjörnsdóttur nýstúdent af listnámsbraut að koma hingað og veita þessum verðlaunum viðtöku. Þetta er samt ekki alveg búið því Gyða fær einnig verðlaun frá Kvennasamband Eyjafjarðar sem hefur um árabil verðlaunað nemanda skólans sem hefur sýnt bestan árangur í hönnunar- og textílgreinum. - og að lokum fær Gyða verðlaun frá Íslandsbanka fyrir bestan árangur á stúdentsprófi – hún er verðugur dúx skólans.

FSA hefur um árabil veitt verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í faggreinum sjúkraliða. Berglind Eiðsdóttir sjúkraliði hlýtur verðlaunin að þessu sinni.

Þýska sendiráðið gefur verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í þýsku til stúdentsprófs. Jónas Þórólfsson nýstúdent af félagsfræðabraut hlýtur verðlaunin.

Efnafræðingafélagið gefur verðlaun sem veitt eru fyrir framúrskarandi árangur í efnafræði. Ég vil biðja Helga Barðasson nýstúdent af náttúrufræðibraut að koma hingað og taka við verðlaununum. 

BYGGIÐN - Félag byggingamanna gefur verðlaun fyrir bestan árangur í húsasmíði. Verðlaunin hlýtur Hjörtur Garðarsson húsasmiður.

BYGGIÐN - Félag byggingamanna gefur jafnframt verðlaun fyrir bestan árangur í húsgagnasmíði. Verðlaunin hlýtur Berglind Júdith Jónasdóttir húsgagnasmiður.

BYGGIÐN - Félag byggingamanna gefur jafnframt verðlaun fyrir bestan árangur í málaraiðn.
Ég vil biðja Stefán Austfjörð Gunnarsson málara að veita verðlaununum viðtöku.

Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri gefur verðlaun fyrir bestan árangur í bifvélavirkjun. Ég vil nota tækifærið og þakka félaginu fyrir gott samstarf og þá hvatningu sem félagið veitir nemendum í málmiðngreinum. Það eru tveir nemendur sem fá verðlaunin að þessu sinni en það eru bifvélavirkjarnir Aron Ásbjörn Sigurðarson og Ólafur Uni Karlsson.

Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri gefur verðlaun fyrir bestan árangur í blikksmíði. Víðir Benediktsson blikksmiður hlýtur þau verðlaun.

Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri gefur verðlaun fyrir bestan árangur í stálsmíði en einnig gefur félag vélstjóra og málmtæknimanna verðlaun fyrir bestan árangur í stálsmíði. Ég vil biðja stálsmiðina Guðbrand Thoroddsen og Þorgrím Guðmundsson að koma og veita verðlaununum viðtöku.

Eins og fram hefur komið erum við að útskrifa í fyrsta skiptið í langan tíma nemendur í háriðn. Það er Proact heildverslun sem gefur verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á hársnyrtibraut og verðlaunin fær Bryndís Þorsteinsdóttir.

Veitingahúsið Strikið gefur verðlaun fyrir bestan árangur í matartæknanámi. Ég vil biðja Sigurlínu Ragúels matartækni að koma hingað og taka við verðlaununum. 

Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri gefur verðlaun fyrir bestan árangur í Vélvirkjun og er það Guðmundur Kristjánsson sem hlýtur þau verðlaun.

Íslenska stærðfræðafélagið gefur verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í stærðfæði. Sá sem fær þau verðlaun fær jafnframt verðlaun frá Háskólanum í Reykjavík, þar er um að ræða bókarverðlaun og ef viðkomandi skráir sig í nám í HR fær hann niðurfelld skólagjöld á sinni fyrstu önn. Þau verðlaun hlýtur semi-dux skólans Árni Ingimarsson nýútskrifaður vélstjóri og stúdent en hann fær einnig verðlaun frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna fyrir góðan árangur í vélstjórnargreinum.

Félag vélstjóra og málmtæknimanna verðlaunar einnig Svanhildi Björgu Pétursdóttur fyrir góðan árangur í vélstjórnargreinum.

Félagi vélstjóra og málmtæknimanna verðlaunar einnig vélstjórnarnemanda sem hefur sinnt félagsmálum nemenda af dugnaði og eru það nemendur sjálfir sem velja verðlaunahafann. Ég vil biðja Níels Kristinn Benjamínsson    að koma og taka við verðlaununum.


Verðlaun fyrir bestan árangur á stúdentsprófi af náttúrufræðabraut gefur Gámaþjónusta Norðurlands. Sú sem hlýtur þau verðlaun er Harpa Birgisdóttir nýstúdent af náttúrufræðabraut.

Nýherji gefur verðlaun til nemanda sem hefur sýnt framúrskarandi árangur á starfsbraut, ég vil biðja Ingvar Axel Gunnarsson að koma og veita verðlaununum viðtöku. Ingvar Axel hefur verið virkur í félagslífi skólans og sinnt náminu af áhuga og dugnaði.

Hvatningarverðlaun skólameistara eru nú veitt í fyrsta skiptið. Þessi verðlaun eru veitt nemanda sem hefur sýnt miklar framfarir í námi á námstímanum, starfað að félagsmálum nemenda, haft jákvæð áhrif á skólasamfélagið eða verið sér, nemendum og skólanum til sóma á einhvern hátt.  Valið var nokkuð erfitt enda ekki sambærilegir mælikvarðar og einkunir til að velja úr verðlaunahafann. Sú sem hlýtur þessi verðlaun er nemandi sem hefur starfað að hagsmunagæslu fyrir nemendur, hún er afburðar nemandi, jákvæð og hefur oftar en ekki verið eina konan í flestum þeim áföngum sem hún hefur setið í. Hún er fjórða konan sem útskrifast sem vélstjóri frá VMA. Ég vil biðja Svanhildi Björgu Pétursdóttur vélstjóra með meiru að koma og veita verðlaununum viðtöku.

Í Hofi

Það er skólanum afar mikilvægt að hér sé öflugt félagslíf og margir nemendur leggja mikið á sig til að halda utan um félagslíf samnemenda sinna. Við brautskráningu hefur skólinn ávallt afhent blómvendi til þeirra nemenda sem setið hafa í stjórn Þórdunu nemendafélags skólans eða komið með öðrum hætti að félagslífinu. Ég vil  biðja þessa nemendur að koma til okkar og veita blómunum viðtöku og kalla til:

•    Sveinbjörg Jana Aðalsteinsdóttir, Ívan Méndez og Bryndís Þorsteinsdóttir fyrir að hafa hendur í hári nemenda og aðstoð á ýmsum viðburðum.
•    Einar Ólason og Hilmar Smári Birgisson fyrir aðstoð á viðburðum og kynningar á árshátíð.
•    Harpa Birgisdóttir, Íris Sveinbjörnsdóttir og Kolbrún Ósk Baldursdóttir sem allar hafa verið í stjórn Þórdunu.
•    Svanhildur Björg Pétursdóttir sem hefur verið fulltrúi Þórdunu á fundum hjá Sambandi íslenskra framhaldsskólanema og fyrir aðstoð á viðburðum.




Þá fáum við þau Valdísi og Heimi aftur á sviðið til að taka annað lag fyrir okkur.

Eitt það skemmtilegasta og það sem við öll munum helst eftir í ræðuhöldum dagsins er ræða brautskráninganema. Ég bíð í pontu Kolbrúnu Ósk nýstúdent af listnámsbraut til að flytja kveðju brautskráningarnema.

Það er góð hefð að fá fyrrverandi nemendur skólans til að koma á brautskráningu. Í dag fáum við fulltrúa 20 og 25 ára útskriftarnema til að koma í pontu og flytja kveðju til skólans og nýútskrifaðra nemenda. Ég bíð Vöku Óttarsdóttur fulltrúa 20 ára útskriftarnema velkomna.

Fulltrúi 25 ára útskriftarnema dr. Sigríði Kristjánsdóttur.


Nú ætla ég að fá að snúa aðeins bakinu í ykkur kæru gestir og tala til útskriftarhópsins.

Jæja kæru brautskráningarnemendur, til hamingju með árangurinn ykkar. Þótt við höfum verið að verðlauna sum af ykkur hér áðan þá eruð þið öll sigurvegarar. Þið hafið náð takmarki ykkar. Sum ykkar hafa þurft að leggja á sig mikla vinnu, blóð, svita og tár til að ná þessum áfanga en það dugði til því hér standið þið nú.

Verið stolt af árangri ykkar og horfið björtum augum til framtíðar. Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með tungumálið okkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum – og því samferðarfólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. Fyrst og fremst berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni. 

Ég vona að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar hér í VMA. Á þessum svokölluðum framhaldsskólaárum kynnumst við oft á tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt þótt leiðir skilji á vissan hátt nú við brautskráningu. Viðhaldið vináttunni til hvors annars. Til hamingju.

Góðir brautskráningarnemar og gestir. Það er að koma að lokum þessarar hátíðar. Ég vil biðja fólk um að sitja kyrra í sætum sínum á meðan við hér á sviðinu göngum fram. Að því loknu vil ég biðja gesti um að yfirgefa salinn svo hægt verði að stilla upp fyrir myndatöku hér á eftir.

Ég vil þakka starfsfólki skólans fyrir þessa önn og þá sérstaklega Benedikti Barðasyni aðstoðarskólameistara, Björk Guðmundsdóttur skrifstofustjóra, áfangastjórunum Sigurði Hlyni Sigurðssyni og Garðari Lárussyni fyrir samvinnuna og stuðninginn.

Að stjórna skóla eins og VMA er ekki einnar konu verk,-  samheldinn starfsmannahóp þarf líka til.

Þá vil ég þakka skólanefnd og Hjalta Jóni Sveinssyni skólameistara sem er að ljúka sínu árs námsleyfi fyrir traustið-  til að leiða skólastarfið í VMA þetta skólaár.

Vona að þið eigið öll gleðiríkan dag framundan - Munum að brosa með hjartanu – takk fyrir.



Sigríður Huld Jónsdóttir
Skólameistari VMA