Fara í efni

Brautskráðir 163 nemendur frá VMA

Útskriftarhópurinn á sviðinu í Hofi. Mynd: Páll P.
Útskriftarhópurinn á sviðinu í Hofi. Mynd: Páll P.

Brautskráning nemenda Verkmenntaskólans á Akureyri fór fram við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi í dag að viðstöddu fjölmenni. Útskrifaðir voru 163 nemendur með 180 skírteini af 20 námsleiðum eða brautum. Alls hefur VMA útskrifað 259 nemendur á þessu skólaári því 96 nemendur voru útskrifaðir í desember sl. Nokkrir nemendur útskrifuðust í dag með tvö prófskírteini. Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, nefndi í brautskráningarræðu sinni í dag, að þeir nemendur sem veldu að taka iðn- eða starfsnám og bæti síðan við stúdentsprófinu séu á ýmsan hátt afar vel undirbúnir undir háskólanám. Sérstaklega eigi það við um nemendur sem ætli sér í iðn-, verk- eða tæknifræði þar sem mikilvægt sé að hafa undirstöðuþekkingu á því að starfa við vélar og tæki eða á byggingastað. „Þá eru hér nokkrir sjúkraliðar sem útskrifast einnig sem stúdentar og ég veit af eigin reynslu að sá undirbúningur er afar góður fyrir allt háskólanám í heilbrigðisvísindum,“ sagði Sigríður Huld.

Hera Jóhanna Heiðmar Finnbogadóttir tók fullt af myndum við brautskráninguna. Hér má sjá þær:

Myndaalbúm 1
Myndaalbúm 2
Myndaalbúm 3
Myndaalbúm 4
Myndaalbúm 5

Skólastarfið á önninni
Skólameistari sagði skólastarfið hafa gengið vel í vetur, enda væri mikill metnaður og mannauður í starfsfólki og nemendum. „Í lok skólaárs er viðeigandi að rifja upp það starf sem hefur farið fram í vetur og vil ég benda á að á heimasíðu skólans eru tugir frétta af skólastarfinu í vetur. Flestar fréttirnar varða nemendur og það nám sem þau eru í og þegar maður fer í gegnum þessar fréttir sér maður vel fjölbreytileikann og hve mikilvægur VMA er fyrir sitt nærumhverfi. Bæði til að efla ungt fólk og undirbúa það undir frekara nám hér á Akureyri, á höfuðborgarsvæðinu eða erlendis - en ekki síður er sýnilegt það framlag sem nemendur og skólinn leggja til atvinnulífs og nýsköpunar á svæðinu.“

Skólameistari nefndi að allir útskriftarnemendur skólans þurfi að skila lokaverkefnum og kynna þau. Nemendur af listnámsbraut hafi sýnt lokaverkefni sín í Listasafninu á Akureyri og sumir telji sýningu listnámsbrautarnemenda VMA einn af vorboðunum. Sjúkraliðanemar kynni lokaverkefni sín í málstofu þar sem fjallað sé um heilbrigði og heilsu. Vélstjórnarnemar hafi kynnt sín lokaverkefni sem mörg hver snúi að nýsköpun og/eða verkefnum atvinnulífsins og nemendur á stúdentsprófsbrautum hafi verið með málstofu í heilan dag þar sem þeir kynntu lokaverkefni sín, mörg hver út frá áhugamálum sínum. Stálsmiðir smíði kerrur og skili einstaklings lokaverkefni og nemendur í byggingadeild smíði heilt frístundahús yfir veturinn. Einn nemandi á starfsbraut hafi haldið einkasýningu á myndlistarverkum sínum og nemendur á matvælabraut hafi sett upp matseðil, eldað og þjónað til borðs með gestum og svo mætti lengi telja. „Sjálf fyllist ég þakklæti og stolti yfir þessum verkefnum nemenda, þar sem þeir sýna hvað í þeim býr, þeir fá sjálfstæði en á sama tíma leiðbeiningar til að skapa hluti út frá styrkleikum sínum og þeir öðlast færni sem stendur með þeim þegar þeir taka næstu skref út í lífið. Það er einhvern veginn svo táknrænn endir á skólagöngunni að vinna þessi lokaverkefni þar sem þekking, hæfni og færni koma saman í einu verkefni ásamt því að sköpunargáfan fær oftar en ekki að fylgja með. Maður fær líka einhverja vissu fyrir því að það náðist árangur með þessu unga fólki og allt erfiðið með þeim skilar sér.“

Sigríður Huld nefndi að nemendur hafi í vetur unnið nokkur verkefni þar sem þeir hafi lagt góðum málefnum lið og vakið athygli á þeim. Í valáfanganum viðburðastjórnun á haustönn hafi nemendur ákveðið að helga einni viku umfjöllun um fíkn og áhrif lyfseðilskyldra lyfja á líf og heilsu ungs fólks. Nemendur úr skólanum hafi sagt neyslu- og batasögu, haldnir hafi verið fræðslufyrirlestrar, staðið fyrir fjáröflun og systkini og móðir Einars Darra (sem lést 25. maí 2018 eftir að hafa tekið of stóran skammt af lyfseðilsskyldum lyfjum) hafi komið norður til að koma og tala við nemendur um þær ömurlegu afleiðingar sem neysla á lyfseðilskyldum lyfjum hefur. „Þótt viðfangsefnið hafi verið dauðans alvara þá var aðdáunarvert að sjá metnað og áhuga nemendanna sem skipulögðu dagskrána, þeir lögðu allir mikið á sig en ekki síður lærðu þeir mikið um lífið og hvernig það getur breyst á örskotsstundu. Í þessu verkefni mátti líka sjá hvað ungt fólk getur lagt af mörkum þegar það fær frjálsar hendur um efnistök ásamt stuðningi og leiðbeiningum,“ sagði Sigríður Huld.

„En nemendur gerðu meira, í öðrum áfanga á vorönn sem fjallar um þróunarlönd tóku þeir sig til og skipulögðu fjáröflun til styrktar íbúum í Mósambík, Malaví og Zimbabwe en þar urðu miklar hamfarir í vetur í kjölfar fellibyls. Alls söfnuðust rúmlega 250 þúsund krónur í þessari fjáröflun en stóra verkefnið var að nemendur kynntust ýmsu er lýtur að skiptingu heimsins í þróuð og vanþróuð lönd, um efnahagsleg, stjórnmálaleg og menningarleg einkenni þróunarlanda og orsakir og afleiðingar misskiptingar auðs í heiminum. En í áfanganum er einnig fjallað um stríðsástand og stöðu flóttamanna. Allt eru þetta viðfangsefni heimsins í dag og unga fólkið vill láta til sín taka til að gera heiminn betri. En um leið og nemendur í þessum áfanga voru að skipuleggja fjáröflunina fór fram heilsuvika í skólanum og einn hápunktur þeirrar viku var keppni í réttstöðulyftu í Gryfjunni þar sem nemendur og starfsmenn tóku vel á - m.a. bætti einn útskriftarnemandinn sem er hér með okkur persónulegt met sitt - og um leið var hægt að heita á hann fyrir söfnuna. Þá var á vorönn settur upp nytjamarkaður á bókasafninu og fór andvirði þeirrar sölu til verkefnisins Ungfrú Ragnheiður sem er skaðaminnkandi verkefni á vegum Rauða krossins fyrir einstaklinga í neyslu hér á Akureyri.

Á vorönn unnu nemendur í uppeldisfræðiáfanga verkefni um Sjúka ást, sem er titill átaks sem Stígamót standa fyrir. Um er að ræða forvarnaverkefni gegn ofbeldi sem ætlað er ungu fólki á aldrinum 13-20 ára. Með átakinu er vakin athygli á einkennum heilbrigðra, óheilbrigðra og ofbeldisfullra sambanda. Hluti verkefnisins var að halda fyrirlestur um efnið, sem nemendurnir gerðu í heilsuviku VMA. Vegna mikillar aðsóknar á fyrirlesturinn var hann endurtekinn og aftur var fullt út úr dyrum. Verkefnið Sjúk ást höfðaði vel til nemenda og ein ástæðan fyrir því er sú að það er unnið af nemendum fyrir nemendur. Þannig fá yngri nemendur ákveðna fræðslu á meðan þeir eldri læra að skipuleggja sig og koma á framfæri upplýsingum sem skipta máli fyrir ungt fólk,“ sagði Sigríður Huld.

„Framhaldsskólar hafa skyldu gagnvart því að þjálfa nemendur í lýðræðislegum vinnubrögðum og að kenna þeim umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra,“ sagði Sigríður Huld. „Eins að þeir þekki réttindi sín en ekki síður skyldur til samfélagsins og í samskiptum. Hluti af samfélagslegri umræðu er að geta sett sig í spor annarra og kunna að ræða og virða mismunandi skoðanir. Það er jafnfram mikilvægt að kenna ungu fólki að standa með sjálfu sér og þora að hafa skoðanir og tjá þær. Fjölbreytileikinn er mikilvægur og við verðum að undirbúa ungt fólk undir að heimurinn er ekki bara svartur eða hvítur - svona eða hinsegin eða að allir þurfi að fylgja sama straumnum. Það er þess vegna sem það er mikilvægt að fræðsla um jafnrétti, lýðræði, réttindi og skyldur sé hluti af skólastarfi - ekki bara í einhverjum ákveðnum áföngum sem heita kynjafræði eða mannréttindi - og lýðræði - heldur sé hluti af allri kennslu og menningu innan alls skólasamfélagsins.“

Til þess að varpa ljósi á fjölbreytileika starfs í VMA á önninni las skólameistari upp nokkrar fyrirsagnir frétta á heimasíðu skólans á tveggja mánaða tímabili á vorönn:

Vel heppnað vorhlaup VMA, Hárgreiðsla frá barokktímanum, Flottir Gryfjutónleikar, Ánægjuleg heimsókn nemenda úr Lundarskóla, Góður stuðningur við rafeindavirkjun í VMA, Listnámsbrautarnemar í fræðslu- og menningarferð í höfuðborginni, Frumkvöðlar hanna og framleiða ruslaflokkunarkassa og gjafaöskjur, Fyrrum nemandi í VMA klippir Hatara, Húsasmíðin er fyrir lífið, Útrás gefur málmiðnaðarbraut VMA plasmaskurðarvél, Forritun er markmiðið, Ásthildur bæjarstjóri í heimsókn í VMA, Vinnustaðanám sjúkraliðanema í Randers, Vel heppnuð menningarferð til Húsavíkur, Móðir jörð og sjálfbærni í þemaviku, Heimur sýndarveruleikans, Lestrarátak í ensku, Vel heppnuð vettvangsferð byggingadeildar í Skagafjörð.

„Með þessari upptalningu hafið þið ágætu útskriftarnemar - og starfsmenn, vonandi tengt ykkur sjálf við flestar af þessum fréttum en kannski ekkert munað eftir þeim ef þið hefðuð verið spurð hvað hefði gerst í VMA á síðstu 2-3 mánuðum. Við erum stundum fljót að gleyma þessu dags daglega, okkur finnst við ekki vera að gera neitt sérstakt eða merkilegt. En þegar þetta er tekið saman þá verður maður glaður og kannski smá hissa á því hve lífið í VMA er fjölbreytilegt, skemmtilegt og uppbyggilegt.“

Breytt samfélag – breytt menntun
Skólameistari sagði að með breyttu samfélagi þurfi að huga að breyttri menntun og því sé mikil áskorun í því fólgin að halda í við breytingarnar inni í framhaldsskólunum. „Við vitum að það verða breytingar en við vitum ekki alltaf í hverju þær verða fólgnar - en eitt er víst að þær eru hraðari en við eigum að venjast og eigum kannski oft erfitt með að fylgja þeim eftir. Hvað sem verður, þá er það alltaf í okkar höndum að halda í mennskuna í tækniþróuðu samfélagi. Áhersla skólanna verða að vera meiri í þá átt að halda í tungumál okkar og menningu, efla samkennd og samvinnu, kenna meira um alþjóðlegt samfélag og mismunandi menningarheima, kenna umburðarlyndi og efla jafnrétti í víðum skilningi. Áhersla á þekkingu og staðreyndir þarf að víkja fyrir mennskunni og það er áskorun til kennara, skólanna, stjórnmálamanna og foreldra. Þekkinguna fáum við með því að leita á vefnum og aðgangur að þekkingu er ekki takmarkaður við fáa einstaklinga eins og áður var. Ungt fólk í dag þekkir þessa auðveldu leið til þekkingarleitar en mennskuna gúgglar það ekki. Hæfni í mannlegum samskiptum er það sem stendur orðið í nær öllum atvinnuauglýsingum og mörg störf í dag krefjast frekar þeirrar hæfni en hreinnrar fagþekkingar,“ sagði Sigríður Huld.

Félagslífið
Skólameistari nefndi að félagslífið í skólanum hafi verið öflugt í vetur. Mikið hafi mætt á stjórn nemendafélagsins Þórdunu við skipulag og framkvæmd ýmissa viðburða - stórra sem smárra - s.s. Sturtuhausnum – söngkeppni VMA, árshátíð, Gettu betur, tónleika og fleira. Þá hafi Leikfélag VMA staðið í ströngu bróðurpart vetrar við æfingar og uppsetningu söngleiksins Bugsy Malone sem var frumsýndur í byrjun febrúar í Hofi. „Sýningin hlaut mjög góða dóma og viðtökur enda stórskemmtileg sýning þar sem leikgleðin var allsráðandi. Fjölmargir nemendur komu að sýningunni á einn eða annan hátt, eða hátt í 60 manns, og án efa er þetta ein stærsta uppfærsla sem leikfélag VMA hefur sett upp. Nú þegar eru nemendur farnir að ræða næstu uppfærslu og ýmsar hugmyndir komið upp en klárlega verður áfram það markmið að leiðarljósi að virkja sem flesta til að taka þátt.

Að hafa öflugt og fjölbreytt félagslíf er ekki sjálfgefið og æ erfiðara að ná til nemenda þar sem samkeppnin um tíma þeirra er mikil. Það er hlutverk okkar sem vinnum með ungu fólki að efla það á allan hátt og bjóða upp á fjölbreyttar leiðir sem gefa nemendum tækifæri til að sýna sína styrkleika, m.a. í gegnum nemendafélagið. Annað mikilvægt hlutverk er að efla ábyrgð og samkennd nemenda með því að veita þeim ábyrgð og treysta þeim, gefa þeim tækifæri til að vera þátttakendur í ákvarðanatöku og undirbúa þá fyrir líf og störf í lýðræðisþjóðfélagi. Sem skólameistara finnst mér forréttindi að eiga góð samskipti og samvinnu við nemendafélagið því það er ekki sjálfgefið. Ég vil þakka formanni og stjórn Þórdunu fyrir vel unnin störf á þessu skólaári sem er að líða og ný stjórn nemendafélagsins sem þegar hefur tekið við lofar góðu, fjörugu og öflugu félagslífi nemenda á næsta skólaári.“ 

Brautskráning
Brautskráningu nemenda í dag önnuðust Baldvin Ringsted, sviðsstjóri verk- og fjarnáms, Harpa Jörundardóttir, sviðsstjóri brautarbrúar og starfsbrautar, og Ómar Kristinsson, sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta og sjúkraliðanáms. Sem fyrr segir voru brautskráðir 163 nemendur með 180 skírteini af 20 námsleiðum eða brautum. Nokkrir brautskráningarnema voru fjarverandi í dag, þar á meðal nokkrir nemendur sem voru að útskrifast sem pípulagningamenn. Baldvin Ringsted sagði að aldrei áður í sögu VMA hafi svo margir pípulagningamenn lokið námi frá skólanum eða fjórtán talsins. Sjö þeirra tóku sveinspróf í pípulögnum í liðinni viku og þá tók Hilmar Friðjónsson þessar myndir. Hinir sjö þreyta sama sveinspróf í pípulögnum eftir helgi.

Viðurkenningar

Helgi Brynjólfsson, nýstúdent af félags- og hugvísindabraut.
Verðlaun fyrir bestan árangur í samfélagsgreinum úr Minningarsjóði Alberts Sölva Karlssonar sem var kennari við VMA.

Ragnheiður Diljá Káradóttir, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut.
Verðlaun fyrir bestan árangur í hönnunar- og textílgreinum.  Kvennasamband Eyjafjarðar gefur verðlaunin.

Elísa Embla Viðarsdóttir, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut.
Verðlaun fyrir bestan árangur í íslensku. Penninn-Eymundsson gefur verðlaunin. 
Verðlaun fyrir bestan árangur í myndlistargreinum listnámsbrautar. Slippfélagið gefur verðlaunin.

Silja Hrönn Hlynsdóttir, nýstúdent af íþrótta- og lýðheilsubraut.
VMA tekur þátt í verkefninu heilsueflandi framhaldsskóli sem er verkefni sem stýrt er af Embætti landlæknis. Allir framhaldsskólar á Íslandi taka þátt í verkefninu og gefur Embætti landlæknis verðlaun til nemanda sem hefur sýnt bestan árangur í greinum sem tengjast heilbrigði og lýðheilsu.

Oddur Kári Ómarsson, útskriftarnemi í stálsmíði.
Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri gefur verðlaun fyrir bestan árangur í stálsmíði.

Brynjar Þór Ríkharðsson, útskriftarnemi í vélstjórn.
Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri og Möl og sandur gefa verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum vélstjórnar.

Fannar Harald Davíðsson, útskriftarnemi í húsasmíði.
Byggiðn, félag byggingamanna gefur verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum í húsasmíði.

Þorvaldur Helgi Jóhannsson, útskriftarnemi í pípulögnum.
Byggiðn, félag byggingamanna gefur verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum í pípulögnum.

Gabríel Snær Jóhannesson, útskriftarnemi í rafeindavirkjun.
Verðlaun úr Árnasjóði sem er minningarsjóður sem stofnaður var af starfsmönnum VMA til minningar um Árna Jóhannsson kennara sem lést um aldur fram í lok árs 2014. Árni var rafeindavirki og kennslugreinar hans voru rafiðngreinar og stærðfæði. Samkennarar Árna ákváðu að sjóðurinn myndi veita verðlaun til nemanda sem næði bestum árangri í rafeindavirkjun. Gabríel Snær fær jafnframt verðlaun sem Ískraft gefur.

Ólafur Ingi Sigurðsson, útskriftarnemi í rafvirkjun.
Rönning gefur verðlaun fyrir bestan árangur í rafvirkjun.

Kristín Ragna Tóbíasdóttir, nýstúdent af viðskipta- og hagfræðibraut.
Ferðaskrifstofa Akureyrar gefur verðlaun fyrir bestan árangur í þýsku.

Sigurður Gísli Gunnlaugsson, útskriftarnemi í vélstjórn.
Hvatningarverðlaun VMA eru veitt nemanda sem hefur verið fyrirmynd í námi, sýnt miklar framfarir í námi, starfað að félagsmálum nemenda, haft jákvæð áhrif á skólasamfélagið eða verið sér, nemendum og skólanum til sóma á einhvern hátt. Valið var nokkuð erfitt enda ekki sambærilegir mælikvarðar og einkunnir til að velja úr verðlaunahafann.
Í þetta skipti var ákveðið að veita verðlaunin til nemanda sem sannarlega er fyrirmynd annarra í námi. Nemandinn sem hlýtur þessi verðlaun hefur á námstíma sínum í skólanum sýnt seiglu, mikinn dugnað og elju til að ná markmiðum sínum.
Gefandi verðlaunanna er Gámaþjónustan.

Róslín Erla Tómasdóttir, nýstúdent af náttúrufræðabraut.
Háskólinn í Reykjavík veitir verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi í hverjum framhaldsskóla og tilnefna skólarnir nemanda til verðlaunanna. Skal miðað við að tilnefndur nemandi hafi sannað getu sína í raungreinum, bæði með vali á krefjandi áföngum og með framúrskarandi árangri. Um er að ræða vegleg bókaverðlaun, auk þess sem verðlaunahafar sem kjósa að hefja nám við Háskólann í Reykjavík fá niðurfelld skólagjöld fyrstu önnina í námi.
Stærðfræðiverðlaun - Íslenska stærðfræðifélagið gefur.
Verðlaun fyrir bestan árangur í ensku - SBA-Norðurleið gefur. 
Verðlaun fyrir bestan árangur í dönsku - danska sendiráðið gefur.
Verðlaun fyrir að vera dúx skólans - Íslandsbanki gefur.

Helena Ósk Jónsdóttir, Valdemar Jón Gunnþórsson og Guðlaug Sigríður Hrafnsdóttir, útskriftarnemar á starfsbraut.
Þau fá öll verðlaun fyrir að hafa lagt sig fram í náminu og verið einstaklega jákvæð auk þess að auðga mannlífið í skólanum. 
Verðlaunin gefa Origo, A4 og Slippfélagið.

Viðurkenningar fyrir að hafa setið í stjórn Þórdunu – nemendafélags skólans eða komið með öðrum hætti að skipulagi og framkvæmd í félagslífi nemenda, s.s. tengt viðburðum, leiksýningum og hagsmunagæslu nemenda:

Andri Már Ólafsson - keppti líka fyrir hönd VMA á Íslandsmóti iðngreina í mars s.l. í málmsuðu þar sem hann vann til silfurverðlauna.
Bjarki Höjgaard.
Brynja Ploy Garðarsdóttir.
Friðrik Páll Haraldsson.
Guðlaugur Sveinn Hrafnsson.
Guðný Jónsdóttir.
Harpa Lísa Þorvaldsdóttir.
Jara Sól Ingimarsdóttir.
Mikael Ásgeirsson.
Patrekur Óli Gústafsson.
Ragnheiður Diljá Káradóttir.
Sara Gná Valdemarsdóttir.
Svana Rún Aðalbjörnsdóttir.
Þórunn Ósk Jóhannesdóttir.

Hér er hópmynd af verðlauna- og viðurkenningahöfum dagsins.

Ávarp nýstúdents og tónlistaratriði

Guðný Jónsdóttir, nýstúdent af félags- og hugvísindabraut, flutti kveðju brautskráningarnema.

Tvö tónlistaratriði voru við útskriftina. Annars vegar flutti Anton Líni Hreiðarsson, nemandi á fjölgreinabraut VMA, lagið Heltekinn, frumsamið lag og texta, og hins vegar söng Svana Rún Aðalbjörnsdóttir, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut, lag Bubba Morthens, Fallegur dagur, við undirleik Styrmis Þeys Traustasonar, nemanda á fjölgreinabraut VMA.

Til hamingju með daginn!
Við lok útskriftarinnar beindi Sigríður Huld, skólameistari, orðum sínum að útskriftarhópnum: „Jæja, kæru brautskráningarnemendur, til hamingju með árangurinn. Þótt við höfum verið að verðlauna sum af ykkur hér áðan þá eruð þið öll sigurvegarar. Þið hafið náð takmarki ykkar. Sum ykkar hafa þurft að leggja á sig mikla vinnu, blóð, svita og tár til að ná þessum áfanga en það dugði til því hér eruð þið nú. Verið stolt af árangri ykkar og horfið björtum augum til framtíðar. Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með tungumálið okkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum – og því samferðarfólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. Fyrst og fremst berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni. Ég vona að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar hér í VMA. Á þessum svokölluðum framhaldsskólaárum kynnumst við oft og tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt þótt leiðir skilji á vissan hátt nú við brautskráningu. Viðhaldið vináttunni til hvors annars. Takk fyrir að velja VMA sem ykkar skóla, verið stolt og til hamingju.”