Fara í efni

Beindu sjónum að nýtingu útlitsgallaðs grænmetis

Nemendur skoðuðu leiðir til að nýta grænmeti betur
Nemendur skoðuðu leiðir til að nýta grænmeti betur
Nemendur í markaðsfræði í VMA hafa að undanförnu unnið verkefni þar sem matarsóun var meginviðfangsefnið og var sjónum beint að því sérstaklega hvernig þessum málum er háttað varðandi grænmeti. Nemendur kynntu verkefni sín í gær og voru niðurstöður þeirra í senn athyglisverðar og fróðlegar.
Hér á landi hefur umhverfisvitund aukist verulega á undanförnum árum, sem að hluta til kann að tengjast vaxandi áherslu á flokkun sorps. Þá verður fólki það betur ljóst en áður hversu miklum mat er hent. Þetta á við um allan mat - þar á meðal grænmeti. 
Grænmetisframleiðendum er vandi á höndum með svokallaða annars flokks framleiðslu sína, því margir neytendur vilja ekki sjá hana þó svo að varan sé ekkert síðri en fyrsta flokks grænmeti. Munurinn á fyrsta og annars flokks grænmeti liggur í því að í annan flokk fer útlitsgallað grænmeti og þar með fæst mun minna fyrir það en ella. Grænmetisframleiðendur geta oft og tíðum ekki komið þessari vöru í verð, jafnvel þótt hún kosti innan við helming af verði fyrsta flokks grænmetis og því neyðast þeir oft til þess að henda svo og svo miklu af úrvals grænmeti.
Þessi staðreynd var meginstefið í verkefnavinnu nemenda í markaðsfræði í VMA undir stjórn Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur kennara. Afrakstur vinnu sinnar kynntu nemendur í gær og til þeirrar kynningar var boðið Önnu Sigríði Pétursdóttur, grænmetisframleiðanda og ferðaþjónustubónda á Brúnulaug í Eyjafjarðarsveit. Hafði hún orð á því við nemendur að lokinni kynningu þeirra að áhugavert hefði verið að sjá þeirra vinnu og margvíslegar hugmyndir þeirra til þess að kynna annars flokks grænmeti fyrir neytendum í því skyni að koma í veg fyrir að þessi vara þyrfti að enda á haugunum.
Meðal annars kom fram í kynningunni að um fimmtungi grænmetis sem framleitt er hér á landi sé hent vegna útlitsgalla. Þetta þurfi framleiðendur að gera vegna þess að verslanir taki ekki við útlitsgölluðu grænmeti þó svo að gæði þess sé fullkomlega til jafns við fyrsta flokks grænmeti, sem ekki hafi útlitsgalla. 
Nemendur kynntu ýmsar hugmyndir sínar - út frá markaðsfræðinni - um hvernig mætti kynna almenningi útlitsgallað grænmeti og ýta undir sölu þess. Þegar upp væri staðið væri þetta liður í því að draga úr matarsóun. Meðal þess sem var nefnt var að höfða sérstaklega til leikskóla- og grunnskólabarna og nokkur samhljómur var í því hjá verkefnahópunum að nýta samfélagsmiðla til kynninga - t.d. snapchat, instagram og facebook.
Anna Sigríður Pétursdóttir upplýsti að í Brúnalaug væru framleidd á milli 23 og 25 tonn af grænmeti á ári. Paprikur eru framleiddar bróðurpart úr ári og agúrkur á sumrin. Hluta af útlitsgölluðu grænmeti hefur framleiðendum í Brúnalaug tekist að afsetja til veitingastaða í Eyjafjarðarsveit en eðli málsins samkvæmt er eftirspurnin fyrst og fremst yfir háferðamannatímann á sumrin. Í annan tíma neyðast eigendur í Brúnalaug - og það sama gildir um aðra grænmetisframleiðendur - til að henda hluta af útlitsgölluðu grænmeti.
Verkefni nemenda í markaðsfræðinni sýndu fram á að hér er verk að vinna og þar eiga allir hlut að máli - grænmetisframleiðendur, verslanir, veitingastaðir og heimili.