Fara í efni

Aldrei of mikil áhersla lögð á fallvarnir

Rætt við nemendur í húsasmíði um fallvarnir.
Rætt við nemendur í húsasmíði um fallvarnir.

Of algengt er að fallvarnir séu vanræktar á t.d. byggingarsvæðum, þar sem iðnaðarmenn eru að vinna í mikilli hæð. Samkvæmt tölum frá Bandaríkjunum eru fallslys þriðju algengustu slysin þar í landi og um helmingur þeirra er í byggingariðnaði. Ekki eru til sambærilegar tölur fyrir Ísland en ætla má að þær séu mjög á sömu lund og í Bandaríkjunum. Þetta var meðal þess sem kom fram í erindi sem Þórhallur Matthísson sölufulltrúi frá Haga ehf. flutti sl. þriðjudag um fallvarnir fyrir nemendur í byggingadeild – nemendur sem eru þessa dagana að ljúka sinni fjórðu önn í húsasmíðinni.

Öryggismál eru stór þáttur í námi í byggingadeildinni og fallvarnir eru sannarlega einn þáttur þeirra. Búnaðurinn til þess að forðast slys er til staðar en þá er það fyrirtækjanna og starfsmannanna að sjá til þess að hann sé notaður og hann sé notaður á réttan hátt. Þórhallur segir að það megi sannarlega fækka vinnuslysum með forvörnum og raunhæft markmið sé að útrýma þeim.

Þórhallur sagði í erindi sínu að allir verktakar ættu að útbúa fallvarnaáætlun. Í því felist að gera í upphafi úttekt á vinnustaðnum með fagaðila, vinnustaðurinn sé áhættugreindur með tilliti til áhættu og afleiðinga. Útrýma þurfi hættum þar sem það sé unnt og vara við öðrum hættum með merkingum. Síðan þurfi að gera áætlun um hvernig beri að bjarga þeim sem falli úr hæð.

Þórhallur lagði áherslu á að allir starfsmenn verði að kunna skil á lögum um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum og kynna sér vel reglur Vinnueftirlitsins í þessum efnum. Þá þurfi atvinnurekandi að velja réttan búnað fyrir mismunandi aðstæður og starfsmenn séu þjálfaðir í að nota hann. Ef unnið sé í meira en 1,5 metra hæð þurfi, samkvæmt reglugerð, að fyrirbygga fallhættu.

Til er fallvarnabúnaður af ýmsum toga. Þórhallur sagði að sú tröllasaga hafi lengi verið við lýði að búnaðurinn sé mjög dýr en það hafi breyst og kostnaðurinn sé ekki afsökun fyrir því að starfsmenn nýti sér slíkan búnað og komi þannig í veg fyrir slys.

Þórhallur nefndi að mikilvægt væri að geyma fallvarnabúnað á þurrum og öruggum stað. Aldrei megi setja blaut belti og línur í lokaða poka eða töskur. Slíkt geti orsakað sagga sem skemmi fallvarnabúnaðinn á skömmum tíma. Ganga þurfi frá búnaðinum í þar til gerða poka eða töskur. Þá nefndi hann að mikilvægt væri að búnaðurinn kæmist ekki í snertingu við sterk efni eins og epoxy, málningu og önnur ætandi efni. Forðast skuli að merkja búnaðinn nema á þar til gerða staði. Þá nefndi Þórhallur að allan fallvarnabúnað beri að skoða árlega, hann sé alltaf á ábyrgð eigenda sem beri einnig ábyrgð á að búnaðurinn sé skoðaður árlega hjá söluaðila.