Fara í efni

Áhugaverðar tölulegar upplýsingar um námið í VMA

Á síðustu árum – sérstaklega á síðasta skólaári - hefur verið markvisst unnið að því að hvetja konur til þess að sækja í svokallaðar „karlagreinar“ í framhaldsskólum og öfugt. Þegar horft er á tölur um skiptingu nemenda eftir kynjum á einstaka greinar í VMA í uppafi haustannar er sem fyrr sláandi kynjamunur á nokkrum verknámsbrautum. Þannig voru skráðar núna á haustönn yfir 90% konur á sjúkraliðabraut og 100% í hársnyrtiiðn en á móti voru bara skráðir karlar í rafeindavirkjun, málmiðngreinum (að loknu grunnnámi) og bifvélavirkjun og yfir 90% karla voru skráðir í grunnnám rafiðnar, rafvirkjun og vélstjórn.

Sem fyrr eru karlar í meirihluta nemenda í Verkmenntaskólanum á Akureyri, um 60%, en um 40% konur. Þetta kemur til af því að fjölmennar verknámsbrautir eru að stórum hluta skipaðar karlkyns nemendum, sem fyrr segir, eins og t.d. málmiðna-,  vélstjórnar- og rafiðnanám.
Eins og vera ber er mikill meirihluti nemenda skólans á aldrinum 16-20 ára eða rösklega 80%. Í upphafi haustannar voru sjö fimmtán ára gamlir nemendur í VMA og jafnmargir nemendur 51 árs og eldri. Tæplega 60% nemenda skólans eru frá Akureyri, þar af eru um 34% nemenda búsett í póstnúmeri 600 – sunnan Glerár – en 25% í póstnúmeri 603 – norðan Glerár. Úr næsta nágrenni Akureyrar – póstnúmeri 601 – koma um 10% nemenda og um 9% nemenda skólans koma úr öðrum byggðum Eyjafjarðar og frá Siglufirði. Álíka hátt hlutfall nemenda skólans kemur annars vegar úr Þingeyjarsýslum og af Norðurlandi vestra (Siglufjörður ekki meðtalinn) eða um 7%.

Ef horft er til brautskráninga í VMA á árunum 2010-2016 (sjö ár – fjórtán annir) má sjá að samtals hafa verið afhent 2024 skírteini, þar af eru stúdentsskírteinin rétt röskur helmingur, 1074 talsins – 53%. Af þeim sem lokið hafa stúdentsprófi á þessu tímabili eru 476 karlar og 598 konur.

Ef skoðaðar eru tölur yfir t.d. brautskráða sjúkraliða frá VMA á þessu sjö ára tímabili kemur í ljós að konurnar eru 120 en aðeins 2 karlar. Dæmið snýst við í t.d. húsasmíði þar sem 98 karlar brautskráðust á sama árabili en engin kona og í rafvirkjuninni brautskráðust sömuleiðis 98 karlar en 4 konur.

Jóhannes Árnason áfangastjóri hefur tekið saman þessar áhugaverðu talnaupplýsingar og þær er að finna hér á heimasíðunni.