Fara í efni

Áhugaverðar niðurstöður úr „Hlustað á nemendur“

Í könnuninni var leitað álits nemenda skólans.
Í könnuninni var leitað álits nemenda skólans.
Sem liður í stefnumótun Verkmenntaskólans á Akureyri var verkefnið „Hlustað á nemendur“ lagt fyrir nemendur skólans í tengslum við Opna daga í mars. Markmiðið með þessu var að fá fram viðhorf nemenda til ýmissa þátta skólastarfsins til þess að raddir nemenda kæmu fram í stefnumótun skólans. Nemendum var skipt upp í 5-6 manna hópa og þeim ætlað að svara spurningum um að minnsta kosti eitt þema.

Sem liður í stefnumótun Verkmenntaskólans á Akureyri var verkefnið „Hlustað á nemendur“ lagt fyrir nemendur skólans í tengslum við Opna daga í mars. Markmiðið með þessu var að fá fram viðhorf nemenda til ýmissa þátta skólastarfsins til þess að raddir nemenda kæmu fram í stefnumótun skólans. Nemendum var skipt upp í 5-6 manna hópa og þeim ætlað að svara spurningum um að minnsta kosti eitt þema.

Þeir þættir sem rætt var um eru:

  1. Námsframboð skólans.
  2. Kennsluhættir og námsmat.
  3. Aðstaða nemenda.
  4. Kynning á skólanum.
  5. Skólareglur og reglur um skólasókn.
  6. Félagslífið.

Þátttakan var mjög góð, 102 hópar tóku þátt og því var heildarfjöldi þátttakenda ekki undir 600.

„Þetta verkefni er liður í stefnumótunarvinnu fyrir skólann sem við höfum verið í núna á vorönn, þar sem meðal annars er horft til hlutverks, framtíðarsýnar og meginmarkmiða skólans. Nemendur tóku verkefninu alvarlega og vönduðu til verka og sumir tóku það sérstaklega fram að þeim þætti mjög jákvætt að fá með þessum hætti tækifæri til þess að koma viðhorfum sínum og hugmyndum á framfæri.  Við lítum á þetta verkefni sem mikilvægt innlegg í stefnumótunarvinnu hér innan skólans, auk þess lítum við á verkefnið sem mikilvægan lið í að styrkja enn frekar lýðræðislega starfshætti innan skólans. Niðurstöður leiða í ljós að nemendur eru almennt afar ánægðir með skólann en eru þó jafnframt tilbúnir til þess að benda á það sem betur má fara í starfi hans og horfa þannig með okkur til framtíðar,“ segir Laufey Petrea Magnúsdóttir, sem hafði umsjón með verkefninu.

1.  Námsframboð skólans (38 hópar).

Sautján hópar töldu námsframboð fínt eins og það er og finnst það fjölbreytt og margar leiðir í boði.  Af greinum sem nemendur nefndu að vantaði í skólann má nefna snyrtifræði og förðunarfræði og einnig var málabraut nefnd. Og fleiri en einn hópur nefndi tölvunarfræði/forritun og íþróttabraut með fleiri valkostum.
Níu hópar töldu verklegar greinar áhugaverðustu/skemmtilegustu greinarnar. Aðrar greinar sem skoruðu hátt eru listnám, hárgreiðsla, matvælagreinar, náttúrufræði og kynjafræði.
Þegar spurt var um hvaða námsgreinar nemendur teldu að myndu gagnast þeim best í framtíðinni nefndu flestir hóparnir ensku og síðan komu stærðfræði, íslenska, verklegar greinar og tungumál. Fimm hópar nefndu að skólinn ætti að leggja enn meiri áherslu á verklegar greinar og þar á eftir kom stærðfræði.
Við spurningunni hvaða greinar vantaði alveg í skólann nefndu þrír hópar tölvunarfræði, snyrtifræði og leiklistarnám og þar á eftir komu fleiri tungumál (t.d. franska og rússneska), förðunarfræði, ljósmyndun, kvikmyndagerð, ferðamálafræði, kynjafræði og lögfræði (grunnur).

2.  Kennsluhættir og námsmat (33 hópar).

Nemendur voru spurðir um hvaða kennsluaðferðir væru í mestu upphaldi hjá kennurum skólans. Tæpur helmingur hópanna setti glærusýningar í efsta sæti og síðan var nefnt að „standa upp við töflu og tala“.
Flestir hóparnir töldu að glósur kæmu þeim að mestu gagni í námi og síðan kom verkefnavinna. Það kemur líka skýrt fram að nemendur telja að lokapróf eigi að hafa minna vægi en að sama skapi aukist vægi símats.
Þegar spurt var um hvernig væri unnt að nýta betur möguleika tölvutækninnar (s.s. fartölva, Moodle) í námi og kennslu í kennslustundum og/eða við heimanám, nefndu fjórir hópar auðveldara stýrikerfi – betur þekktari hugbúnað og þrír hópar nefndu betri internettengingu í skólanum. Og þá var nefnt að kennarar setji glósur og glærur í Moodle og verkefnin séu þar aðgengileg.
Góður kennari  nefndu margir að þyrfti að vera skemmtilegur og hress og ná góðu sambandi við nemendur.  Einnig nefndu margir að góður kennari  þyrfti að aðstoða nemendur, vera kurteis og skilningsríkur.
Það kom líka fram að mikilvægt væri að kennarar útskýrðu námsefnið vel, þeir hefðu góðan skilning á námsefninu, væru skipulagðir og vektu áhuga á námsefninu.
Fyrirmyndar nemendur nefndu flestir hópar að væru þeir nemendur sem mættu vel í tíma, skiluðu heimaverkefnum á réttum tíma, lærðu heima, mættu á réttum tíma í kennslustundir, fylgdust vel með í tímum og hefðu áhuga á námsefninu.
Lýsing eins hópsins á fyrirmyndar nemanda var á þennan veg: „Hefur metnað, reynir sitt besta, ekki endilega nemandi sem fær háar einkunnir heldur leggur það á sig að reyna að skilja námsefnið, truflar ekki kennsluna, sýnir kennaranum virðingu og samnemendum sínum, kynnir sér námsefnið fyrir tímana, gerir heimanám og er glaðlegur.“

3.  Aðstaða nemenda (36 hópar).

Flestir töldu húsnæði skólans nýtast vel en nokkrir nefndu að matsalinn þyrfti að stækka og þar þyrftu að vera fleiri sæti. Íþróttasalinn mætti hafa opinn lengur fyrir not utan skólatíma og skólinn mætti vera lengur opinn til að læra. Varðandi aðstöðu nemenda nefndu margir að fjölga þyrfti sófum í skólanum þar sem nemendur gætu sest niður og hvílt sig í eyðum og í því sambandi var m.a. bent á kjallarann sem mögulegt rými fyrir slíkt.
Varðandi mötuneytið kom fram að það þyrfti að vera stærra, þrír hópar nefndu að það væri of dýrt og meiri hollustu þyrfti að vera í boði í mötuneytinu.
Þrír hópar nefndu að íþróttahús vantaði við skólann.
Við spurningunni hvernig mætti nýta lóð skólans betur nefndu margir fjölgun bílastæða og sömuleiðis var einnig nefnt að gera þyrfti sparkvöll á lóð skólans og þá var einnig nefnd sú hugmynd að gera fallega útiaðstöðu með stólum og borðum til að tylla sér á og læra úti á góðviðrisdögum.

4.  Kynning á skólanum (31 hópur).

Fimmtán hópar nefndu að þeir hafi valið VMA vegna þess að þá hafi langað í verklegt nám. Einnig kom skýrt fram sem skýring á því að nemendur völdu VMA að áfangakerfið hentaði betur og fjölbreytnin væri mikil í námsframboði.
Þegar spurt var um hvers vegna nemendur í 10. bekk grunnskóla ættu að velja VMA nefndi meirihluti hópanna fjölbreytt námsframboð/margar námsleiðir. Einnig var nefnt að skólinn hentaði vel þeim sem vildu fara í verklegt nám og þá voru nokkrir hópar sem nefndu að í VMA væri frelsi til þess að ráða námshraða sínum.
Margir hópar töldu að leiðin til þess að kynna grunnskólanemendum skólann væri að bjóða þeim í heimsókn og sýna þeim hvaða starfsemi þar færi fram. Einnig væri mikilvægt að fara í grunnskólana og kynna námið þar, m.a. gæti verið mikilvægt að nemendur skólans færu í grunnskólana og segðu þar frá reynslu sinni.
Varðandi kynningu á skólanum fyrir almenningi á Akureyri nefndu flestir opið hús þar sem fólki/foreldrum væri boðið að koma og sjá nemendur í leik og starfi. Einnig var m.a. nefndur sá möguleiki að gera sjónvarpsþátt um skólastarfið til sýningar á N4.

5.  Skólareglur og reglur um skólasókn (29 hópar)

Sex hópar töldu skólareglurnar fínar og fimm hópar töldu reglum  ekki ofaukið. Fjórir hópar töldu að leyfa ætti nemendum að borða í tímum. Sjö hópar töldu að mæting ætti að vera frjáls og þrír sögðu að reglurnar væri óþarflega strangar, mæting ætti að vera á ábyrgð nemenda.
Spurningunni um hvernig skólinn gæti stuðlað að betri skólasókn var m.a. svarað á þann hátt að gefa ætti einingu fyrir 95-100% mætingu og einnig var nefnt að því skemmtilegri sem kennarinn væri því betri væri mætingin í tíma.

6.  Félagslífið – spurningar frá nemendum (24 hópar)

Í spurningum um félagslífið kom fram áberandi mikil ánægja nemenda með árshátíð skólans og söngkeppni skólans. Tíu hópar sögðust almennt ánægðir með alla viðburði á haustönn, átta hópar voru sérlega ánægðir með konukvöldið og jafn margir hópar sögðust vera ánægðir með karlakvöldið. þá vildu átta hópar að boðið væri upp á fleiri viðburði og jafnframt töldu margir að nemendur mættu vera duglegri að sækja viðburði. Nýnemavikan og nýnemaferðin fengu góðar umsagnir og fjórir hópar sögðu að nýnemaballið hefði verið fínt, en fleiri hefðu þótt mátt mæta á það. Sex hópar töldu að opnir dagar væru fínir eins og þeir eru. Sex hópar töldu að árshátíðin ætti að vera í stórum dráttum eins og hún var í vetur og aðaláherslu bæri að leggja á fjölbreytt og skemmtileg skemmtiatriði.
Spurningunni um hvort nemendur myndu mæta á menningarkvöld í Gryfjunni svöruðu átta hópar því játandi en fimm hópar neitandi. Ellefu hópar svöruðu því játandi að þeir tækju virkan þátt í félagslífi, en þrír hópar svöruðu því neitandi.

oskarthor@vma.is