Fara í efni

Áhugaverð lokaverkefni vélstjórnarnema

Vélstjórnarnemarnir tíu sem kynntu verkefni sín.
Vélstjórnarnemarnir tíu sem kynntu verkefni sín.

Núna á vorönn, síðustu önn náms í vélstjórn í VMA, vinna nemendur að eigin vali lokaverkefni undir handleiðslu Vilhjálms G. Kristjánssonar kennara. Verkefnum sínum skiluðu nemendur undir lok apríl og sl. mánudag, 6. maí, var síðan komið að því að kynna þau í Gryfjunni í VMA. Að þessu sinni unnu tíu nemendur verkefni, tvö þeirra voru einstaklingsverkefni en fjögur verkefnanna voru samvinnuverkefni tveggja nemenda. Eins og hefð er fyrir voru verkefnin af ýmsum toga og kom fram í kynningunum að almennt voru þau nemendum afar lærdómsrík þar sem nýta þurfti fjölmargt af því sem nemendur hafa lært í námi sínu í VMA, fyrst í grunndeild málmiðnaðar og síðan á vélstjórnarbrautinni.

Hér skal gerð stuttlega grein fyrir verkefnunum sex:

Úrhleypibúnaður fyrir stórsekki
Brynjar Þór Ríkharðsson og Mikael Olason Lotsberg

Hugmyndin að baki verkefninu var að búa til þægilega, einfalda og örugga lausn til þess að skammta úr stórsekkjum án þess þó að tæma þá. Nemendurnir hafa báðir unnið við áburðardreifingu til sveita og þekkja ýmis vandkvæði við að setja áburða í áburðardreifurunum úr slíkum stórsekkjum. Hugmynd þeirra félaga var að verkfærið nýttist til að minnka sóun áburðar og sama gildir um salt- og kornsekki. Ekki þarf að orðlengja það að útfærsla hugmyndarinnar gekk prýðilega og smíði úrhleypibúnaðarins sömuleiðis. Til þess að prófa hvernig búnaðurinn kæmi út var gerð tilraun með hann við að hleypa úr fóðursekkjum hjá Bústólpa á Akureyri. Í sem stystu máli kom búnaðurinn ljómandi vel út.

 

Hraðslökunarbúnaður fyrir færibandareimar fyrir matvælaiðnað
Arnór Reyr Rúnarsson

Verkefni Arnórs gekk út á að hanna hraðslökunarbúnað fyrir færibönd með það í huga að flýta fyrir að geta tekið reimar í sundur til að auðvelda þrif og annað varðandi viðhald á þeim og færiböndum. Um markmið verkefnisins sagði Arnór að hann hafi viljað hanna búnað sem hægt væri að slaka upp á reim á færibandi án þess að breyta strekkingu þess. Umfram allt vildi Arnór að búnaðurinn væri einfaldur í notkun. Hann sagði að verkefnið hafi verið kærkomið til þess að læra á teikniforrit enda hafi þurft að skila teikningu af smíðinni. Hugmyndin sagði Arnór að hefði kviknað á dekki á ísfisktogara, honum hafi fundist vanta búnað til þess að auðvelda þrif á færiböndum. Úrvinnsla hugmyndarinnar og smíði sagði Arnór að hafi gengið nokkuð vel, með góðra manna hjálp, en að lokum hafi útkoman verið eins og hann sá fyrir sér í upphafi. Þar með var tilganginum náð og mikil og dýrmæt reynsla að baki.

 

Rafdrifinn búnaður til hreinsunar á fiðri af villibráð
Sigurður Gísli Gunnlaugsson og Pétur Már Hjartarson

Sigurður Gísli og Pétur Már sögðu markmiðið með þessu verkefni hafa verið margvísleg. Í fyrsta lagi að hanna búnað til þess að reyta fiður af fuglum, allt frá kjúklingum upp í gæsir, í öðru lagi að læra á teikniforritið Fusion 360, í þriðja lagi að rifja upp kunnáttu í smíði, burðarþoli og rúmfræðiútreikningum og í fjórða lagi að auka og þjálfa leikni í hönnun og notkun þrívíddarforrita. Í stórum dráttum er um að ræða einskonar tromlu með mótor, tíðnibreytum og gúmmífingrum sem reyta fiðrið af fuglinum. Þeir nutu velvildar Slippsins á Akureyri og fengu þar aðstöðu til smíðavinnunnar. Í smíðaferlinu tókust þeir félagar á við nokkrar hindranir en tókst að sigrast á þeim að lokum og prófun búnaðarins leiðir í ljós að hann vinnur eins og honum var ætlað og allar líkur á að hann komi að góðum notum í gæsavertíðinni næsta haust.

 

Sjálfvirk skömmtun á kælimottum við pökkun á ferskum fiski
Aron Hákonarson og Kristinn Þeyr Halldórsson

Hugmynd að verkefni Arons og Kristins kom frá starfsmönnum viðskiptaþróunar Samherja. Um er að ræða tæknilausn til þess að skammta kælimottur í plastfrauðkassa í landvinnslu Útgerðarfélags Akureyringa en stór þáttur í starfsemi félagsins er útflutningur á ferskum fiski sem þarf að halda ákveðnu hitastigi alla leið úr landvinnslunni á Akureyri og á áfangastað í útlöndum. Verkefnið sögðu þeir Aron og Kristin að hafi verið kærkomið til þess að öðlast meiri færni í tölvuteikningu og um leið að komast í snertingu við tækni í sjávarútvegi og sjá möguleika og finna út fjárhagslegan ávinning af fjöldaframleiðslu á þjörkum (róbótum). Í sem stystu máli sagt voru þeir félagar ágætlega sáttir við útkomuna og vænta þess að Samherji/ÚA geti nýtt sér þá tæknilausn sem verkefnið fól í sér, enda spari hún umtalsverða fjármuni til lengri tíma. Ekki síður töldu þeir að verkefnið hafi gefið þeim gott tækifæri til þess að kynna sér vel Fusion teikniforritið sem muni nýtast þeim vel í frekari verkefnum og áframhaldandi námi.

 

Áhrif stútbreytingar á Pelton túrbínu í VMA
Sigmar Pálsson og Þorvaldur Ágúst Jónsson

Við kennslu á vélstjórnarbraut í VMA er notuð svokölluð Pelton túrbína í kælukari. Í þeim verkefnum sem túrbínan er notuð er tekin rennslismæling og út frá henni reiknaðar afltölur og nýting. Í ljós kom að túrbínan var ekki að skila nema tæplega helmings nýtingu vegna þess að stúturinn sem vatnið sprautaðist út um á túrbínuhjólið var allt of stór. Ekki aðeins sprautaðist vatnið á túrbínuhjólið heldur einnig framhjá því og því var nýtingin af skornum skammti. Verkefni Sigmars og Þorvaldar, til þess að auka nýtingu túrbínunannar og þar með auka afl hennar, var að lagfæra stútinn. Með verkefninu vildu þeir slá nokkrar flugur í einu höggi; auka nýtingu túrbínunnar um sem næst 20%, bæta þetta kennslugagn vélstjórnarbrautar VMA til framtíðar, auka þekkingu sína á Pelton túrbínum, sem eru þær algengustu í flokki jafnþrýstitúrbína, auka þekkingu á teikniforritum og kynna sér aðferðir við mælingar og útreikninga. Nýr bunustútur var teiknaður í teikniforritinu Fusion 360. Verkefnið reyndist þeim félögum afar lærdómsríkt á allan hátt og til viðbótar við hönnun og smíði á nýjum stút teiknuðu þeir nýtt túrbínuhjól sem síðan var prentað út í þrívíddarprentara í FABLab Akureyri. Tók prentunin um sautján tíma.

 

Hönnun á uppsetningu þjarks til framleiðslu á brettum
Ástþór Ingi Sævarsson

Í verkefni sínu beindi Ástþór Ingi Sævarsson sjónum að tæknilausn sem fælist í því að þjarkur (róbót) leysti af hólmi starfsmann við framleiðslulínu Tandrabretta ehf., sem er stórt fyrirtæki hér á landi í framleiðslu vörubretta úr tré. Vinna starfsmannsins felst í stórum dráttum í því að taka spýtu úr spýtustafla og setja hana á ákveðinn stað í framleiðslulínunni. Verkefnið fólst í því að hanna tæknilausn í þessu sambandi og finna út muninn á kostnaði við rekstrarkostnaði þjarks og starfsmanns. Útreikningar leiddu í ljós að uppsetning á þjarki myndi kosta röska 5,1 milljón króna og rekstrarkostnaður þjarks við framleiðslulínuna væri um 115 þúsund krónur á ári en kostnaður við starfsmann fyrsta árið væri um 5,7 milljónir króna. Sé miðað við afskriftir búnaðarins að fullu á fimm árum fengist út að meðalkostnaður á ári við þjark (stofnkostnaður + rekstrarkostnaður) losaði eina milljón króna samanborið við meðtaltalskostnað upp á um 6,3 milljónir króna á starfsmann. Í niðurstöðum verkefnisins segir Ástþór Ingi að samanburður á rekstri starfsmanns og þjarks leiði í ljós að fjárfesting í þjarki sem leysi starfsmann af hólmi sé mjög hagkvæm fyrir Tandrabretti ehf. enda sé rekstrarkostnaður þjarks einungis um 18 prósent af rekstri starfsmanns á fimm ára tímabili. Hægt sé að líta svo á að þjarkurinn borgi sig upp á tíu til tólf mánuðum. Verkefnið var unnið í samstarfi við Tandrabretti og verða niðurstöður þess kynntar eiganda fyrirtækisins.