Fara í efni

Að sigla á móti straumnum

Pálmar með skærin á lofti í kennslustund í VMA.
Pálmar með skærin á lofti í kennslustund í VMA.

Í nokkrum iðngreinum hefur í gegnum tíðina verið áberandi kynjamunur og þrátt fyrir að mikið hafi verið reynt til þess að breyta þessu hefði mátt ganga betur að fjölga konum í svokölluðum karlageinum og körlum í svokölluðu kvennagreinum. Áberandi „karlagrein“ er til dæmis vélstjórn og að sama skapi er áberandi „kvennagrein“ hársnyrtiiðn en karlmenn eru aðeins um tíu af hundraði þeirra sem starfa í þeirri iðngrein á Íslandi.

Einn af þeim sem siglt hefur gegn straumnum, ef svo má segja, er Pálmar Magnússon. Hann er nú á fjórðu önn í hársnyrtiiðn í VMA og líkar vel.
„Ég er uppalinn á Svalbarðseyri og foreldrar mínir búa þar. Ég kom á sínum tíma hingað í VMA og lauk grunndeild málmiðnaðar. Að því loknu var ég í mikilli óvissu með hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur. Ég hafði áhuga á því að fara í gullsmíði en komst ekki inn í það fag hér heima og var ekki tilbúinn á þeim tíma að fara í gullsmíðanám erlendis. Svo úr varð að ég hætti í skóla. Ég ákvað síðan að breyta til og skipta um umhverfi, flutti suður yfir heiðar og fór í hársnyrtiiðn í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Þetta var árið 2012. Ég tók þrjár annir í þeim skóla en síðan eignuðumst við barn sem gerði það að verkum að við ákváðum að vera um kyrrt hérna fyrir norðan. Ég kom því inn á fjórðu önn í náminu hér í VMA núna um áramót og vonandi næ ég að ljúka því hér um næstu jól,“ segir Pálmar.

Því verður ekki neitað að málmsmíði og hársnyrtiiðn eru töluvert ólíkar greinar, nema auðvitað hvað það varðar að í báðum greinum er mikið handverk. „Já, það er alveg rétt að þetta eru ólíkar greinar. En undir niðri lá áhugi minn á þessu sviði. Kannski var ég svolítið hræddur við að stíga það skref að fara í þetta fag, að fara á móti straumnum. En ég sé ekki eftir því að hafa valið þessa leið. Þetta er í stórum dráttum í takti við það sem ég bjóst við og þetta liggur ágætlega fyrir mér. Margir halda að til dæmis herraklipping sé lítið mál en þeir hinir sömu átta sig ekki á því hversu mikil fínvinna liggur að baki. Litafræðin er líka stór hluti af þessu og hana hygg ég að maður sé að læra smám saman svo lengi sem maður starfar í faginu,“ segir Pálmar og telur að ákveðir fordómar séu þess valdandi að alltof fáir strákar læri hársnyrtiiðn. „Já, að vissu leyti ráða fordómar miklu um það að svo fáir karlmenn fara í þessa iðngrein. Ég er nokkuð viss um að það eru miklu fleiri karlmenn sem hefðu virkilegan áhuga á því að prófa þetta nám en þeir hafa sig ekki af stað, þeir leggja ekki í að fara yfir þennan ósýnilega þröskuld, sem er mikil synd því karlmenn eiga sannarlega ekkert síður erindi í þessa iðngrein en konur,“ segir Pálmar sem auk þess að stunda námið í VMA starfar á hárgreiðslustofunni Amber á Akureyri og hefur gert um hríð. Raunar hefur Pálmar nú þegar lokið námssamningi sínum þar sem þýðir að eftir að skólatímanum lýkur á hann aðeins sveinsprófið eftir til þess að ljúka náminu að fullu.

Og því má svo bæta við að atvinnuhorfur í hársnyrtiiðn eru góðar, samkvæmt skýrslu sem var gefin út undir lok síðasta ás. Eins og í svo mörgum öðrum greinum varð töluverð niðursveifla í þessari iðngrein í kjölfar efnhagshrunsins en landið er farið að rísa verulega á nýjan leik og bjartari tímar taldir vera framundan.