Fara í efni

"Leggið alúð við hæfileika ykkar"

Brautskráningarnemendur á sviðinu í Hofi. Mynd: HF
Brautskráningarnemendur á sviðinu í Hofi. Mynd: HF
„Það er von mín að á allra næstu misserum verði unnt að bjóða upp á frekara nám í hvers konar hönnun, nýsköpunarfræðum og upplýsingamiðlun. Á þeim vettvangi hefur atvinnulífið verið að taka við sér og tel ég að brautin hafi verið rudd fyrir margvísleg atvinnutækifæri fyrir ungt og vel menntað fólk á þeim vettvangi. Ekki má heldur gleyma ferðaþjónustunni sem hefur vaxið fiskur um hrygg. Það er von okkar að haustið 2015 muni VMA geta boðið nemendum sínum upp á fullnaðarnám fyrir bæði kokka og þjóna,“ sagði Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari, m.a. brautskráningarræðu sinni í Menningarhúsinu Hofi í dag.

„Það er von mín að á allra næstu misserum verði unnt að bjóða upp á frekara nám í hvers konar hönnun, nýsköpunarfræðum og upplýsingamiðlun. Á þeim vettvangi hefur atvinnulífið verið að taka við sér og tel ég að brautin hafi verið rudd fyrir  margvísleg atvinnutækifæri fyrir ungt og vel menntað fólk á þeim vettvangi.  Ekki má heldur gleyma ferðaþjónustunni sem hefur vaxið fiskur um hrygg. Það er von okkar að haustið 2015 muni VMA geta boðið nemendum sínum upp á fullnaðarnám fyrir bæði kokka og þjóna,“ sagði Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari, m.a. í brautskráningarræðu sinni í Menningarhúsinu Hofi í dag.

Hof var þéttskipað á útskriftinni í dag og umgjörðin um þennan hátíðisdag var eins og vera ber. 

Hér má sjá nokkrar myndir sem voru teknar við brautskráninguna í dag. 

Og hér er er til viðbótar fullt af myndum af brautskráningunni sem Hilmar Friðjónsson tók.

Í upphafi ræðu sinnar nefndi skólameistari að Verkmenntaskólinn hafi nú sem endranær starfað af miklum krafti og allir starfsmenn hafi lagst á eitt um að árangurinn verði sem bestur – hvort sem um væri að ræða gæði þeirrar þjónustu sem væri veitt eða hvað varðaði rekstur stofnunarinnar. 
Í vetur hófu rúmlega 1200 nemendur nám á haustönn og um 1100 á vorönn eftir að tæplega 120 nemendur brautskráðust í desember. Núna útskrifast frá skólanum rösklega 140 nemendur, sem þýðir að samtals hafa lokið námi um 260 nemendur á þessu skólaári.

„Hópurinn gefur ágæta mynd af þeirri breidd í námsframboði sem Verkmenntaskólinn á

Akureyri býður upp á.  Það er von okkar að sá hluti hópsins sem hefur aflað sér starfsréttinda standi vel undir þeim og kunni sitt fag á meðan hinir, stúdentarnir, uppfylli þær kröfur sem gerðar verða til þeirra stefni þeir á áframhaldandi nám á háskólastigi eins og þeir hafa nú rétt til.

Iðnaðarmennirnir, flestir hverjir, eiga reyndar sveinsprófið eftir þar sem þeir þurfa að sanna bæði verklega og bóklega þekkingu og hæfni og etja kappi við félaga sína víðs vegar af landinu. Er það ekki síður prófsteinn fyrir skólann og meistara þeirra en fyrir nemendurna – en staðreyndin er sú að nemendur okkar hafa jafnan staðið sig með prýði á sveinsprófum og oft skarað fram úr. Þess má jafnframt geta að VMA sendi keppendur til keppni á Íslandsmóti iðn- og verkgreina sem fram fór í Kórnum í Kópavogi í vetur. Okkar fólk gerði sér lítið fyrir og kom heim með fjóra Íslandsmeistaratitla; í húsasmíði, rafvirkjun, kjötiðn og  á sviði sjúkraliða.

Í dag er líka að brautskrást hópur nemenda af starfsbraut fatlaðra. Er það von okkar að skólanum hafi tekist að búa þá út í lífið og þeir fari héðan með gott veganesti eftir fjögurra ára veru í skólanum. Svo mikið er víst að það hefur veitt okkur mikla ánægja um leið og það hefur verið okkur mikil uppörvun að eiga þess kost að fylgjast með þroska þeirra og framförum. Væri óskandi að þeir sem treysta sér til ættu þess kost að mennta sig frekar og auka færni sína til þátttöku í samfélaginu og til betri lífsgæða,“ sagði skólameistari.

Öflugt skólastarf – erlent samstarf
Skólameistari sagði að mikill kraftur hafi verið í skólastarfinu á liðnu skólaári og mörg verkefni, sem ekki beinlínis tengjast hinum daglegu skyldum, hafi verið innt af hendi.
„Má þar nefna að mikil áhersla hefur verið lög á að treysta samstarf og samskipti VMA við grunnskóla- og háskólasviðið annars vegar og hins vegar við atvinnulífið. Aldrei hefur verið meiri þörf fyrir það en nú að allir þessir aðilar tali saman og allir viti hvað hinn er að gera og hugsa.
Þá hefur veturinn verið óvenju erlilsamur af þeim sökum að við höfum átt í samstarfi við fjölmarga erlenda skóla og  menntastofnanir; bæði á vettvangi Evrópusambandsins og Norðurlandanna. Höfum við af þeim sökum tekið á móti fjölmörgum nemendum, kennurum og skólastjórnendum og sent fólk frá okkur í sama mæli til þeirra. Þetta er okkur dýrmæt reynsla og þó að við búum hér norður við ysta haf þá erum við ekki eyland, síður en svo."

Lokaverkefni
Hjalti Jón gat þess að á undanförnum árum hafi þróast áhugavert og skemmilegt vinnulag á lokaönn rafvirkja og vélstjóra sem hafi verið fólgið í því að nemendur, einn eða fleiri, þurfi að leggja af mörkum metnaðarfullt lokaverkefni. 
„Nemendur þurfa að koma með hugmynd að tæki, vél eða búnaði; hanna hann, smíða og setja saman auk þess að leggja fram kostnaðar- og rekstraráætlun. Í mörgum tilvikum hafa verkefnin verið unnin í samstarfi við fyrirtæki sem hafa þá aðstoðað nemendur við að skapa raunhæfar hugmyndir, lagt þeim til efni og aðstöðu þegar því hefur verið að skipta. Við vinnuna hafa nemendur þurft að nota þekkingu sína og færni á breiðu sviði til þess að gera hugmynd sína að veruleika og láta dæmið ganga upp. Fróðlegt hefur verið að fylgjast með kynningum þeirra í upphafi annar og síðan að verklokum. Verkefni þeirra vélstjóra sem eru að brautskrást í dag eru meðal annars fólgin í vatnsaflsvirkjun sem sett verður upp við Bláfell á Biskupstungnaafrétti til þess að knýja senda Neyðarlínunnar og færanlegan fóðurgang í fjósi í Hörgársveit, samanburð á uppsetningu og rekstri varmadælu og borun og rekstri hitaveitu á ferðaþjónustubýli í Fnjóskadal og svo mætti áfram telja.
Vilji okkar er sá að innan fárra missera verði fleiri nemendum sem brautskrást úr skólanum gert kleift að vinna lokaverkefni; hvort sem þeir eru í bóknámi eða verknámi. Við sjáum jafnvel fyrir okkur að nemendur af mismunandi brautum geti unnið saman; eins og til dæmis verðandi stúdentar af náttúrufræðibraut eða félagsfræðabraut og viðskipta- og hagfæðibraut með vélstjórum og/eða rafvirkjum. Slík vinna væri góður undirbúningur hvort sem væri fyrir þátttöku í atvinnulífinu eða  háskólanám þar sem kröfur eru gerðar um að  nemendur hafi tileinkað sér vinnubrögð af þessu tagi. Má nefna tæknifræðinám í því sambandi – en það er líka von okkar að innan skamms verði unnt að bjóða upp á slíkt nám hér á Akureyri.“

Matsönn
Verkmenntaskólinn hefur undanfarin fjögur ár boðið nemendum í 10. bekk grunnskóla upp á að stunda nám á svokallaðri matsönn. 
„Hún er fólgin í því að duglegum nemendum, sem uppfylla ákveðin skilyrði, gefst tækifæri til þess að taka byrjunaráfanga í kjarnagreinum, og jafnvel fleirum, í gegnum fjarnám. Gert er ráð fyrir því að þeir njóti leiðsagnar kennara sinna í grunnskóla ef svo ber undir en flestir hafa algjörlega gert þetta á eigin forsendum og tekið einn áfanga eða fleiri eftir getu og áhuga. Þetta nám geta þessir nemendur stundað endurgjaldslaust en við setjum reyndar þau skilyrði að þeir séu á leið hingað í VMA að hausti. Með þessu móti hafa nýnemar hafið hér nám með allt að 10 einingar í farteskinu; sem segja má að hljóti að flokkast undir ,,fljúgandi start.” Sex nemendur úr þessum hópi eru að brautskrást hér í dag með miklum ágætum eftir aðeins þriggja ára veru í skólanum og sumir af fleiri en einni braut.
Matsönnin hefur smám saman verið að sækja í sig veðrið og hefur fjölgun nemenda þar verið góð og stígandi. Er það von okkar að þessi viðleitni verði til þess að opna gáttir á milli grunn- og framhaldsskóla þannig að dugmiklir og skipulagðir nemendur fái verkefni við hæfi og geti haldið sama dampinum frá unglingastigi grunnskóla og upp í stúdentspróf eða hvers konar námslok úr framhaldsskóla. Þetta gefur líka slíkum nemendum tækifæri til að nýta sér hið fjölbreytta námsframboð og sveigjanleika áfangakerfisins og það hafa þeir sannarlega gert.
Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að leita mismunandi leiða til þess að gera nemendum kleift að brautskrást úr framhaldsskóla 19 ára gamlir en ekki með því að stytta framhaldsskólann um eitt ár eins og verið hefur stefna yfirvalda um árabil. Ég held að leiðir af því tagi sem við höfum verið að bjóða upp á ýti frekar undir dugnað, ábyrgð og skipulagni meðal unglinga; sem síðan skilar þeim betri árangri í framhaldsskóla.

30 ára afmæli
Á afmælisdegi Akureyrarbæjar þann 29. ágúst á þessu ári verða 30 ár liðin frá því að Verkmenntakólinn á Akureyri var stofnaður. Hjalti Jón minntist þessara tímamóta í útskriftarræðu sinn í Hofi í dag.
„Um árabil hafði verið talið tímabært að fjölga námstækifærum unglinga á Akureyri að loknum grunnskóla og að stofna skóla af því tagi sem við þekkjum nú svo vel; með sameiningu framhaldsdeildar Gagnfræðaskóla Akureyrar, Iðnskólans á Akureyri og Hússtjórnarskólans. Bæjarstjórn kaus byggingarnefnd þann 9. september 1980. Þá þegar voru lagðar línurnar um það að sameina skyldi starfsemi allra skólanna undir einu þaki á Eyrarlandsholtinu þar sem áður var golfvöllur bæjarins. Menn voru stórhuga og gerðu áætlun um að skólinn yrði fullbyggður haustið 1986 – að því tilskildu þó að ekki stæði á fjárveitingum. Fyrsta byggingin, sem hýsti málmsmíðabrautina, var tekin í notkun 1983 – ári áður en formleg stofnun skólans fór fram.  Síðan var alltaf bætt við og á endanum höfðu verið byggðir um 14.500 fermetrar; en það var ekki fyrr en haustið 2010 – en þá höfðu byggingarframkvæmdir staðið yfir með hléum í 29 ár.
Ingvar Gíslason þáverandi menntamálaráðherra tók fyrstu skóflustunguna þann 29. ágúst 1981 og sagði við það tækifæri meðal annars að með stofnun Verkmenntakólans og með því að ákveða, að  hann skyldi vera jafngildur gamla Menntaskólanum, væri verið að framkvæma þá stefnu í skólamálum að gera verkmenntun jafnhátt undir höfði og hefðbundnu bóknámi. Þessi orð voru í tíma töluð; og enn erum við að klifa á þeim því að þrátt fyrir allt finnst okkur enn vanta nokkuð upp á.
Margt varð til þess að byggingarframkvæmdir gengu ekki hraðar en raun bar vitni og ýmsu var bætt við og breytt frá upphaflegum hugmyndum. Því má segja að svolítil töf hafi jafnvel verið til bóta vegna þess að byggingarnar þróuðust í samræmi við breyttar hugmyndir um brautaskipan, fjölda nemenda og þarfir skólans. Reyndar var það svo að mörg aðalrými skólans voru upphaflega hönnuð með um 700-800 manns í huga en lengi vel hafa nemendur skólans verið á 12. og 13. hundraðið. Af þeim sökum meðal annars er nú verið að ganga frá deiliskipulagi af skólalóðinni þar sem gert er ráð fyrir viðbótarbyggingum sem vonandi munu sjá dagsins ljós í náinni framtíð.
Bernharð Haraldsson var skipaður skólameistari í apríl 1983 og beið hans ærið verkefni; að halda utan um byggingaramkvæmdir ásamt byggingarnefndinni, að skipuleggja brautaskipan og skólastarfið í heild sinni og síðast en ekki síst að ráða starfsfólk sem margt hvert er enn við störf í skólanum. Þá beið Bernharðs og samstarfsfólks hans það vandasama verkefni að breiða út fagnaðarerindið um jafnsetningu verknáms og bóknáms. Allt þetta fórst þeim vel úr hendi. Ekki má heldur gleyma mikilvægu hlutverki fyrstu skólanefndarinnar sem skipuð var af bæjarstjórn 25. janúar 1983; að fylgjast með því að allt færi fram samkvæmt lögum og reglum, og standa að baki þeim ákvörðunum sem stjórnendur skólans tóku á erfiðum og stundum viðkvæmum tímum.“

Fjórðungur nemenda utan Eyjafjarðarsvæðisins
Skólameistari sagðist líta svo á að VMA tryggði nærsamfélaginu sjálfbærni á margvíslegan hátt, þ.e. að það væri sjálfu sér nægt um svo margt.
„Nefna má atvinnulífið í þessu sambandi; ef VMA brautskráði ekki á ári hverju tugi vel menntaðra iðnaðarmanna og fólk með starfsmenntun af ýmsu tagi, þá væri það ekki nærri eins kröftugt og raun ber vitni. Í þessu samhengi má einnig nefna háskólann okkar á Akureyri; enginn framhaldsskóli á jafnhátt hlutfall nemenda við HA eða um 18%. Það skiptir okkur hér fyrir norðan miklu máli að geta boðið upp á sem fjölbreyttast nám, ekki bara fyrir unga fólkið á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu, því að í VMA þjónustum við miklu stærra svæði bæði fyrir vestan okkur og austan - um 25% nemenda eiga lögheimili utan Eyjafjarðarsvæðisins.“

Tækninám á háskólastigi
„Við þurfum að vera meðvituð um mikilvægi skólanna fyrir nærsamfélagið og spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við bjóðum upp á það nám sem ungt fólk og samfélagið hér þurfa á að halda. Okkur ber að gæta þess að mennta nemendur okkar til starfa hér á svæðinu ekki síður en annars staðar. Af þeim sökum er fjölbreytni mikilvæg og við þurfum að hlusta á atvinnulífið; hverjar þarfir þess eru. Þetta tvennt fer saman; öflugt og fjölbreytt atvinnulíf og skólar á öllum stigum sem mennta fólk til starfa og búsetu á svæðinu.
Það hefur vakið athygli að um 80% nemenda Háskólans á Akureyri eru konur. Tel ég nú vera sóknarfæri fyrir háskólann okkar að huga af alvöru að því að bjóða upp á tækninám á háskólastigi; eins og til dæmis rafmagnstæknifræði, véltæknifræði, byggingatæknifræði og orku- og auðlindatæknifræði. Þegar er kominn vísir að slíku námi þar sem auðlindadeildin er og nú tel ég vera rétta tækifærið til þess að skoða þetta af fyllstu alvöru og afla þessari hugmynd pólitísks stuðnings bæði á meðal sveitarstjórna og á Alþingi. Verkmenntaskólinn á Akureyri mun ekki láta sitt eftir liggja en tengsl hans við atvinnulífið getur orðið háskólanámi af þessu tagi öflugur bakhjarl.
Við hér í VMA þurfum að fylgjast með því sem er að gerast í kringum okkur og huga að því hvort námsframboðið sé í takti við kröfur tímans hverju sinni. Ég tel að betur megi gera. Það er von mín að á allra næstu misserum verði unnt að bjóða upp á frekara nám í hvers konar hönnun, nýsköpunarfræðum og upplýsingamiðlun. Á þeim vettvangi hefur atvinnulífið verið að taka við sér og tel ég að brautin hafi verið rudd fyrir  margvísleg atvinnutækifæri fyrir ungt og vel menntað fólk á þeim vettvangi.  Ekki má heldur gleyma ferðaþjónustunni sem hefur vaxið fiskur um hrygg. Það er von okkar að haustið 2015 muni VMA geta boðið nemendum sínum upp á fullnaðarnám fyrir bæði kokka og þjóna. Fjölgun veitingastaða og hótela með nemaleyfi hefur orðið talsverð á undanförnum árum og því hafa aðstæður breyst þannig að auðveldara er fyrir nemendur í þessum greinum að komast á samning hjá fyrirtækjum hér á svæðinu og þá er ég að tala um allt Norðurland og Austurland. Slíkt er forsenda fyrir því að unnt verði að bjóða upp á samningsbundið nám á þessu sviði.“

Styrkir til tækjakaupa      
Hjalti Jón ræddi um þann fjárskort sem framhaldsskólar landsins hafi glímt við undanfarin ár sem hafi m.a. komið í veg fyrir endurnýjun tækja og búnaðar fyrir verknámsdeildir VMA og búnað af öllu tagi.
„Í nýgerðum kjarasmningi framhaldsskólakennara og ríkisins eru gefin fyrirheit um að úr þessum brýna vanda verði bætt á næstu misserum og meira fé verði varið til framhaldsskólanna sem hafa verið hart leiknir undanfarin ár.
Á afmælisárinu höfum við lagt áherslu á að minna fyrirtæki hér á svæðinu og almenning á mikilvægi góðs samstarfs atvinnulífs og skóla. Myndarlegir styrkir í þágu málm- og véltæknigreina frá fyrirtækjunum Kælismiðjunni Frosti, Slippnum og Samherja um áramótin bera vitni um það að um gagnkvæman skilning er að ræða á mikilvægi öflugs tæknináms og vilja til þess að stuðla að því að Verkmenntaskólinn á Akureyri sé í fremstu röð.
Styrkir þeir sem við höfum fengið að undanförnu hafa gert okkur kleift að fjárfesta í dýrum en bráðnauðsynlegum tækjum fyrir málsmíðabraut, vélstjórnarbraut og rafiðnaðarbraut en þar hafa fyrirtæki á borð við Becromal og Rönning einnig komið myndarlega að málum. Þessir styrkir styrkja þann vilja okkar að skólinn geti tekið þátt í tækniþróun og haldi í við atvinnulífið.“

Nemendur eru besta auglýsingin
Skólameistari gat þess að félaglíf hafi verið með ágætum í vetur eins og endranær.
„Við höfum státað af því að halda vímulausar skemmtanir í skólanum og þekkjast varla tilvik þar sem við höfum þurft að hafa afskipti af nemendum sökum ölvunar eða neyslu fíkniefna. Hið sama má segja um svokallaða dimmisson eða kveðjuhátíð brautskráningarnema – sem fór að þessu sinni í hvítvetna vel fram og var öllum til sóma sem þátt tóku í henni.
Í vetur bar svo við að nokkrir nemendur tóku sig til og settu á stofn útvarpsstöð með aðstoð eins kennara síns á rafiðnaðarbraut. Eftir að tilskilin leyfi voru komin í hús hófust útsendingar með efni af ýmsu tagi þó að tónlistin hafi verið undirstaðan. Mér þótti sérstaklega vænt um að útvarpsstöðin skuli hafa starfað af krafti meðan á verkfalli kennara stóð  í þrjár vikur. Eigum við ekki að segja að hún hafi verið límið sem tengdi nemendur við skólann þennan tíma; en þess má geta að brottfall sem beinlínis var unnt að rekja til verkfallsins var minna en við höfðum átt von á.
Grunnskólakynning fór fram á haustönn eins og venja er en þá er nemendum 10. bekkjar í öllum skólum á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu og úr nágrannabyggðum í austri og vestri boðið í heimsókn. Að þessu sinni var framkvæmdinni breytt meðal annars á þann veg að meiri áhersla en áður var lögð á þátttöku nemenda VMA. Þetta fyrirkomulag þótti takast vel og var ánægjulegt að sjá hvað nemendur okkar voru góð og öflug auglýsing fyrir skólann sinn. Þessi hópur tók einnig að sér það verkefni að heimsækja þessa sömu bekki í grunnskólunum á vorönn. Þetta var okkar besta kynning til þessa en að sjálfsögðu hefur skipulagið og framkvæmdin hvílt mest á herðum öflugra námsráðgjafa skólans.“

Brautskráning og tónlistaratriði
Kennslustjórar VMA önnuðust sjálfa brautskráninguna; Jónas Jónsson  kennslustjóri samfélagsfræðasviðs, Ragnheiður Þórsdóttir  kennslustjóri listnámsbrautar, Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir, kennslustjóri starfsbrautar, Borghildur Blöndal kennslustjóri raungreinasviðs, Baldvin Ringsted  kennslustjóri tæknisviðs og Ingimar Árnason  kennslustjóri fjarnáms.

Um tónlistaratriði við brautskráninguna í dag sáu:
Viktor Örn Valdimarsson, sem söng lag eftir kærustuna sína, Helenu Rán Krüger. Textinn er eftir Viktor. Kristján Edelstein spilaði undir á gítar.

Kamilla Ósk Heimisdóttir spilaði á selló. Meðleikari hennar á selló var Salka Kristjánsdóttir.

Afhending verðlauna
Veittar voru að vanda viðurkenningar til þeirra nemenda sem skarað hafa fram úr eða náð bestum árangri í einstökum greinum. 

„Það getur stundum verið mjótt á mununum og erfitt að geta ekki veit efstu tveimur verðlaun nema þeir séu hnífjafnir. Reyndar er stór hópur nemenda hér í dag sem hefur stundað nám sitt af mikilli elju og samviskusemi og svo þarf náttúrlega ekki að tala um hæfileika þeirra. Námsárangur efstu nemenda hefur sjaldan verið meiri en nú. Nú sem endranær eru ýmis fyrirtæki og stofnanir sem koma til liðs við skólann og gefa hin ýmsu verðlaun,“ sagði skólameistari.

Bjarney Guðbjörnsdóttir fær verðlaun fyrir bestan árangur í þýsku. Gefandi er Þýska sendiráðið í Reykjavík.

Karen Rut H. Aðalsteinsdóttir hlýtur verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í samfélagsgreinum. Gefandi er Minningarsjóður um Albert Sölva kennara.

Guðbjörg Þóra Stefánsdóttir hlýtur verðlaun fyrir framaúrskarandi árangur í textílgreinum á Listnámsbraut. Gefandi er Kvennasamband Eyjafjarðar.

Harpa Ósk Lárusdóttir hlýtur líka verðlaun fyrir framaúrskarandi árangur í textílgreinum á Listnámsbraut. Gefandi er Kvennasamband Eyjafjarðar.

Þorvaldur Guðni Sævarsson hlýtur verðlaun fyrir bestan árangur í myndlistargreinum á Listnámsbraut. Gefandi er Litaland.

Guðbjörg Þóra Stefánsdóttirhlýtur verðlaun fyrir framaúrskarandi árangur í frönsku. Gefandi er Bókaútgáfan Iðnú.

Hjalti Jósafat Arnarssonfær verðlaun fyrir bestan árangur í viðskiptagreinum.  Gefandi er Kaupmannafélag Akureyrar.

Nanna Kristjánsdóttir fær verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í efnafræði. Gefandi er Efnafræðingafélag Íslands.

Nanna hlýtur einnig verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum. Gefandi er Gámaþjónusta Norðurlands.

Harpa Sif Halldórsdóttir fær verðlaun fyrir frábæran árangur í stærðfræði og raungreinum.

María Dís Ólafsdóttirfær verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku. Gefandi er Eymundsson á Akureyri.

María Dís hlýtur einnig verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í spænsku. Gefandi er A4 á Akureyri.

María Dís Ólafsdóttirfær sérstaka viðukenningu fyrir að hafa lokið stúdentsprófi af þremur brautum samstímis með framúrskarandi árangri og aðeins 19 ára gömul. Gefandi er Íslandsbanki.

Kristín Guðjónsdóttirfær verðlaun fyrir frábæran árangur í íslensku. Gefandi er Eymundsson á Akureyri.

Kristín Guðjónsdóttir hlýtur verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í dönsku. Gefandi er Danska sendidráðið í Reykjavík.

Þær stöllur María Dís og Kristín fá jafnframt báðar tvær verðlaun fyrir frábæran árangur í ensku. Gefandi er SBA-Norðurleið.

Kristín Guðjónsdóttir hlýtur loks viðurkenningu fyrir að hafa hlotið hæstu einkunn á stúdentsprófi. Gefandi er Flugfélag Íslands.

Háskólinn í Reykjavík veitir sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi í hverjum framhaldsskóla. Um er að ræða bókaverðlaun sem veitt verða þeim nemanda sem hlýtur hæstu meðaleinkunn þeirra sem hafa lokið að minnsta kosti 21 einingum í stærðfræði og 6 einingumí eðlisfræði. Auk þess fá verðlaunahafar, sem kjósa að hefja nám við Háskólann í Reykjavík, nýnemastyrk og niðurfelld skólagjöld fyrstu önnina í námi.

Að þessu sinni koma þessi verðlaun í hlut Þorláks Sigurðssonar vélstjóra með með meiru.

Þorlákur Sigurðsson fær einnig verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum vélstjórnar. Gefandi er Norðurlandsdeild Tæknifræðingafélags Íslands.

Jónas Hjartarson hlýtur verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum húsasmiða.

Eyþór Snær Eyþórsson fær verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum í húsgagnasmíði. Gefandi er Byggiðn, Félagi byggingamanna.

Svanhildur Kristjánsdóttir, sem brautskráist í dag sem stúdent og matartæknir, hlýtur verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum matartækna. Gefandi er Lostæti á Akureyri.

Harpa Kristín Sæmundsdóttir fær verðlaun fyrir bestan árangur í hjúkrunargreinum á sjúkraliðabraut. Gefandi er Sjúkrahúsið á Akureyri:

Rhonjie Cisneros Catalan, sem hefur lokið námi í húsgagnasmíði, hlýtur viðurkenningu Ísbrúar, félags kennara sem kenna íslensku sem annað tungumál, fyrir frábæran árangur í námi í íslensku framhaldsskóla.

Brynjar Ingjaldsson: Fær sérstaka viðurkenningu frá kennurum sínum á vélstjórnarbraut fyrir seiglu, dugnað og framfarir í námi. Gefandi er Norðurorka.

Hér er kveðja frá kennurum hans af þessu tilefni:
Brynjar hefur sýnt mikla staðfestu og eflst við hverja raun. Með dugnaði, þrautseigju og því að missa ekki sjónar af markmiðum sýnum lýkur Brynjar námi sínu við Verkmenntaskólann með sóma.

Svo kvað Steinn Steinarr:

Víst er þetta löng og erfið leið,
og lífið stutt og margt, sem út af ber.
En tigið gegnum tál og hverskyns neyð
skín takmarkið og bíður eftir þér.

Kristín Rósa Jóhannsdóttir fær viðurkenningu fyrir að vera fyrirmyndar skólaþegn.Hún er einn þeirra nemenda sem getur státað af 100% mætingu í 7 annir og hefur stundað nám sitt af einstakri samviskusemi. Gefandi er Nýherji á Akureyri.

Við höfum það fyir sið að afhenda nokkrum nemendum  sem  hafa starfað dyggilega að félagslífi í skólanum blómvönd sem þakklætisvott fyrir dugnað og ósérhlífni í þágu félaga sinna. Ýmist hefur það ágæta fólk gegnt ábygðarstörfum fyrir nemendafélagið Þórdunu tekið eða lagt gjörfa hönd á plóginn á einhverjum sviðum skólasamfélagsins.

Haukur Svansson fyrir nemendaráð
Jónas Kári Eiríksson fyrir nemendaráð
Tinna Traustadóttir fyrir þátttöku og stuðning við félagslíf skólans.

Við ætlum að leyfa okkur að afhenda matsannarnemendunum okkar blómvendi. Þeir eru að brautskrást hér eftir þriggja vetra nám með framúrskarandi árangri,

Alma Dröfn Vignisdóttir
Birna Ósk Gunnarsdóttir
Elín Helga Björnsdóttir
Guðbjörg Þóra Stefánsdóttir
Halldór Arnarsson
Hjalti Jósafat Arnarsson

Guðrún Paulomi Sveinsdóttir: lýkur bæði stúdentsprófi og sjúkraliðanámi á þremur árum.

Kristín Helga Stefánsdóttirer líka gott dæmi um nemanda sem nýtir sér tækifærin hér í skólanum; sveigjanleika áfangakerfisins og fjölbrbreytt námsframboð: hún kemur 15 ára í skólann og á fjórum árum brautskráist hún bæði sem sjúkraliði og stúdent en þess má jafnframt geta að fyrsta árið stundaði hún nám í grunndeild matvælagreina.

Loks vil ég biðja Bernharð Haraldsson, fyrrverandi skólameistara VMA, að koma upp á svið og taka við blómvendi frá skólanum fyrir hans góðu störf fyrir skólann.

Nanna Kristjánsdóttirflutti ávarp brautskráningarnema.

María Jespersen flutti ávarp 20 ára brautskráningarnema.

Lokaorð
"Ágætu brautskráningarnemar.
Á stund sem þessari langar mig að brýna fyrir ykkur nokkur mikilvæg gildi – eins og það að bera virðingu fyrir viðhorfum og skoðunum annarra. Að sýna samferðarfólki ykkar umburðarlyndi á lífsins leið og vera æðrulaus gagnvart því sem þið ráðið ekki við. Hlustið á sjónarmið annarra. Umgangist alla þá er á vegi ykkar verða af sömu alúð – háa sem lága.
Hafið hugfast að ekkert það starf sem ykkur verður falið er svo ómerkilegt að það eigi ekki skilið að vera leyst af hendi af fyllstu alúð og samviskusemi. Verið trú yfir því sem ykkur er treyst fyrir – í stóru sem smáu.
Berið virðingu fyrir og verið trú uppruna ykkar og heimabyggð – leggið alúð við móðurmálið ykkar, hvert sem það er, og hæfileikana sem ykkur eru í blóð bornir.
Loks vil ég þakka samstarfsfólki mínu fyrir vel unnin störf á önninni og undirbúning og framkvæmd þessarar hátíðar okkar í dag.

Ágætu gestir.
Brautskráningarnemum og aðstandendum þeirra, starfsfólki og öðrum gestum óska ég gleðilegs sumars og þakka öllum fyrir þessa góðu stund hér í Hofi.