Fara í efni

Nemendur og kennarar frá Suður-Frakklandi í Evrópuverkefni í VMA

Nemendur og kennarar á Litla-Árskógssandi.
Nemendur og kennarar á Litla-Árskógssandi.

Í síðasta mánuði fór hópur nemenda og kennara af matvælabraut VMA í skólaheimsókn til Suður-Frakklands, nánar tiltekið La Tour-d’Aigues, til að taka með nemendum og kennurum hans þátt í Erasmus+ - verkefninu Rotten Shark and Aioli, þar sem áherslan er á mat úr héraði. Síðastliðinn mánudag komu fimm nemendur og tveir kennarar frá La Tour-d’Aigues til Akureyrar og vinna ásamt kollegum þeirra á matvælabraut VMA að ýmsum verkefnum í þessari viku.

Í gær lá leið nemenda og kennara af matvælabraut og hinna frönsku gesta út í Hrísey þar sem Hákarlasafnið var m.a. skoðað. Það segir á skemmtilegan og myndrænan hátt sögu hákarlaveiða, sjávarútvegs og mannlífs í Hrísey í gegnum tíðina. Að sjálfsögðu var boðið upp á hákarl og harðfisk í þessari heimsókn.

Þegar komið var í land á ný var ekið á Hauganes og fiskvinnslufyrirtækið Ektafiskur heimsótt. Þar fékk hópurinn skemmtilega kynningu á saltfiskverkun fyrirtækisins og einnig fylgdu með margir skemmtilegir fróðleiksmolar um hákarlaverkun. Ánægjulegum degi lauk í heitu pottunum á Hauganesi.

Þessar myndir voru teknar í heimsókninni út í Hrísey og á Hauganes í gær.

Í dag elda nemendur beggja skólanna saman í VMA og á morgun verður farið í skoðunarferð í Mývatnssveit. Frönsku nemendurnir og kennarar þeirra fara síðan til Reykjavíkur nk. föstudag og fljúga til Parísar aðfaranótt laugardags.