Fara í efni

Á leið til La Tour-d'Aigues í Suður-Frakklandi

Níu af tólf nemendum ásamt Marínu og Eddu Björk.
Níu af tólf nemendum ásamt Marínu og Eddu Björk.

Fyrir nákvæmlega tveimur árum voru nemendur í grunndeild matvæla og kennarar þeirra að undirbúa ferð til La Tour-d’Aigues, sem er skammt norðan við Marseille í Suður-Frakklandi. Ferðin átti að vera hluti Erasmus+ Evrópuverkefnis sem VMA og framhaldsskólinn MFR í La Tour-d’Aigues vinna sameiginlega að. En ferðin var aldrei farin fyrir tveimur árum vegna þess að kórónuveirufaraldurinn helltist yfir heimsbyggðina einmitt þegar ákveðið hafði verið að fara til Frakklands. Hún var því sett á ís en Evrópuverkefnið hvarf ekki. Núna hefur það verið endurvakið og að rúmri viku liðinni fara tólf nemendur í grunndeild matvæla- og ferðagreina ásamt kennurum sínum til fundar við nemendur og kennara MFR skólans í La Tour-d’Aigues.

Eins og í öllum Evrópuverkefnum leggja þátttökuskólarnir áherslu á menningu og sérstöðu sinna heimalanda og það verður einnig í þessu verkefni sem á ensku kallast Rotten Shark and Aioli.

Eðli málsins samkvæmt er áherslan hér á matvæli – matur úr héraði. Frakkarnir koma til með að kynna fyrir íslenskum gestum sínum mjólkurafurðir – t.d. geitaost og ísgerð.

Þetta verður vikuferð, flogið til Parísar sunnudaginn 20. mars og sama dag verður áfram haldið í lest til Suður-Frakklands. Frá mánudegi til miðvikudags verður unnið í verkefnum í MFR-skólanum en aftur liggur leiðin til Parísar fimmtudaginn 24. mars og þar gistir hópurinn í tvær nætur og mun föstudaginn 25. mars njóta einhvers þess sem þessi fallega borg hefur upp á bjóða. Flogið verður síðan heim til Íslands laugardaginn 26. mars.

Síðastliðinn miðvikudag, á námsmatsdegi, komu Frakklandsfarar saman til fundar og farið var yfir skipulag ferðarinnar og ýmis hagnýt atriði. Nemendur fluttu stuttar kynningar á því sem þeir höfðu kynnt sér um áhugaverða staði í París.  Meðal staða sem voru nefndir var Effelturnin, Sigurboginn, Versalir, Montmartre, Katakomburnar – og að sjálfsögðu valinkunnar verslunarmiðstöðvar! Það verður úr vöndu að ráða hvernig föstudeginum 25. mars skal varið í heimsborginni.

Dagana 24.-29. apríl nk. er svo á dagskrá að nemendahópur frá MFR komi í heimsókn í VMA og kynni sér okkar íslensku matarmenningu. Örugglega verður lögð áhersla á sjávarfang og landbúnaðarafurðir hverskonar. Það kemur í ljós síðar. Fyrst fer sendinefnd VMA til Suður-Frakklands – og ekki laust við að tilhlökkunar gæti!