Fara í efni

Vélstjórn D (Staðfestingarnúmer 514)

Vélstjórnarnám skiptist í meginatriðum í sex námsstig sem að námi loknu veita hvert um sig, að öðrum skilyrðum uppfylltum, rétt til að fá útgefið skírteini til starfa sem vélstjóri. Þetta námsstig (sjötta) er til að gegna stöðu yfirvélstjóra og 1. vélstjóra á skipum með ótakmarkað vélarafl (STCW III/2). Þetta námsstig er jafnframt nám í kælivélavirkjun og veitir réttindi til starfsheitisins vélfræðingur. Í náminu öðlast nemendur einnig viðeigandi menntun og þjálfun þannig að þeir geti sinnt vélstjórnarstörfum í landi, t.d. á sviði orku- og veitufyrirtækja og í iðnaði. Til sjós er starfssvið vélstjóra að annast rekstur og viðhald vél- og rafbúnaðar og tryggja, í samvinnu við aðra yfirmenn um borð, að rekstur skipsins fullnægi gildandi lögum og reglum, s.s. um öryggi skipa og mengunarvarnir. Véla- og tækjabúnaður skipa er mjög fjölbreyttur þar sem skip eru hönnuð til ólíkra hlutverka. Störf vélstjóra eru því víðtæk og spanna starfssvið margra starfsstétta í landi. Þeir sem ljúka námi til alþjóðlegra atvinnuréttinda og afla sér alþjóðlegra atvinnuskírteina hafa með því öðlast heimild til þess að gegna þeirri stöðu sem atvinnuskírteini veitir þeim rétt til án tillits til gerðar skips, hvar skipið er skráð og þess hafsvæðis þar sem skipið er í förum. Til þess að fá heimild til að gegna stöðu á erlendu skipi þarf þó að koma til samþykki siglingayfirvalda fánaríkis skipsins. Í landi stunda vélstjórar margvísleg störf og nýtist menntun þeirra vel á mörgum sviðum. Vélstjórar hafa á undanförnum árum og áratugum átt greiðan aðgang að störfum í landi, bæði við rekstur og viðhald vélbúnaðar, auk ýmissa stjórnunarstarfa. Nemendur sem fá þjálfun og undirbúning til vottunar á meðferð og notkun flúoraðra gróðurhúsalofttegunda í kælikerfum hafa menntun til sérhæfðra starfa í kæliiðnaði.

Forkröfur

Nemandi hafi lokið námsstigi C í vélstjórn.

Skipulag

Námið er skipulagt sem samfellt tveggja anna nám en heimilt er að taka það á lengri tíma. Námið felst bæði í bóknámi og verknámi og fer að nær öllu leyti fram í skólanum (þó ekki öryggisfræðslan og siglingatíminn, sjá um starfsnám). Námið er skipulagt samkvæmt námskrám og öðrum kröfum í íslenskum lögum og reglugerðum og samþykktum Alþjóðasiglingamálstofnunarinnar (IMO). Námið leiðir til alþjóðlegra vélstjórnarréttinda og skal fullnægja ákvæðum STCW-alþjóðasamþykktarinnar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöðu, og skal skólastofnun, sem ber ábyrgð á náminu, vinna samkvæmt vottuðu gæðastjórnunarkerfi. Nemendur geta öðlast réttindi til einstakra skilgreindra atvinnuréttinda á námstímanum.

Námsmat

Tilgangur námsmats er m.a. að kanna að hve miklu leyti nemandi hefur tileinkað sér markmið viðkomandi áfanga og er mikilvægt að kanna þekkingu nemenda jafnt og þétt yfir námstímann. Í kennslunni eru margir möguleikar á því að kanna og meta námsárangur og afkastagetu nemenda og mikilvægt er að kennarar beiti sem fjölbreyttustum aðferðum við námsmat. Dæmi um möguleika á útfærslu námsmats eru ýmis verkefni sem unnin eru í kennslustundum eða sem heimavinna. Einnig má nefna hefðbundin próf, skrifleg og verkleg. Fjallað er um námsmat í skólanámskrá og í námsætlunum er nánar tiltekið hvernig námsmati skuli hagað í einstökum áföngum.

Reglur um námsframvindu

Nemendur þurfa að hafa lokið undanförum til þess að halda áfram námi í þeim greinum sem það á við. Gerð krafa um að nemandi hafi lokið námsstigi C í vélstjórn til þess að öðlast rétt til að hefja nám á þessu námsstigi.

Hæfnisviðmið

  • hafa öðlast ítarlega þekkingu á störfum og starfsumhverfi innan starfsgreinarinnar sem hann hefur réttindi til að gegna.
  • hafa öðlast nægilega þekkingu á vél- og rafbúnaði skipa sem hann hefur réttindi til starfa á, þannig að hann geti þjónað þessum búnaði með öruggum hætti og án þess að öryggi skips eða þeirra sem um borð eru sé stefnt í hættu.
  • hafa öðlast faglega þekkingu og skilning á hlutverki, uppbyggingu, getu og virkni þess vélbúnaðar sem gera má ráð fyrir að sé að finna í skipum af þeirri stærð og gerð sem hann öðlast réttindi til að starfa á.
  • hafa öðlast þekkingu á takmörkunum þess búnaðar sem hann ber ábyrgð á og geta á hverjum tíma lagt raunhæft mat á ástand hans og hvenær huga þurfi að viðhaldi eða endurnýjun búnaðarins.
  • geta beitt viðeigandi ráðstöfunum þegar hættuástand skapast og geta brugðist skjótt og rétt við bilunum í vél- og rafbúnaði með þeim hætti að öryggi skips sé sem best tryggt.
  • geta lesið og skilið teikningar, verklýsingar og önnur gögn svo sem leiðbeiningar framleiðenda búnaðar og tækja um notkun þeirra, þjónustu við þau og daglega umsjón.
  • gera sér grein fyrir mikilvægi góðra samskipta og samvinnu á vinnustað.
  • geta skipulagt og stjórnað neyðarviðbrögðum í samráði við aðra yfirmenn.

Brautarkjarni
Námsgrein 1. þrep 2. þrep 3. þrep 4. þrep
Burðarþolsfræði - vélstjórn BURF 4VD04(AV) 0 0 0 4
Kælitækni KÆLI 4VD05(AV) 0 0 0 5
Lokaverkefni LOKA 4VD04(AV) 0 0 0 4
Rafmagnsfræði RAMV 4VD05(AV) 0 0 0 5
Rafeindatækni REIT 4VD05(AV) 0 0 0 5
Stillitækni og reglun STIL 4VD05(AV) 0 0 0 5
Útgerð og rekstur ÚTRE 4SD04(BS) 0 0 0 4
Vélfræði VÉLF 4VD05(DV) 4VD05(EV) 0 0 0 10
Véltækni VÉLT 4VD05(BV) 0 0 0 5
Einingafjöldi 47 0 0 0 47
Getum við bætt efni síðunnar?