Fara í efni

Inngangur

1. Almennt
2. Fjarkennsla, tækni og þróun
    Bréfaskólar
    Útvarp og sjónvarp
    Internetið
    Vefurinn
    Tölvuvæddur bréfaskóli

Fjarkennsla/fjarnám - Aðferðir og hugmyndir

Inngangur

1. Almennt

Fjarskipti eru ekki nýtt fyrirbæri. Þegar á þeim fjarlægu dögum, þegar ritlistin fyrst var fundin upp, stunduðu menn fjarskipti að þess tíma hætti. Jafnvel fyrir upphaf hins ritaða máls sendu menn boð sín á milli hvort heldur munnlega eða með merkjum, sem t.d. voru skorin í spýtu, rispuð á stein eða send upp sem reykjarhnoðrar.

Framfarir á þessu sviði voru litlar um árþúsundir. Fjarskiptin fóru fram eftir boðleiðum, sem enn eru notaðar, þó í nokkuð breyttu formi sé. Skilaboð voru send á milli í efnislegu formi. Það varð í bókstaflegri merkingu að flytja þau eða bera þau til viðtakandans sem leirtöflu, skinnpjötlu, papírusbút, pergament eða pappír. Hraðinn, sem slík skilaboð bárust á, var lengst af lítill, svo að tíminn, sem það tók að koma skilaboðum frá manni til manns, gat verið mánuðir og jafnvel ár, en sendihraði er í raun það eina, sem hefur breyttst í þessari tegund boðskipta. Hann er miklu meiri nú á tímum flugvéla og annarra vélknúinna farartækja en var um árþúsundir. Eðli aðferðarinnar er hins vegar hið sama og fyrrum: Efnisleg tilfærsla miðilsins, sem samskiptin fara fram á.

Með tilkomu símans og loftskeytanna stuttu fyrir síðustu aldamót varð fljótlega stökkbreyting á sviði samskipta. Innan tíðar varð unnt að lyfta tóli, snúa sveif eða ýta á takka og ná sambandi við mann víðs fjarri. Þannig mátti skiptast á skoðunum og upplýsingum á sama tíma og þær voru veittar. Frá þessum tíma hafa samskipti manna ekki verið hin sömu og fyrrum. Friðurinn var úti og hann mun væntanlega ekki leggjast yfir þessa jörð á ný um langa framtíð, heldur mun hann sífellt minnka, þegar hver maður er kominn með sitt "píp-tæki" og sinn vasafarsíma, sem kemur honum í kallfæri við hvern þann, sem vill ná sambandi við hann til gagns jafnt sem ógagns hvort heldur á nóttu eða degi.

Sú breyting, sem varð, þegar rafeindatæknin hóf innreið sína til boðskipta, hefur orðið enn gjörtækari á allra síðustu áratugum. Þar kemur tölvutæknin til. Reyndar voru til tæki til þess að senda skjöl og myndir sem rafboð eftir vírum eða um loftskeyti fyrir þann tíma, að tölvan varð innan seilingar almennings, en heimilistölvan, hefur bæði breytt tækninni við þennan boðflutning og gert hana fjölbreyttari á allan hátt. Með sífellt almennari tengingu í gegnum þessi furðutól samtíma okkar við æ víðfeðmara svið þekkingar og fjölþátta miðlunar af öllu tagi, hafa opnast nýjar leiðir til þess að veita tilsögn og skólun hvort heldur á kerfisbundinn hátt til réttinda, eða í almennri leit hins þekkingarfúsa manns að upplýsingu á hverju því sviði, sem hugur hans hneigist til.

Við erum stödd í undraveröld upplýsingastreymisins. Hún verður aðgengilegri með hverju árinu sem líður, enda lýtur öll viðleitni innan hennar að því, að gera hinar fjölmörgu leiðir um hana sem auðrataðastar og öruggastar. Notkunarmöguleikarnir virðast endalausir nú þegar og sífellt opnast nýir. Það er ekki annað að finna, en að einungis hugmyndaauðgi einstaklingsins og mörk þekkingar hans á því rafeindasamskiptakerfi, sem skapað hefur verið, geti hamlað honum í að finna hvaðeina það sem hann girnist og veita hvað sem hann óskar um hinar hraðfæru og greiðu brautir rafeindarása og tenginga.

Skólamenn tóku fljótlega við sér, þegar í ljós kom, að verið var að skapa möguleika til þess að ná til fólks langa vegu og veita því þjónustu á sviði upplýsingar og kennslu. Þróunin var reyndar hæg í fyrstu hvað beina kennslu til prófa eða réttinda á ýmsum sviðum skólagöngu snertir. Tæknigrunnurinn hafði samt verið lagður og ofan á hann hleðst ár af ári sífellt hátimbraðri bygging getu til notkunar á sviði menntunar. Í kima hennar hafa skólamenn haldið í leit að nýjum aðferðum og leiðum í starfi sínu með það að markmiði, að auka þá þjónustu, sem menntakerfi heimsins hafa að bjóða.

Það, hvernig menn hafa nýtt sér tækninna, hefur farið eftir þeirri hugmyndafræði og kennslufræði, sem ráðandi hefur verið á hverjum stað og við hverja stofnun. Sumar leiðir, sem farnar hafa verið, eru dýrar og tækjafrekar en aðrar síður kostnaðarsamar og einfaldari í framkvæmd. Sumar byggjast á hugmyndum um kennslu hópa, en aðrar á því að ná til einstaklingsins, þar sem hann er.

Sú aðferð til kennslu, sem rædd verður í þessu hefti, byggist á hugmyndafræði þeirri, sem fylgt hefur verið við Verkmenntaskólann á Akureyri. Því verður ekki haldið fram, að hér sé um fyrirbæri að ræða, sem hvergi sé til annars staðar. Til þess skortir yfirsýn yfir hið mikla svið rafeindafluttrar kennslu og upplýsingamiðlunar. Ekki verður því heldur haldið fram, að hún sé sú eina rétta, enda er slíkt fráleitt, heldur verður látið nægja að segja, að margt bendir til þess, að hún eigi fullan rétt á sér, og þá fyrst og fremst það, að sú reynsla, sem þegar er fengin, sýnir, að hún skilar þeim árangri, sem að er stefnt.

2. Fjarkennsla, tækni og þróun

Bréfaskólar

Þeir, sem lengst aftur rekja sögu fjarkennslu í þeirri merkingu, að í hugtakinu felist það, að um skipulagða kennslu sé að ræða í venjulegum skilningi þess orðs, telja að fyrstu merki hennar megi finna árið 1728. Það ár birtist auglýsing í dagblaðinu Boston Globe í Norður Ameríku, þar sem boðið var upp á kennslu í bréfaformi. Kenna átti hraðritun. Lítið er vitað um það, hvernig til tókst með þessa fyrstu tilraun.

Tilraunir í fjarkennslu héldu áfram, þó að hægt færu, en fengu verulega annað umhverfi til reksturs og samskipta jafnótt því, sem póstþjónusta batnaði. Til dæmis má nefna fyrsta bréfsskólanámið í hraðritun, sem boðið var upp á í Bretlandi árið 1840, en það hélst nokkuð í hendur við tilkomu "penny-pósts" þar í landi.

Merkileg starfsemi á sviði fjarkennslu hófst 1873, þegar Anna Ticknor, sem heima átti í Boston, kom á fót félagsskap til þess að efla heimanám kvenna. Kennslan byggði á prentuðu efni og samskipti voru með pósti. Starfsemin náði til um tíu þúsund meðlima og stóð í tuttugu og fjögur ár, eða til ársins 1891, en það ár lést Anna Ticknor.

Frá þeim tíma, að Anna Ticknor og félagsskapur hennar hóf fjarkennslu sína hafa tilraunir í fjarkennslu verið samfelldur ferill. Þannig var árið 1883 efnt til háskóla, sem reka átti í bréfaskólaformi við Cornell háskólann. Þessi skóli komst reyndar ekki af stað, en á árabilinu 1883 til 1891 var rekinn bréfaskóli á vegum Chautauqua skólans og var hann viðkenndur af New York fylki í Bandaríkjunum.

Á næstu árum urðu til ýmsir bréfaskólar bæði í Bandaríkjunum og víðar um lönd. Þessir skólar voru ýmist í tengslum við menntastofnanir eða reknir af einkaaðilum. Iðulega gekk bréfaskólum, einkum þeim, sem ekki voru í tengslum við viðurkenndar menntastofnanir, erfiðlega að fá nám nemenda sinna viðurkennt af menntamálayfirvöldum þeirra landa, sem þeir störfuðu í. Þetta var ekki síst vegna þess, að mikill fjöldi bréfaskóla var settur á laggirnar, þar sem nemendur öðluðust ýmsar gráður, sem fengnar voru með lítilli sem engri námsvinnu. Þessi undirmálsstarfsemi kom óorði á fjarkennslu í heild. Hins vegar fóru vinsældir þessarar menntunarleiðar vaxandi og sýndi það greinilega, að með henni var svarað þörf, sem fyrir var á meðal almennings.

Útvarp og sjónvarp

Framan af ferli fjarkennslu var eingöngu byggt á prentuðu efni og því, að samskipti og kennsla færu fram bréfleiðis. Við tilkomu útvarps (hljóðvarps) töldu áhugamenn um fjarkennslu, að komin væri leið til þess að auka gæði þeirrar þjónustu, sem þeir vildu veita. Því komu til margar tilraunir með notkun útvarps í tengslum við bréfaskólarekna fjarkennslu. Þannig var 202 framhaldsskólum, háskólum og skólaráðum veitt leyfi til útvörpunar í Bandaríkjunum á tímabilinu frá 1918 til 1946. Hins vegar kom í ljós, að nám með aðstoð hljóðvörpunar hlaut ekki þann hljómgrunn, sem vænst var. Því fjaraði þessi starfsemi út.

Þó að tilraunir með hljóðvörpun næðu ekki vinsældum, urðu þær grundvöllur þess, að tekið var að gera tilraunir með kennslu í gegnum sjónvarp. Þær hófust á árunum eftir seinni heimstyrjöldina og náðu fljótlega verulegri fótfestu. Í fyrstu var um að ræða viðbót við hinn hefðbunda bréfaskóla, en með tilkomu kapalkerfa og ekki síst eftir að unnt var að nýta gerfihnetti til þess að útvarpa um þá, urðu framfarir í nýtingu sjónvarpstækni stórstígari og tekið var að gera tilraunir með gagnvirkar sjónvarpssendingar, sem stig af stigi þróuðust yfir í þann búnað og þær aðferðir, sem hlotið hafa heitin fjarfundabúnaður og kennsla með fjarfundabúnaði hér á landi.

Þrátt fyrir það, að allmargar virtar menntastofnanir byðu upp á fjarnám af ýmsum toga, átti fjarkennsla enn erfitt uppdráttar, þegar kom að mati á gæðum hennar og viðurkenningu á því námi, sem stundað var innan hennar. Þáttaskil urðu í þessu efni, þegar The Open University, eða Opni háskólinn, var settur á laggirnar í Bretlandi árið 1969. Þessi menntastofnun, sem byggir alla sína starfsemi á fjarkennslu, hefur allt frá stofnun notið mikillar virðingar og er enn talin vera fyrirmynd samsvarandi starfsemi um heim allan.

Opni háskólinn byggði starfsemi sína að mestu á kennslumiðstöðvum, en í þær komu nemendur til þess að vinna að námi sínu, nota aðstöðu og gjarnan njóta aðstoðar leiðbeinenda. Einnig var þeim að sjálfsögðu ætlað að vinna að námi sínu á eigin vegum . Sama verklag var viðhaft í þeim tegundum fjarkennslu, sem einna helst nutu viðurkenninfar og sem uppi voru í Bandaríkjunum, Ástralíu og Kanada, svo að nokkur dæmi séu tekin. Nemendur sendu inn úrlausnir sínar í pósti lengst af, en á síðari árum hafa orðið gertækar breytingar á samskiptaleiðum einkum við tilkomu tölvusamskipta um internetið.

Internetið

Internetið varð til í frumgerð sinni á sjöunda áratugnum. Saga þess er yfirleitt rakin til ársins 1962, en á því ári setti Bandaríkjamaður að nafni J.C.R Licklider saman nokkra minnispunkta, sem lýstu hugmyndum hans um heimsnet tengdra tölva, sem gerði fært að skiptast á upplýsingum, forritum og öðru tölvutæku efni tölva á milli. Þegar árið 1967 varð til hið svokalla "ARPANET", sem ætlað var til þess að senda og taka á móti efnispökkum tölva á milli, og árið 1969 höfðu fjórar móðurtövlur tengst netinu. Árið 1972 varð tölvupóstur til og forrit honum tengt, sem gat lesið, sett í skrár, sent áfram og svarað tölvupósti.

Brátt kom í ljós, að það framgangskerfi, sem hannað hafði verið fyrir "ARPANET" svaraði ekki þeim kröfum, sem forvígismennirnir í þróun internetsins vildu geta sinnt. Til varð annað kerfi, sem staðist hefur tímans tönn og verið þróað áfram í samræmis við þarfir. Það er hið svokallaða "TCP/IP kerfi", en það var tekið upp með samstilltu átaki árið 1983. Svo var komið árið 1985 er talið var, að internetið hefði náð fullri fótfestu og frummótun frá tæknilegu sjónarmiði.

Framan af ferli sínum var internetið aðallega og sem næst eingöngu notað af háskólum og vísindamönnum. Áhugi annarra á þessari nýju samskiptaleið kom þó fljótlega í ljós, þó að hugmyndir frumkvöðlanna og þeirra, sem einna helst mótuðu stefnuna hnigu enn að hinu vísindalega sviði, eins og fram kom árið 1988, en þá kom út skýrsla í Bandaríkjunum, þar sem fjallað var um rannsóknanet. Þrátt fyrir meginefni sitt varð þessi skýrsla hvati til hugmynda um þjóðbraut upplýsinga. Þær voru settar fram í annarri skýrslu útgefinni árið 1994, en hún fjallaði opinskátt og ákveðið um það, sem var að gerast á þessum tíma, og einnig það, sem höfundarnir sáu fyrir sér að gerast mundi, eða um upplýsingaframtíðina, internetið og það sem við tæki.

Eftir að internetið var tekið að þróast tóku þeir aðilar, sem lögðu stund á fjarkennslu, að veita möguleikum þesss athygli. Alllengi framan af var það eingöngu notað í samskiptum á milli nemenda og kennara til dæmis við fyrirspurnir og annan persónulegan póst. Úrlausnir verkefna voru hins vegar lengi framan af og eru jafnvel enn sendar í hefðbundnum pósti þrátt fyrir nokkra notkun internetsins. Nokkrir gerðu þó tilraunir með það að nota tölvusamskipti við kennslu á þann hátt, að öll samskipti á milli nemenda og kennara færu fram með tölvusamskiptum.

Á meðal allra fyrstu kennslustofnana til þess að gera tilraunir á þessu sviði var Verkmenntaskólinn á Akureyri, en hann hóf fjarkennslu sína á vorönn 1994. Aðferðir, sem til urðu við skólann reyndust það vel, að tilraunin er orðin að fastri starfsemi, sem hefur aukist stórlega ár af ári. Um svipað leyti voru tilraunir með kennslu með tölvusamskiptum gerðar í Flórída í Bandaríkjunum. Þar var einstaklingur að verki og varð ekki framhald á. Einnig var hliðstæðri starfsemi komið á fót á vegum NKI í Noregi á um það bil sama tíma. Loks má nefna á meðal frumkvöðla í þessari tegund miðlunar kennsluefnis og kennslu bandarískan skóla, sem nefndi sig "Cyberschool" og hóf starfsemi árið 1995. Skólinn taldi sig þá fyrstan skóla í heiminum til þess að kenna með tölvusamskiptum. Þessi stofnun varð að byrja upp á nýtt árið eftir (1996), þar sem hugmyndir að baki starfseminni reyndust ekki nógu vel grundaðar.

Vefurinn

Monthly og er eftir Vanevar Bush. Árið 1980 komst skriður á þróunina, þegar Tim Bernes-Lee, sem starfaði við CERN í Sviss, setti saman forrit ætlað til þess að "spyrjast fyrir um hvaðeina". Árið 1989 var verk Tims Bernes-Lees og samverkamanna hans komið á það stig, að unnt var að sýna það, sem til var orðið. Afraksturinn hafði hlotið nafni "World Wide Web", Veraldarvefurinn, og komið var frumform á þá gerð vefsins, sem enn er við líði.

 

Í upphafi fór hinn nýji miðill rólega af stað og var hvað notkun snertir sem næst einskorðaður við CERN. Fljótlega fjölgaði þó þeim, sem vildu nýttu sér hinn nýja miðlunarmáta, sem í vefnum felst. Þannig var svo komið árið 1992, að til voru orðnar nokkuð yfir tuttugu og fimm þjónustutölvur fyrir vefinn, sem álitnar voru öruggar.

Ýmiss afbrigði tækni komu fram bæði til innsetningar efnis og einnig til þess að nálgast það. Flestar voru þær ekki það, sem kalla má "notendavænar". Breyting varð á árið 1993, þegar til varð fyrsta gerð vafra. Hann hlaut nafnið "Mosaic", en upp úr honum varð til vafrinn "Netscape". Sama ár lýsti CERN því yfir, að tækni sú, sem liggur að baki vefnum, væri öllum aðgengileg án nokkurrar greiðslu. Þessi ákvörðun CERN hafði mikil áhrif, sem kom ekki síst fram í því, að þjónustutölvum á vefnum fjölgaði mjög og voru þær orðnar fleiri en tvö hundruð þegar leið að lokum þessa árs.

Frá þessum tíma hefur vefurinn ekki gert annað en að stækka og þróast með ýmsum og afar fjölbreyttum hætti. Hann er notaður til sífellt fjölbreytilegri og víðtækari upplýsingamiðlunar og er nú á dögum vafalítið sá miðill, sem hvað mest er notaður bæði til þess að afla fróðleiks og miðla honum og ekki síður til þess að skemmta og leita sér skemmtunar og ýmiss konar afþreyingar. Á honum er að finna ógrynni lesefnis um hvaðeina á milli himins og jarðar og ekki síður talað mál, tónlist, kyrra myndir og kvikmyndir.

Enginn getur séð fyrir hvert vefurinn mun þróast, en ljóst er, að hann á mikið til örugglega eftir að verða helsta upplýsingaveita framtíðarinnar. Hann er þegar mikið notaður við kennslu og nám og hafa orðið til ýmiss hjálpartæki innan hans eða á honum, sem eiga að gera auðveldara að skipuleggja nám, setja fram námsefni og stunda nám hvar sem menn eru staddir, hafi þeir aðgang að vefnum. Skólar, sem bjóða fjarnám um internetið, hafa tekið vefinn í þjónustu sína. þar á meðal Verkmenntaskólinn á Akureyri, en þar er vaxandi hlutfall námsefnis á veftæku formi og einnig er skólinn að feta sig fram á veginn í notkun veftengdra kerfa til framsetningar námsefnis, kennslu og tengsla á milli kennara og nemenda.

Tölvuvæddur bréfaskóli

Á síðustu árum hefur skólum, sem kenna með tölvussamskiptum fjölgað mjög. Þetta má gagna úr skugga um með því að líta á lista yfir stofnanir, sem nýta þetta samskiptaform, en hann er að finna á vefnum. Listinn er tekinn saman af CISAER, sem verkefni á vegum Leonardo áætlunar Evrópusambandsins. Á þessum lista má finna Verkmenntaskólann á Akureyri, enda er hann í flokki frumkvöðla þeirrar miðlunaraðferðar, sem listinn nær til.

Segja má, að með tilkomu tölvutækninnar og samskipta tölva á milli, hafi í raun verið unnt að hverfa aftur til þeirra hugmynda, sem lágu að baki verkum frumkvöðla fjarkennslunnar, þegar hún tók að festa rætur á 19. öldinni. Þeir, sem þá unnu að framgangi hennar, höfðu þá hugsjón, að gefa almenningi kost á menntun, sem unnt væri að afla sér óháð tíma og stað.

Þessar hugsjónir fölskvuðust nokkuð, þegar tekið var að nota útvarp og síðar sjónvarp með hinu hefðbundna bréfaskólaformi. Nemendur urðu að vera við viðtæki sín á ákveðnum tímum til þess að njóta þess, sem útvarpað var. Hið sama má segja um kennslumiðstöðvar eins og þær, sem til urðu til kennslu með gagnvirku sjónvarpi. Sú aðferð gerði ráð fyrir því - og gerir í flestum tilfellum enn - að nemendur komi á tiltekinn stað á ákveðnum tíma til þess að taka þátt í því, sem fram fer um hið gagnvirka sjónvarpskerfi. Internetið og vefurinn losa nemendur - og reyndar kennara líka - undan þessum skilyrðum. Aftur er einstaklingnum, nemandanum eða kennaranum, unnt að nýta lausar stundir hvort heldur til náms eða kennslu. Þær kringumstæður eru þær, sem henta hinum almenna vinnandi manni best og eru þær, sem framar öðru einkenna eiginlega fjarkennslu.

Fjarkennsla Verkmenntaskólans á Akureyri hefur það að leiðarljósi í aðferðum sínum og kennslufræði, að skapa þessar kringumstæður. Aðferðir innan hennar litast af þeirri hugsjón að þjóna nemendum í önn dagsins þar sem þeir eru staddir og þannig, að daglegt líf þeirra verði fyrir svo lítilli truflun sem unnt er. Hún er í anda hugmynda upphafsmanna fjarkennslu. Hana má skilgreina sem tölvuvæddan bréfaskóla, sem þó stendur forgenglum sínum verulegu framar í krafti þeirrar tækni, sem nútíminn hefur fært jafnt nemendum sem kennurum.


©Verkmenntaskólinn á Akureyri
Haukur Ágústsson
Febrúar, 2000
Getum við bætt efni síðunnar?