Fara í efni

VMA-nemar gera það gott í Voice Ísland

Það verður ekki annað sagt en að VMA-nemendur geri það gott í sjónvarpsþættinum Voice Ísland í Sjónvarpi Símans. Þrír VMA-nemar eru komnir áfram í keppninni, Elísa Ýrr Erlendsdóttir, Sindri Snær Konráðsson og Valgerður Þorsteinsdóttir. Elísa Ýrr er í liði Unnsteins Manúels Stefánssonar, Valgerður í liði Svölu Björgvinsdóttur og Sindri Snær í liði Helga Björnssonar.

Öll hafa þau Elísa Ýrr, Sindri Snær og Valgerður látið heldur betur að sér kveða í bæði söng- og leiklistarlífinu í VMA. Elísa Ýrr gerði sér lítið fyrir og sigraði bæði Söngkeppni VMA í febrúar sl. og  Söngkeppni framhaldsskólanna á Norður- og Austurlandi sl. vor í Hofi. Hér er umfjöllun á heimasíðu VMA um Elísu Ýrr og Söngkeppni VMA í Hofi.
Elísa Ýrr söng sama lag í Voice Ísland og söngkeppnunum í Hofi, lag Amy Winehouse, You know I‘m no good. Hér er upptaka af flutningi Elísu Ýrr í Söngkeppni framhaldsskólanna á Norður- og Austurlandi í Hofi og hér er klippa af söng hennar í Voice Ísland.

Sindri Snær hefur bæði látið að sér kveða í leiklistinni og söngnum. Hann hefur leikið og sungið í tveimur uppfærslum VMA á þessu ári, á vorönn í Bjart með köflum í Freyvangi og núna á haustönn í Litlu hryllingsbúðinni. Báðar þessar sýningar fengu fína dóma og aðsókn. Síðasta sýning á Hryllingsbúðinni var sl. laugardagskvöld. Hér er viðtal við Sindra á Mbl.is og upptaka af laginu Dimmar rósir sem Sindri Snær flutti í Voice Ísland, en það lag söng hann einmitt í Bjart með köflum. Sindri Snær tók þátt í Söngkeppni VMA sl. vetur og er hér mynd af honum í keppninni.

Valgerður Þorsteinsdóttir hefur eins og Sindri bæði leikið og sungið í VMA. Hún söng í Söngkeppni VMA sl. vetur og lék og söng í Bjart með köflum snemma á þessu ári. Hún hefur í auknum mæli verið að leggja áherslu á sönginn, hefur verið í söngnámi og einnig kynnt sér upptökutækni, eins og kemur fram í viðtali við hana á heimasíðu VMA fyrir rösku ári. Hér er upptaka af söng Valgerðar í stúdíói og hér er upptaka af söng hennar á brautskráningu VMA í desember í fyrra, en þar söng hún eitt þeirra laga sem hún síðan söng í Bjart með köflum. Og hér er svo upptaka af söng hennar í Voice Ísland í haust þar sem hún söng lagið The Power of Love..

Það verður sannarlega áhugavert að fylgjast með fulltrúum VMA í Voice Ísland í vetur.