Fara í efni

Fjölgar í skólanum

Nemendur í verkefnavinnu á bókasafninu í gær.
Nemendur í verkefnavinnu á bókasafninu í gær.

Það má með sanni segja að gærdagurinn markaði ákveðin þáttaskil á þessu skólaári í VMA. Í fyrsta skipti frá því að skólinn hófst sl. haust var fullmönnuðum námshópum kennt í staðnámi í einu í bóklegum áföngum en fram að þessu hefur námshópunum verið skipt upp og/eða þeim kennt í dreifnámi. Það hafa því ekki verið svo margir nemendur í húsum VMA í einu frá því snemma á haustönn. Helga Jónasdóttir áfangastjóri telur að sem næst 70% nemenda geti nú sótt staðnám í öllum áföngum. Enn sem komið eru þó nokkrir bóklegir áfangar á öðru og þriðja þrepi sem eru kenndir rafrænt og svo verður þessa viku. Reynslan af þessu fyrirkomulagi verður metin þegar líður á þessa viku og ef ekkert óvænt gerist varðandi þróun veirufaraldursins er möguleiki á því að í næstu viku geti dagskólanemendur geti sótt alla tíma í staðnámi. Það mun koma í ljós undir lok þessarar viku.

Ánægjulegt var að sjá meira líf í skólanum í gær en verið hefur lengi. Nemendur voru augljóslega ánægðir með að geta í auknum mæli mætt í skólann og kennarar eru að sama skapi glaðir að sjá framan í nemendur á ný í raunheimum.

Lífið er vonandi smám saman að færast í eðlilegra horf. Það þýðir þó ekki að slakað verði á sóttvörnum, síður en svo. Allir í skólanum eru skyldugir til þess að hafa grímu á skólatíma og hún verður að hylja bæði munn og nef. Eftir sem áður þarf að huga vel að sprittun og almennt má segja að hvergi verði slakað á persónulegum sóttvörnum. Einnig skal undirstrikað að hópamyndun utan kennslustofa er stranglega bönnuð og nemendur eiga ekki að vera í skólanum ef þeir eru ekki að sækja kennslustundir. Allar nánari upplýsingar um þær reglur sem eru í gildi er að finna í ítarlegum pósti skólameistara til nemenda og forráðamanna og sem birtist hér á heimasíðunni.