Fara í efni

Nemendur á þriðju önn í húsasmíði smíða tvö smáhýsi

Nemendur byggingadeildar smíða grind undir húsið.
Nemendur byggingadeildar smíða grind undir húsið.

Einn af föstum liðum í námi nemenda á öðru ári í húsasmíði er smíði sumarbústaðar. Nemendur hafa strax í byrjun skólaárs hafist handa við smíði bústaðarins og hefur gólfgrindin og veggir verið forsmíðaðir á verkstæði byggingadeildar og síðan hefur bústaðurinn verið reistur utandyra. Á haustönn 2019, nánar tiltekið 24. september, reistu nemendur á þriðju önn í húsasmíði veggi sumarbústaðar og héldu síðan áfram smíðinni út önnina og áfram var haldið eftir áramót – þar til covid 19 faraldurinn skall á í mars og VMA og öðrum skólum var lokað þann 16. mars. Hefði skólaárið ekki verið rofið með kórónuveirufaraldrinum hefðu nemendur farið langt með byggingu hússins í maí, eins og ráð var fyrir gert, og húsið síðan selt í kjölfarið, eins og undanfarin ár. En covid 19 setti strik í reikninginn og því stendur sumarhúsið enn norðan við VMA og framhald smíði þess verður í höndum nemendahópsins sem er núna á þriðju önn í húsasmíðinni.

Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri byggingagreina í VMA, segir að smíði sumarbústaðar hafi reynst nemendum afar dýrmætt verkefni í náminu enda ótal margir hlutir sem þeir læra við byggingu á sumarbústað frá grunni. Til þess að nemendur sem núna eru á þriðju önn lærðu að byggja bústað frá grunni hafi niðurstaðan verið sú að þeir byggðu tvö smáhýsi frá grunni, hvort húsanna er 15 fermetrar að grunnfleti. Annað húsanna verður með bárujárnsklæddu risþaki en hitt húsið, sem Steinmar H. Rögnvaldsson teiknaði, verður með einhalla þaki með bræddum pappa. Húsin tvö eru nú þegar farin að taka á sig mynd, annað hefur verið reist inni og unnið var að frágangi grindar hins hússins utan dyra, þegar litið var inn í byggingadeildina. Helgi Valur segir ánægjulegt að unnt hafi verið að lenda málum með þessum hætti og segir hann að Byko hafi lagt málinu lið með því að láta byggingadeildinni í té efni í húsin og Byko fái húsin síðan afhent eftir að nemendur hafa lagt lokahönd á þau. Helgi segir að verkefni vetrarins hjá nemendum á þriðju önn verði annars vegar að byggja þessi tvö smáhýsi frá grunni og hins vegar að ljúka frágangi stóra sumarbústaðarins frá síðasta skólaári. Gangi allt upp fái nemendur því þegar upp verði staðið góða þjálfun í byggingu slíkra húsa.