Fara í efni

Voru í vinnustaðanámi á dvalarheimilum aldraðra í Randers

Soffía Karen (til vinstri) og Embla Sól.
Soffía Karen (til vinstri) og Embla Sól.

Vinnustaðanámið sem Embla Sól Haraldsdóttir og Soffía Karen Erlendsdóttir, nemendur á sjúkraliðabraut VMA, sóttu í Randers í janúar sl. efldu áhuga þeirra á náminu. Þær eru afar sáttar við að hafa valið að fara til Randers og kynnast þar ólíkum hlutum, vera í öðru málumhverfi og standa á eigin fótum.

Embla Sól fór í sjúkraliðanám beint úr grunnskóla og er núna á fjórðu önn í náminu en í það heila tekur það hálft fjórða ár. Soffía hóf nám á matvælabraut VMA, var því næst í eina önn skiptinemi á Ítalíu og fór síðan í sjúkraliðanám, þetta er hennar þriðja önn í náminu.

Þegar nemendur eru komnir á þetta stig í sjúkraliðanáminu eru þeir í starfsnámi á vinnustöðum á móti bóklegu og verklegu námi í skólanum. Þegar nemendum bauðst að fara í vinnustaðanám á þessari önn til Randers, vinabæjar Akureyrar í Danmörku, ákváðu Embla Sól og Soffía Karen að slá til – og sjá ekki eftir því, dvölin þar ytra hafi í senn verið skemmileg og lærdómsrík. Þær deildu íbúð þær þrjár vikur sem þær voru í Randers en unnu á tveimur dvalarheimilum fyrir aldraða, Embla Sól á Plejecenter Tirsdalen og Soffía Karen á Plejecenter Borupvængæt.

Þær áttu ekki í vandræðum með tungumálin. Embla segir að gamla fólkið sem hún annaðist hafi einungis talað sitt móðurmál og því hafi ekki verið um annað að ræða en að tala dönsku við það, sem hafi gengið ágætlega. Við starfsfólkið töluðu þær ensku og dönsku. Soffía segist hafa prófað að grípa til ítölskunnar þegar gamla fólkið átti í erfiðleikum með að skilja dönskuna hennar en það hafi ekki gefið góða raun!