Fara í efni

Viltu fara á vinabæjamót ungmenna í Lahti í sumar?

Egill Bjarni Friðjónsson fór til Álasunds í fyrra.
Egill Bjarni Friðjónsson fór til Álasunds í fyrra.

Sumarið 2014 átti Egill Bjarni Friðjónsson eina af sínum bestu vikum sumarsins þegar hann fór ásamt stórum hópi ungmenna frá Akureyri til Álasunds í Noregi á norrænt vinabæjamót ungmenna, NOVA. Ungmennin hittast og vinna í hópum að þemaverkefni sem, árið sem Egill fór,  var hlýnun jarðar. Sambærileg þemavika verður haldin í Lahti í Finnlandi á komandi sumri, dagana 27. júní til 3. júlí, og þá verður þemað fátækt. Rétt er að vekja athygli þeirra 16-20 ára ungmenna sem hafa áhuga að sækja um að umsóknarfrestdur rennur út 31. mars nk. Unnt er að sækja um á heimasíðu Akureyrarbæjar. Slóðin er: http://www.akureyri.is/is/ibuagatt/umsoknir/umsokn-um-norraent-ungmennasamstarf

„Þetta var frábær vika,“ segir Egill þegar hann rifjar upp þessa eftirminnilegu daga í Álasundi. „ Þetta kom verulega á óvart.  Maður hafði heyrt frá fólki sem hafði verið í þessu áður að þetta væri besta vika ársins.  Ég var ekkert sérstaklega trúaður á að þetta væri satt en svo kom á daginn að þetta var satt og þetta var eiginlega bara besta vika ársins.  Þetta var ógeðslega gaman.  Maður kynntist fullt af fólki frá öllum löndunum, nema Dönunum.  Það bara hreinlega gleymdist að kynnast þeim,“ segir Egill og brosir. Þegar spurt er hvort Egill Bjarni myndi ráðleggja öðru ungu fólki að sækja um, þá svarar hann hreint og ákveðið; Já!. 
 
Egill Bjarni segir að ekki hafi einungis verið unnið að umræddu þemaverkefni. „Nei, nei , við vorum í allskonar hópeflisleikjum og að sjálfsögðu nýttum við Akureyringarnir tímann í að versla.  Við gistum öll á sama stað, meira að segja heimamenn gistu með okkur og það gerði þetta allt bara skemmtilegra.  En að sjálfsögðu var þemaverkefnið í fyrirrúmi.

Að taka þátt í NOVU felur í sér að kynna Akureyri og vera góður fulltrúi Akureyrarbæjar, að vera virkur þátttakandi í verkefnum mótsins og að kynnast ungu fólki frá vinabæjum Akureyrar á Norðurlöndum í þroskandi samstarfi í áfengis- og vímuefnalausu umhverfi.
Gist verður í skóla í Lahti og er kostnaður kr. 35.000 fyrir ferðir til og frá Akureyri. Þátttakendur greiða sjálfir fyrir mat á leiðinni en að öðru leyti er öll þátttaka, matur og gisting, þátttakendum að kostnaðarlausu.

Tiil gamans eru hér nokkrar myndir og myndbrot á Facebook frá ferð ungmennanna til Álasunds sumarið 2014.