Fara í efni

Við erum öll almannakennarar í íslensku

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, verkefnastjóri íslenskukennslu við Háskólasetur Vestfjarða og maðurin…
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, verkefnastjóri íslenskukennslu við Háskólasetur Vestfjarða og maðurinn á bak við verkefnið Gefum íslensku séns.

„Við verðum að fyrirbyggja að það myndist gjá á milli þeirra sem tala íslensku og þeirra sem ekki tala íslensku. Það er misskilin kurteisi okkar Íslendinga að grípa til enskunnar í tíma og ótíma þegar við tölum við fólk af erlendum uppruna,“ segir Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, verkefnastjóri íslenskunáms við Háskólasetur Vestfjarða, en hann er maðurinn á bak við íslenskuátakið Gefum íslensku séns, sem í stuttu máli gengur út á að Íslendingar tali íslensku við fólk af erlendum uppruna sem vill læra íslensku en skipti ekki eins og skot yfir í ensku.

Á vegum SÍMEY var Ólafur á Akureyri í síðustu viku og heimsótti vinnustaði og stofnanir og fór yfir þessi mál. Meðal annars kíkti hann í VMA en hér er, eins og ítrekað hefur komið fram, lögð mikil áhersla á kennslu nemenda af erlendum uppruna.

„Þetta verkefni, Gefum íslensku séns, gengur fyrst og fremst út á hugarfarsbreytingu okkar allra og það kemur ekki í stað íslenskunámskeiðanna, þetta er viðbót við þau. Fólkið sem hingað sækir er ekki bara tölur á blaði, þetta er fólk sem vill vera hluti af okkar samfélagi og við eigum að bjóða það velkomið í okkar málsamfélag. Það er algjört lykilatriði. Við sem höfum íslensku að móðurmáli höfum að mínu mati gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna. Við þurfum að leggja okkur fram og þó svo að fólk skilji okkur ekki strax eigum við ekki að fara strax í enskuna, við eigum að endurtaka setninguna eða umorða hana. Við þurfum að hafa að leiðarljósi að tala íslenskuna á einfaldan hátt og ég vil halda því fram að við séum öll almannakennarar í íslensku eins og við vorum almannavarnir í Covid-faraldrinum,“ segir Ólafur Guðsteinn Kristjánsson.