Fara í efni

Gengið á Súlur

Göngumenn klárir í slaginn.
Göngumenn klárir í slaginn.

Ef einhvern tímann er nauðsyn á útivist og hreyfingu er það núna, á kórónuveirutímum. Síðastliðinn miðvikudag ákváðu kennarar í útivistaráfanga í VMA, Kristján Bergmann Tómasson og Hafdís Bjarnadóttir, að nýta góða veðrið til fjallgöngu. Ekið var upp á Glerárdal og þaðan tekin stefnan á Súlur. Einhver forföll voru í nemendahópnum en fimm vaskir nemendur, auk kennaranna tveggja, lögðu af stað um hálf þrjú leytið.

Þrír göngugarpar fóru alla leið upp á topp, Kristján Bergmann og nemendurnir Örn Þórarinsson og Hafþór Orri Finnsson. Kristján tók þessar myndir í ferðinni. Eins og sjá má var frábært gönguveður. Útsýnið af Súlum er alltaf magnað.

Örn og Hafþór, sem báðir eru á öðru námsári sínu í VMA, sögðust hafa haft mikla ánægju af gönguferðinni. Örn gekk nú í annað skipti á Súlur, hann segist í fyrsta skipti hafa gengið á tindinn á liðnu sumri. Hafþór var að fara á Súlur í þriðja skipti. Þeir segja að vissulega sé nokkuð krefjandi að ganga á Súlur en ferðin hafi gengið mjög vel og þeir hafi verið komnir aftur niður á bílastæði um sjöleytið. Báðir segjast þeir hafa ágætan grunn úr fótboltanum, sem þeir stunduðu upp í þriðja flokk, Örn í KA og Hafþór í Þór. Eftir að þeir hættu í fótboltanum segjast þeir hreyfa sig reglulega, fari í ræktina, göngutúra og út að hlaupa.