Fara í efni

Um þrjú hundruð manns í fjarnámi

Um þrjú hundruð manns stunda fjarnám við VMA á þessari önn, þar af eru um sextíu nemendur í dagskóla í VMA sem bæta við sig áföngum í fjarnámi.

Eins og vera ber eru nemendur í fjarnámi í VMA búsettir um allt land enda er búseta afstæð þegar kemur að því að stunda nám með nútíma fjarskiptum. Það sem fyrst og fremst skiptir máli er góð tölvutenging.

Á bænum Bakka í Húnaþingi vestra býr Sigurlaug Erna Arnardóttir. Hún hóf nám í dagskóla í VMA fyrir tveimur árum og tók þrjár annir í dagskóla á náttúruvísindabraut. Ekkert var annað í spilunum en að halda áfram í dagskóla á Akureyri og ljúka stúdentsprófi. En vorið 2016 segist hún hafa greinst með vefjagigt sem átti eftir að setja strik í reikninginn. Allt í einu hafi hún stundum átt erfitt með að ganga í skólann, sérstaklega í köldu veðri, og einnig hafi reynst henni erfitt að sitja í kennslustundum. Því hafi það verið hennar niðurstaða eftir að hafa ráðfært sig við fólk í VMA að breyta um kúrs og frá og með vorönn 2017 hefur hún búið í foreldrahúsum og stundar nú fullt nám - 35 einingar á þessari önn - í fjarnámi. Gangi allt að óskum hefur Sigurlaug Erna sett stefnuna á að ljúka náminu um jól 2018.

"Ég heyrði vissulega efasemdaraddir, að ég þyrfti að hafa mikinn sjálfsaga og skipulag til þess að stunda námið með þessum hætti.  Í byrjun vikunnar skipulegg ég námið og fyrirliggjandi verkefnaskil frá mánudegi til föstudags. Að jafnaði er að ég að læra frá kl. 10 á morgnana til klukkan 17 virku dagana en ég reyni að taka mér frí um helgar. Enn sem komið hefur þetta gengið mjög vel og samskiptin við kennarana hafa verið án hnökra. Þau eru öll í gegnum Moodle eða tölvupóst. Með þessum hætti - að vera hér heima og hafa sjálf stjórn á náminu - gengur mér betur að halda vefjagigtinni í skefjum," segir Sigurlaug Erna.

Hluti af fjarnemum í VMA er í svokölluðum meistaraskóla – þ.e. eru að taka viðbótarnám til iðnmeistara að loknu sveinsprófi í viðkomandi iðngrein. Einn þeirra sem stundar slíkt meistaraskólanám í fjarnámi í VMA er Nils Magnússon tæknistjóri hjá BL en hann er bifvélavirki að mennt. Nils býr í Kópavogi og tók fyrri hluta meistaraskólans sl. haust í Tækniskólanum í Reykjavík en af þeirri ástæðu að Tækniskólinn breytti náminu og tók upp nýja námsskrá ákvað hann að skipta um skóla og innritaðist í fjárnám í VMA sem styðst áfram við eldri námsskrá.

„Ef allt gengur að óskum er stefnan að ljúka náminu á þessari önn. Vissulega er þetta heilmikil viðbót við fulla daglega vinnu en með góðri skipulagningu á þetta vel að geta gengið. Ég reyni að skipuleggja námið þannig að ég skipti verkefnaskilum í áföngunum niður á daga. Ég nýti kvöldin eftir að börnin eru sofnuð og laugardagana. Ég horfi á þetta sem tímabundið en annasamt verkefni sem ég vonandi næ að ljúka á nokkrum mánuðum,“ segir Nils Magnússon.