Fara í efni

Ull og textíl í þriðjudagsfyrirlestri

Sanna Vatanen.
Sanna Vatanen.

Í dag, þriðjudaginn 13. febrúar kl. 17:00-17:40 heldur finnski textílhönnuðurinn Sanna Vatanen Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Woolly Tales of a Textile Artist. Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er aðgangur ókeypis.

Í fyrirlestrinum segir Sanna frá vinnu sinni í textílhönnun, löngu sambandi sínu við Ísland og verkefni sem hún vann í dvöl sinni í gestavinnustofu Gilfélagsins á Akureyri. Þar spann hún íslenska ull í band sem seinna var prjónuð úr peysan Landscape Lopis – innblásin af náttúru Íslands.

Sanna nam við Hönnunar-og listaháskólann í Helskini (AALTO -háskólann), í Finnlandi. Á ferli sínum hefur hún gefið út sjö bækur þar sem hún leggur áherslu á notkun ullar og annarra sjálfbærra efna.

Í Finnlandi er hún þekkt fyrir sýningar eins og Heklaðar keðjusagir (e. Crocheted Chainsaws) og nýlega Lankahine verkefnið þar sem fjölmargar fornar aðferðir við textílvinnslu eru færðar til nútímans. Hún býr á eynni Kökar í Álandseyjaklasanum, þar sem hún vinnur að nýjum verkefnum tengdum ull af kindum úr fjárstofni Álandseyja.

Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru  samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins á Akureyri.