Fara í efni

Tvær bækur í ár

Arnór Bliki með bækurnar tvær, um Oddeyri og brýrnar yfir Eyjafjarðará.
Arnór Bliki með bækurnar tvær, um Oddeyri og brýrnar yfir Eyjafjarðará.

Arnór Bliki Hallmundsson kennari í VMA nýtir tímann vel. Þegar hann er ekki að kenna nemendum í VMA er grúskið hans aðal áhugamál. Að leita upplýsinga og sannleikans og setja hann fram í rituðu máli. Í mörg ár hefur Arnór safnað upplýsingum um eldri hús á Akureyri og skrifað pistla sem hann hefur birt á bloggsíðu sinni og einnig hafa þeir á síðustu mánuðum birst á vefnum Akureyri.net. Og þetta ár hefur verið gjöfult í bókaútgáfu hjá Arnóri því nú hafa tvær bækur komið út þar sem fróðleikur hans birtist. Fyrri bókin er Oddeyri – Saga, hús og fólk sem Kristín Aðalsteinsdóttir og Arnór Bliki unnu saman. Bókin kom út sl. sumar. Síðari bókin sem Arnór Bliki sendi frá sér kom út fyrr í þessum mánuði en þar rekur hann sögu brúa yfir Eyjafjarðará. Bókin heitir einfaldlega Brýrnar yfir Eyjafjarðará.

Oddeyrarbókin er vegleg og ríkulega myndskreytt á 173 blaðsíðum. Þar segja núverandi íbúar 55 húsa frá sjálfum sér, upplifun sinni af Oddeyrinni, sem er næstelsti bæjarhluti Akureyrar, og með fylgja ýmsar áhugaverðar frásagnir. Einnig birtist í bókinni söguágrip sem Arnór Bliki hefur skrifað um 79 hús á Oddeyrinni. Suma þessara pistla hafði hann tekið saman og birt á bloggsíðu sinni en endurskrifaði þá fyrir bókina og einnig skrifaði hann nýjar húsagreinar í bókina.
Oddeyrarbókina er hægt að kaupa hjá bæði Arnóri Blika og Kristínu og einnig fæst hún í bókabúðum, m.a. í PE á Akureyri.

Arnór Bliki segir að hann hafi lengi haft brýrnar yfir Eyjafjarðará fyrir sjónum á mörgum hjólatúrum sínum í Eyjafjarðarsveit, tekið af þeim myndir og fjallað lítillega um þær á bloggsíðu sinni. Kristín Aðalsteinsdóttir, samstarfskona hans við ritun bókarinnar um Oddeyri, hafi síðan ýtt á hann að gera eitthvað meira með þær upplýsingar og myndir sem hann átti í fórum sínum um Eyjafjarðarbrýrnar og þar með hafi teningnum verið kastað. Frekari upplýsinga var aflað um brýrnar og þær og myndir af þeim séu nú komnar á bók. Hann segir að ekki hafi verið um auðugan garð að gresja með upplýsingar um nokkrar af þessum brúm en safnast þegar saman kemur, eins og sagt er. Ýmislegan fróðleik megi finna í Byggðum Eyjafjarðar og það sama er að segja um Sögu sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu 1874-1989. Þá hafi Sigfús Hallgrímsson skrifað merkilega frásögn í Súlur 1981 um byggingu Eyjafjarðarbrúnna þriggja sem fyrir daga Leiruvegarins og Leirubrúar gegndu lykilhlutverki í þjóðvegakerfinu. Núna á haustdögum var öld liðin frá byggingu þessara þriggja brúa. Ekki má síðan gleyma vefnum Timarit.is þar sem eitt og annað er unnt að finna í blöðum, tímaritum og skýrslum af ýmsum toga.
Brýrnar yfir Eyjafjarðará er til sölu hjá höfundi og einnig fæst hún í PE á Akureyri.

Arnór Bliki segir grúsk skemmtilegt áhugamál og verkefnin séu aldrei á þrotum. Hann telur að í það heila hafi hann nú þegar skrifað um sem næst 800 hús, flest þeirra á Akureyri en einnig hefur hann skrifað um hús utan bæjarmarkanna. Þessi akur segir Arnór að sé endalaus og hann muni halda áfram að plægja hann. Ekki vill hann útiloka að eitthvað af því efni muni einnig koma út á bók. Og hvað brýr áhrærir er einnig óplægður akur. Dags daglega hafa Akureyringar til dæmis fyrir sjónum sínum fjölda brúa yfir Glerá. Í það heila talið eru þær töluvert fleiri en margur hyggur. Arnór Bliki brosir þegar þetta berst í tal. Ef til vill verður næsta brúarrit frá honum Brýrnar yfir Glerá, það leiðir tíminn einn í ljós.