Fara í efni

Þrívíddarprenta laufabrauðsplast

Eðli málsins samkvæmt er jólaundirbúningurinn kominn í fullan gang í borg og bæ. Einn af föstum liðum á mörgum heimilum er að baka, skera og steikja laufabrauð. Sumir stytta sér örlítið leið og kaupa kökurnar útflattar en skera þær og steikja.

Í gamla daga notaði fólk hnífa til þess að búa til laufabrauðsmynstrin og margir halda sig enn við þá hefð. Algengara er þó að notuð séu sérsmíðuð laufabrauðsjárn sem oftast hafa verið smíðuð úr messing. En nú hafa tveir nemendur í VMA, Gísli Már Þórðarson og Sólon Sverrisson, sem báðir eru í vélstjórn á öðru ári í VMA, farið nýja leið. Þeir tóku sig til og hönnuðu og þrívíddarprenta laufabrauðsplast – sem sagt laufabrauðsjárn úr plasti – og prenta nú nótt sem nýtan dag til þess að anna eftirspurn.

Hér eru upplýsingar um framleiðsluna á fb.síðunni Þrívíddar Prentlausnir. Þar má m.a. sjá að notendur segja þessa nýjung í laufabrauðsskurðinum virka mjög vel.

Gísli Már segir að þeir félagarnir hafi mikinn áhuga á alls kyns lausnum og þeir hafi farið að skoða möguleikann á að hanna slíkt laufabrauðsplast og útkoman sé mjög góð, þetta svínvirki, eins og Gísli Már orðar það.

Hægt er að fá laufabrauðsplastið í tveimur breiddum og níu mismunandi litum, allt eftir óskum viðskiptavinanna. Ekki hefur gefist tími til að prenta nægilega mikið til þess að byggja upp lager en sem fyrr segir prenta þeir félagar dag og nótt til þess að anna eftirspurn. Þeir eiga sinn hvorn þrívíddarprentarann og báðir prenta þeir í gríð og erg þessa dagana.

Þetta nýja laufabrauðsplast þeirra Gísla Más og Sólons var kynnt síðla nóvember og síðan hafa þeir vart haft undan. Stykkið kostar 3500 krónur – óháð breidd. Gísli Már biður áhugasama um að senda fyrirspurn og pantanir í gegnum áðurnefnda facebook síðu.