Fara í efni

Þegar brot úr millimetra skipta máli

Hörður Óskarsson leiðbeinir nemendum í grunndeild málmiðnaðar.
Hörður Óskarsson leiðbeinir nemendum í grunndeild málmiðnaðar.

Það er gömul saga og ný að ef undirstöðurnar eru ekki traustar verður húsið ekki traust. Þessum sannindum má snúa upp á ótal hluti, t.d. nám í hinum ýmsu námsgreinum þar sem fyrstu vikurnar fara í mikilvægustu grunnatriðin. Ofan á þessi grunnatriði er síðan smám saman byggt.

Þetta á til dæmis við um nám í grunndeild málmiðna. Þar leggja kennarar fyrstu vikurnar mikið upp úr meðferð handverkfæra og síðan er notkun rennibekkja og annars vélbúnaðar kenndur. Smám saman eykst þekkingin og reynslan. En alltaf er öryggisþátturinn ofar öllu, aldrei er of varlega farið.

Þegar litið var inn í kennslustund í grunndeild málmiðnaðar hjá Herði Óskarssyni kennara og brautarstjóra voru nemendur að glíma við smíði á hamri. Þessi smíðagripur skal vera tilbúinn í lok annar. Ef til vill má segja sem svo að svona hamar líti fremur sakleysislega út en ófá eru handartökin og hér þarf að taka ígrundaðar ákvarðanir, nemendur þurfa að feta sig varlega áfram til þess að útkoman verði góð. Hér er ekki spurt um millimetra nákvæmni heldur brot úr millimetra.

Grunndeild málmiðnaðar er grunnur að fjölbreyttu námi í framhaldinu. Grunnnámið tekur tvær annir og að því loknu geta nemendur valið að fara í stálsmíði, vélvirkjun, vélstjórn eða bifvélavirkun.