Fara í efni

Starfsmannabreytingar á skrifstofu

Frá vinstri: Halla, Björk og Hrafnhildur. Mynd: HF
Frá vinstri: Halla, Björk og Hrafnhildur. Mynd: HF

Björk Guðmundsdóttir, fráfarandi skrifstofu- og fjármálastjóri VMA, sem starfað hefur hjá Verkmenntaskólanum í sextán ár, vann sinn síðasta vinnudag hjá skólanum sl. föstudag. Hún hefur verið ráðin í starf deildarstjóra fjármála hjá Fiskistofu á Akureyri, en sem kunnugt er hafa höfuðstöðvar Fiskistofu verið fluttar til Akureyrar. Við starfi Bjarkar tekur Hrafnhildur Haraldsdóttir, sem áður var bókhalds- og innheimtufulltrúi skólans. Nýr bókhalds- og innheimtufulltrúi VMA er Halla Hafbergsdóttir.

Björk starfaði á árunum 1989 til 1994 sem fjármálastjóri VMA og hún kom síðan aftur að skólanum áratug síðar og hefur frá árinu 2005 gegnt starfi skrifstofu- og fjármálastjóra. Hún segir að eftir svo langan tíma hafi henni þótt rétt að takast á við nýjar áskoranir og verkefni. Hins vegar sé ekki auðvelt eftir svo langan tíma að yfirgefa góðan vinnustað og einstaklega gott samstarfsfólk. „Það er alveg ljóst að ég á eftir að koma oft í heimsókn í skólann,“ segir Björk.

Hrafnhildur Haraldsdóttir hefur verið ráðin í stöðu rekstrar- og fjármálastjóra VMA, en hún var ein fimm umsækjenda um stöðuna.  Hrafnhildur þekkir vel til í skólanum því frá haustinu 2013 hefur hún gegnt starfi bókhalds- og innheimtufulltrúa VMA. Hrafnhildur er með BS-próf í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræði frá Háskólanum á Akureyri . Þá er hún með meistarapróf frá HA í stjórnun menntastofnana auk þess sem hún hefur lokið bæði kennsluréttinda- og  sjúkraliðanámi. 

Í starf bókhalds og innheimtufulltrúa skólans hefur verið ráðin Halla Hafbergsdóttir. Halla er með BS-próf í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík  og meistarapróf í náttúrutengdri ferðaþjónustu frá Norges Miljø- og Biovitenskapelige Universitet árið 2013. Halla hefur reynslu af bókhaldi og rekstri bæði innan ríkisstofnana og í einkafyrirtækjum. Hún hefur m.a. starfað sem verkefnastjóri hjá Þróunarfélagi Austurlands og hjá Rannsóknar- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri þar sem hún vann við úrvinnslu á tölulegum gögnum og skýrslugerð. Þá hefur Halla m.a. starfað sem  verslunarstjóri hjá Hyrnunni í Borgarnesi.

Á meðfylgjandi mynd sem Hilmar Friðjónsson tók eru þær stöllur Björk (í miðjunni)), Hrafnhildur (til hægri) og Halla (til vinstri).