Fara í efni

Skemmtilegt og lærdómsríkt

Svavar Máni Geislason.
Svavar Máni Geislason.

„Þetta hefur verið mjög skemmtilegt og lærdómsríkt ferli og ég er bara spenntur fyrir frumsýningunni,“ segir Svavar Máni Geislason, nemandi í VMA, sem leikur Billy Bibbit í uppfærslu Freyvangsleikhússins á Gaukshreiðrinu. Fólki er væntanlega í fersku minni hin ódauðlega kvikmynd Milos Forman Gaukshreiðrið (One Flew Over the Cuckoo’s Nest) þar sem m.a. Jack Nicholson, Louise Fletcher og Danny DeVito fóru á kostum. Myndin byggði á sögu Ken Kesey og það gerir leikuppfærslan einnig. Vissulega eru þessi listform ólík – kvikmyndin og leikhúsið – en í grunninn er sagan sú sama, varpað er ljósi á skrautlega karaktera á geðveikrahæli og þeirra sögu.

Svavar Máni lék í farsanum Bót og betrun í uppfærslu Leikfélags VMA í fyrra og hann segir að sá grunnur sem hann fékk þar nýtist sér mjög vel í Gaukshreiðrinu. Hann segist vera yngstur í leikhópnum en það komi ekki að sök, í hópnum séu margir þrautreyndir leikarar sem hann læri helling af. Í leikhópnum eru fleiri sem hafa komið við sögu í Leikfélagi VMA, t.d. Freysteinn Sverrisson, Sveinn Brimar Jónsson og Þorkell Björn Ingvason.

Sem fyrr segir verður frumsýning á Gaukshreiðrinu í Freyvangi nk. föstudag, 16. febrúar. Næstu sýningar verða 17., 23. og 24. febrúar og 1., 2., 8. og 9. mars. Allar sýningar hefjast kl. 20.
Miðasala á tix.is og í síma 857-5598.