Fara í efni

Rökhugsun og innanhússarkitektúr

Svanhvít Líf Bjarnadóttir í akrílinnsetningu sinni.
Svanhvít Líf Bjarnadóttir í akrílinnsetningu sinni.

„Ég tek margt gott út úr þessu námi, ekki síst rökhugsun. Ég hafði ekki velt henni svo mikið fyrir mér áður en ég byrjaði í þessu námi en mér finnst það hafa kennt mér að þróa rökhugsun með mér, sem er mikilvægt. Það er líka gott að finna traustið til þess að skapa og fara sínar leiðir og ég hef lært helling af bæði kennurunum og samnemendum mínum,“ segir Svanhvít Líf Bjarnadóttir, nemandi á listnáms og hönnunarbraut. Hún stefnir á brautskráningu í maí nk.

Svanhvít fellst á að hún feti ekki alltaf beinu brautina, hún kunni því vel að fara stundum óþekktar og óvenjulegar leiðir að hlutunum. Þetta á til dæmis við um verk sem hún gerði í akríláfanga hjá Björgu Eiríksdóttur á haustönn 2023 þegar hún gerði í raun innsetningu í geymslurými á listnámsbrautinni – eins og hér má sjá. Og lokaverkefnið sem Svanhvít vinnur að núna á vorönn er óvenjulegt og öðruvísi. Þar tvinnar hún saman textagerð – með ýmsum skilaboðum til fólks - og myndræna framsetningu. Þetta listform segir hún að eigi eftir að þróast út önnina, of snemmt sé að segja til um hina endanlegu sjónrænu útkomu á þessu stigi málsins.

Svanhvít er Akureyringur. Hún var í Oddeyrarskóla, síðan Giljaskóla og aftur í Oddeyrarskóla. Hún segist hafa komið mörgum á óvart þegar hún ákvað að velja nám á listnáms- og hönnunarbraut VMA, ekki síst vinkonum sínum sem sáu hana mögulega fyrir sér í hársnyrtiiðn eða námi sem tengdist íþróttum, enda var hún í fótbolta og tók þátt í Skólahreysti. En strax í unglingadeild grunnskóla segist Svanhvít hafa verið ákveðin í því að læra innanhússarkitektúr og listnámið væri góður grunnur fyrir það nám. Ekki veit hún nákvæmlega hvaðan þessi áhugi kemur, enginn í kringum hana sé innanhússarkitekt. En enn sem komið er stefnir hún eindregið í þessa átt og segist vera farin að horfa í kringum sig með skóla.

Þessu tengt hefur Svanhvít unnið tvö síðustu sumur í Húsasmiðjunni – og einnig vinnur hún með skólanum þegar tími vinnst til – og er þar mest í málningardeildinni. Er sem sagt að blanda liti fyrir fólk og gefa ráð í þeim efnum. Vissulega nátengt innanhússhönnun.

Stundataflan er ansi þétt á þessari síðustu önn í náminu enda segir Svanhvít Líf ekkert annað koma til greina en að ljúka náminu í vor. Níu áfangar eru í stundatöflunni, átta í dagskóla og einn í fjarnámi. Verkefnið til vors er því í stórum dráttum þetta: skóli, lærdómur, smávegis vinna í Húsasmiðjunni þegar tími gefst til og svefn!