Fara í efni

Held mér alveg á jörðinni

Tryggvi Snær Hlinason.
Tryggvi Snær Hlinason.

Síðastliðið sumar og það sem af er þessu hausti hefur verið ævintýri líkast fyrir Tryggva Snæ Hlinason, rafvirkjanema í VMA. Sem kunnugt er hefur hann látið heldur betur til sín taka á körfuboltavellinum og var í A-landsliðinu sem tryggði sér um liðna helgi frækinn sigur á Belgum og þar með farseðlinn á EuroBasket 2017– Evrópukeppni landsliða í körfuknattleik – í annað skipti. Hreint stórbrotinn árangur körfuboltalandsliðsins – eitt af mörgum afrekum ársins í íslenskri íþróttasögu.

Líf Tryggva Snæs hefur að stærstum hluta snúist um körfubolta síðan skólanum lauk sl. vor. Hann hefur meira og minna verið í Reykjavík við æfingar í bæði U-20 landsliðinu og A-landsliðinu auk þess að keppa með báðum liðum, bæði hér á landi og erlendis. Í það heila segist hann hafa verið sex daga hér fyrir norðan í sumar, þar af þrjá á sínum heimaslóðum í Svartárkoti í Bárðardal.

Tryggvi Snær var einn af lykilmönnum U-20 landsliðsins sem gerði frábæra hluti sl. sumar. Meðal annars vann liðið stórþjóðir í körfuboltanumn eins og Rússa og Grikki. Í framhaldinu var Tryggvi valinn í A-landsliðið fyrir undankeppni Evrópukeppni landsliða og segir hann að það hafi verið frábært að fá það tækifæri og kynnast umgjörðinni. „Það var bara frábært að fá að kynnast þessu, mjög lærdómsríkt fyrir mig,“ segir Tryggvi Snær. Vart var við því að búast að hann myndi spila mikið í keppninni, enda ungur að árum, en engu að síður segir Tryggvi að bara að vera hluti af liðinu og koma lítillega inn á hafi verið honum gríðarlega mikill og góður skóli. Hann verði meira tilbúinn næst og viti þá betur að hverju hann gangi.

Tryggvi Snær er ungur að árum, aðeins átján ára gamall, nítján ára í næsta mánuði. Þó svo að hann hafi ekki stundað körfubolta í mörg ár eru erlend lið farin að veita honum eftirtekt, enda vakti hann athygli með U-20 landsliðinu sl. sumar á Evrópumótinu. Það eina sem liggur ljóst fyrir á þessari stundu er að Tryggvi hyggst ljúka rafvirkjanáminu í VMA í desember nk. en síðan er ekki alveg ljóst hvað tekur við. Á næstu vikum segist hann þurfa að velta vöngum yfir þeim möguleikum sem séu í boði, bæði hvað varðar frekara nám og að spila körfubolta. Fyrirspurnir hafa komið frá bæði bandarískum og evrópskum liðum en næstu vikur skera eilítið úr um hvert leiðin liggur. Tryggvi Snær segir þó nokkuð ljóst að hann sé á leið til útlanda, spurning sé hvort það gerist fyrripart næsta árs eða haustið 2017.

Eðli málsins samkvæmt hefur Tryggvi ekki haft möguleika á að mæta í tíma í VMA það sem af er þessari önn, fyrr en sl. mánudag. Hann segist þó hafa unnið nokkur verkefni en ljóst sé að framundan sé mikil törn við að vinna upp það sem hann hafi ekki náð að sinna síðustu vikur. Það ætli hann þó klárlega að gera í góðu samstarfi við kennara sína.

„Sumarið hefur sannarlega verið viðburðarríkt en ég held mér alveg á jörðinni og er rólegur yfir þessu öllu,“ segir Tryggvi Snær og hlakkar til komandi körfuboltavertíðar hér á landi í vetur, en sem kunnugt er mætir liðið hans, Þór Akureyri, til leiks í úrvalsdeild sem nýliði. Tryggvi mætti raunar á sína fyrstu æfingu með liðinu í haust sl. mánudagskvöld, enda hefur hann verið fjarverandi í landsliðsverkefnum svo vikum skiptir. „Ég hef tröllatrú á liðinu. Liðið hefur styrkt sig frá síðasta vetri og því held ég að við mætum sterkir til leiks og getum gert góða hluti,“ segir Tryggvi Snær, en í fyrsta leiknum í deildinni taka Þórsarar á móti Stjörnunni í Íþróttahöllinni á Akureyri þann 7. október nk.