Fara í efni

Opið hús og Vorhlaup VMA 23. apríl nk.

Örlítið sumarlegra um að litast en nú þegar þessi loftmynd af VMA var tekin. En vonandi verður lóan …
Örlítið sumarlegra um að litast en nú þegar þessi loftmynd af VMA var tekin. En vonandi verður lóan farin að kveða burt snjóinn fyrir alvöru þegar kemur að opna húsinu og Vorhlaupi VMA 23. apríl nk.

Það verður heldur betur mikið um að vera hér í VMA þriðjudaginn 23. apríl nk. Þann dag verður opið hús í skólanum og einnig verður efnt til árlegs Vorhlaups VMA.

Opið hús

Opna húsið í VMA verður kl. 16:30-18:30. Allir eru velkomnir að koma og skoða skólann, fá upplýsingar um námsframboð og annað sem fólk vill kynna sér. Bæði kennarar og nemendur verða til viðtals. Nemendafélagið Þórduna býður upp á nýbakaðar vöfflur.

Vorhlaup VMA

Vorhlaup VMA verður þennan sama dag haldið í níunda skipti. Hlaupið hefst við austurinngang skólans kl. 17:30 og eru tvær hlaupaleiðir í boði, 5 og 10 km.

Í 5 km hlaupinu verður keppt í opnum flokki, framhaldsskólaflokki og flokki 15 ára og yngri. Í 10 km hlaupinu verður keppt í opnum flokki og framhaldsskólaflokki. Tímataka verður með flögum.

Verðlaun verða veitt fyrir fyrstu þrjú sætin í öllum flokkum karla, kvenna og kvára auk fjölda útdráttarvinninga. Verðlaunaafhending verður í Gryfjunni í VMA kl. 18:30.

Forskráning er hafin á netskraning.is og verður hún opin til kl. 17.00 á hlaupadegi en einungis þeir sem skrá sig fyrir miðnætti þann 22. apríl eiga möguleika á útdráttarverðlaunum. Hægt verður að skrá sig á keppnisdegi í anddyri austurinngangs VMA kl. 14-17 gegn hærra gjaldi.

Skráningargjöld í forskráningu:

  • 500 kr. fyrir grunn- og framhaldsskólanema
  • 3000 kr. fyrir hlaupara í opnum flokki

Skráningargjöld á vorhlaupsdegi:

  • 500 kr fyrir grunn- og framhaldsskólanema
  • 4000 kr fyrir hlaupara í opnum flokki

Hlauparar fá gögn sín afhent í anddyri austurinngangs VMA kl. 14-17 á vorhlaupsdaginn 23. apríl.