Fara í efni

Náttúrustemning með golfívafi

Kara Líf Antonsdóttir.
Kara Líf Antonsdóttir.

Grafísk hönnun eða arkitektúr er ofarlega á blaði þegar Kara Líf Antonsdóttir var spurð hvert hugurinn stefndi að loknu stúdentsprófi frá VMA sem hún hyggst ljúka í desember á þessu ári.

Kara Líf er Akureyringur í húð og hár. Grunnskólinn hennar var Oddeyrarskóli en síðan lá leiðin á listnáms- og hönnunarbraut VMA. Hún segir að valið á námsbrautinni hafi ráðist af áhuga hennar á því að fara áfram í nám í greinum sem listnámið væri góður grunnur fyrir. Upplifun sín af listnáminu segir Kara að hafi verið góð og hún hafi lært margt sem nýtist vel, módelteikningin hafi höfðað sérstaklega til sín.

Á veggnum gegnt austurinngangi VMA hangir nú uppi akrílmynd sem Kara vann í málunaráfanga hjá Björgu Eiríksdóttur á haustönn. Myndefnið er sótt á golfvöllinn í Borgarnesi, sem kemur ekki á óvart því Kara er tíður gestur á golfvöllum landsins, hefur spilað golf frá barnæsku. Hún æfði og keppti í golfi á yngri árum en núna er íþróttin meira stunduð sem skemmtileg fjölskylduíþrótt, faðir Köru og bróðir eru einnig í golfinu. Yfir vetrarmánuðina er  kíkt á inniæfingar í Íþróttahöllinni á Akureyri.

Og til hliðar við námið í VMA bregður Kara sér annað slagið í þjónsbúninginn og þjónar gestum til borðs á veitingastaðnum Verksmiðjunni á Akureyri.