Fara í efni

Mikil spurn eftir blikk- og stálsmiðum

Sjö af níu blikk- og stálsmiðum sem ljúka í vor.
Sjö af níu blikk- og stálsmiðum sem ljúka í vor.

Atvinnumarkaðurinn bókstaflega æpir á bæði blikk- og stálsmiði. Í vor stefnir í að fimm stálsmiðir og fjórir blikksmiðir útskrifist eftir þriggja ára nám í VMA og ef að líkum lætur verður nóg að gera hjá þeim í framhaldinu. Hluti af námi þeirra núna á sinni síðustu önn er að smíða annars vegar ferðagrill og hins vegar tvær kerrur, sem áhugasömum kaupendum stendur til boða þegar smíðinni lýkur í vor.

Bæði blikk- og stálsmiðir taka grunndeild málm- og véltæknigreina fyrsta námsárið og síðan taka við fjórar námsannir auk samningsbundins tíma hjá meistara áður en nemendur fara í sveinspróf.

Kerrusmíðin reynir að sjálfsögðu á nemendur enda  hér um að ræða verkefni eins og þeir geta búist við að fá í fangið ef viðskiptavinur kemur inn af götunni og biður um eitt stykki kerru. Þá þurfa menn að leggja höfuðið í bleyti og vera með lausnir á takteinum. „Nemendur fá sem sagt í hendur „riss“ og grófa hugmynd um hvernig kerran eigi að líta út – ákveðna breidd og ákveðna lengd - og síðan er það þeirra að smíða og útfæra. Við skiptum nemendum í tvo hópa og þeirra er að finna út hvernig þeir eiga að skipuleggja sig þannig að allir hafi ákveðin verkefni og tíminn nýtist sem best. Kerrurnar eiga nemendur síðan að fullklára þannig að þær verði tilbúnar til notkunar, klæddar með timbri og gengið frá öllu rafmagni. Í því sambandi þurfa nemendur að afla sér upplýsinga um reglugerðir um ljósabúnað á kerrum. Og þeir þurfa líka að kaupa þann búnað sem þarf, t.d. ljósa- og hjólabúnað. Svona verkefni skiptir miklu máli fyrir þessa nemendur og nauðsynleg þjálfun þegar þeir eru komnir út á vinnumarkaðinn. Hér reynir á samstarf nemenda og frumkvæði þeirra við að leysa verkefnið,“ segir Kristján Kristinsson kennari.  Hann segir að það skorti mjög fólk með þessa menntun á markaðnum og því sé ástæða til þess að hvetja nemendur til þess að gefa þessu námi gaum. „Þetta eru mjög skemmtilegar og skapandi smíðagreinar sem við þurfum að halda betur á lofti,“ segir Kristján.

Athygli vekur að engin stúlka er í hópi útskriftarnemenda í blikk- og stálsmíði í vor. Kristján segir að einhverra hluta vegna sæki stúlkur lítið í þessar greinar. „En þetta hentar stúlkum ekkert síður en strákum. Stúlkur hafa prófað málmsuðuna hjá okkur og þær eru ekkert síðri í henni en strákarnir. Kannski lifir gamla sagan góðu lífi um að þetta sé mjög óþrifaleg vinna. Auðvitað geta menn lent í óþrifalegum verkefnum, t.d. í skipum, en ekkert síður er mikið um verkefni þar sem hreinlætið er eins og væri á sjúkrahúsi. Það er verið að vinna ýmsa stálvinnu fyrir matvælaiðnaðinn þar sem ekki líðst að vera með nein óhreinindi. Það er allt til í þessu,“ segir Kristján.

Ingvar Karl Hermannsson er þrjátíu og tveggja ára gamall og er í annað skipti á skólabekk í VMA. Á sínum tíma fór hann á viðskipta- og hagfræðibraut en fann fljótt út að þar væri hann ekki á réttri hillu. Næst lá leiðin á sjóinn og þar segist hann hafa verið í nokkur ár. Það var síðan tengdafaðir hans, Sveinn Björnsson hjá Blikk- og tækniþjónustunni á Akureyri, sem hvatti Ingvar Karl til þess að læra blikksmíði. Nú þegar er hann búinn að taka allan samningsbundinn tíma hjá meistara og náminu í VMA lýkur hann í vor. Þá verður aðeins sveinsprófið eftir. „Mér líkar þetta mjög vel. Þetta er fjölbreytt starf og áhugavert,“ segir Ingvar Karl og nefnir að blikksmiðir smíði meðal annars loftræstikerfi, þakrennur, háfa og ótal aðra hluti fyrir matvælaiðnaðinn. „Það er brjálað að gera í þessari iðngrein og okkur bráðvantar fagmenntað fólk í hana,“ segir Ingvar Karl og upplýsir að hann hafi áhuga á því að  byggja ofan á blikksmíðanámið með því að fara í tæknifræði. „Ég hef áhuga á að bæta við mig þekkingu til þess að hanna ýmsa hluti,“ segir Ingvar Karl.