Fara í efni

Íslandsmeistari í höggleik

Veigar Heiðarsson, Íslandsmeistari í höggleik í golfi í flokki 17-21 árs.
Veigar Heiðarsson, Íslandsmeistari í höggleik í golfi í flokki 17-21 árs.

Veigar Heiðarsson úr Golfklúbbi Akureyrar, sem stundar nám á öðru ári á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA, gerði sér lítið fyrir um síðustu helgi og varð Íslandsmeistari í höggleik í flokki 17-21 árs. Íslandsmótið var haldið í Vestmannaeyjum.

Veigar og Logi Sigurðsson úr Golfklúbbi Suðurnesja, sem er nýkrýndur Íslandsmeistari í höggleik í fullorðinsflokki, spiluðu frábært golf og úrslitin réðust ekki fyrr en á átjándu holu á lokadeginum. Samanlagt spilaði Veigar á 11 höggum undir pari eða 199 höggum. Hann spilaði hringina þrjá á 66, 69 og 64 höggum.

Veigar segist vart muna hvenær hann byrjaði að spila golf, svo ungur hafi hann verið. Hann ólst upp á golfvellinum, ef svo má segja, því faðir hans er Heiðar Davíð Bragason golfkennari og fyrrum Íslandsmeistari í golfi.

Veigar hefur áður hampað Íslandsmeistaratitli í golfi og því þekkir hann þá góðu tilfinningu að hampa bikarnum í mótslok. Sigurtilfinninguna segir Veigar alltaf jafn góða og hann segir sigurinn í Eyjum gefa sér byr undir báða vængi í framhaldinu. Engin launung sé á því að hann ætli að halda markvisst áfram í golfinu og ná eins langt og mögulegt er í íþróttinni.