Fara í efni

Hvetja nemendur til að taka þátt í uppfærslunni á Grís

Frá vinstri: Embla Björk, María Björk og Elín.
Frá vinstri: Embla Björk, María Björk og Elín.

Að viku liðinni, miðvikudaginn 7. október, verður Leikfélag VMA með prufur fyrir uppfærslu félagsins á söngleiknum Grís – Grease, sem verður frumsýndur í febrúar á næsta ári. Þrjár af fjórum stúlkum í stjórn Leikfélags VMA, Embla Björk Jónsdóttir, María Björk Jónsdóttir og Elín Gunnarsdóttir, voru á ferðinni í skólanum í gær, fóru í kennslustofurnar og kynntu prufurnar og uppfærsluna á Grís.

Stjórnarkonurnar þrjár eru sammála um að framundan sé spennandi verkefni – að velja í hlutverk í Grís og hefja síðan æfingar í kjölfarið. Þær segja að nú þegar hafi hópur nemenda skráð sig í prufur í næstu viku en þær vilji sjá enn fleiri skrá sig og taka þátt, ekki síst hvetja þær stráka til að skrá sig til leiks. Embla María og Elín taka fram að Grís sé fjölmenn sýning og því nóg að gera fyrir alla þá sem vettlingi geta valdið. Ekki sé bara um að ræða leikara, að tjaldabaki þurfi fjölda fólks til þess að allir þræðir gangi upp í vinnunni í kringum uppfærsluna. Því sé pláss fyrir sem flestar áhugasamar vinnuhendur.