Fara í efni

Grunnskólanemar kynna sér skólastarfið í VMA

Ari Hallgrímsson og Heba Finnsdóttir fræða nemendur um námið á matvælabraut VMA.
Ari Hallgrímsson og Heba Finnsdóttir fræða nemendur um námið á matvælabraut VMA.

Það er alltaf sérstaklega ánægjulegt að fá tækifæri til þess að kynna skólastarfið í VMA fyrir grunnskólanemum sem á næsta ári ákveða sín næstu námsskref. Árleg kynning fyrir nemendur 10. bekkjar grunnskóla var í VMA í gær og þá heimsóttu skólann nemendur úr grunnskólum Akureyrar. Í dag er síðari námskynningardagurinn þegar nemendur 10. bekkjar skóla utan Akureyrar; úr Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og af Norðurlandi vestra koma í heimsókn. Í það heila sækja á fimmta hundrað nemendur VMA heim í gær og dag.

Námskynningin er þannig sett upp að námsráðgjafar segja nemendum frá skólanum og fjölbreyttum námsbrautum og síðan segja fulltrúar nemendafélagsins Þórdunu frá félagslífinu. Að þessu loknu ganga nemendur um skólann og fá kynningar á einstaka námsbrautum - bæði bóklegum og verklegum.

Nemendur utan Akureyrar slá í raun þrjár flugur í einu höggi í dag því þeir heimsækja líka MA og fá kynningu á skólastarfinu þar og einnig er sameiginleg heimavist skólanna sótt heim og skoðuð.