Fara í efni

Forsetahjónin heimsóttu VMA

Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid í VMA í dag.
Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid í VMA í dag.

Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid sóttu VMA heim í dag en þau eru í opinberri heimsókn á Akureyri í dag í tilefni af Akureyrarvöku sem verður haldin um helgina. Forseti Íslands setur Akureyrarvöku með formlegum hætti í Lystigarðinum í kvöld.

Dagskrá forsetahjónanna á Akureyri er að vonum þéttskipuð en engu að síður gáfu þau sér góðan tíma til þess að ganga í gegnum VMA og kynnast einu og öðru sem skólinn býður upp á. Fyrst var kíkt í rými vélstjórnarnema, því næst litið inn á listnáms- og hönnunarbraut, þá komið við í FabLab Akureyri, sem er til húsa í skólanum, og loks kynnti Guðni sér starfið í byggingadeild og Eliza átti samræður við erlenda nemendur í skólanum sem m.a. eru að takast á við þá áskorun að læra íslensku. Eliza gat miðlað reynslu sinni þegar hún kom til Íslands fyrir tuttugu árum og fór að læra íslensku.

Afar ánægjulegt var að fá að taka á móti forsetahjónunum í dag á þessum einstaklega fallega degi sem án efa er veðurfarslega einn af bestu dögum sumarsins hér norðan heiða. Guðna og Elizu og öðrum góðum gestum sem sóttu skólann heim í dag eru færðar þakkir fyrir komuna.