Fara í efni

Úr 25 gráðum í aprílsvalann á Akureyri

Ana Isabel Garcia Anón, kennari frá Coruna á norðvesturströnd Spánar.
Ana Isabel Garcia Anón, kennari frá Coruna á norðvesturströnd Spánar.

Fyrir tilstilli Erasmus +, styrkjaáætlunar Evrópusambandsins í mennta-, æskulýðs og íþróttamálum, hafa nemendur í VMA tekið þátt í fjölda Evrópuverkefna undanfarin ár, eins og hefur reglulega verið greint frá hér á heimasíðunni. En kennarar skólans hafa einnig fengið stuðning Erasmus + til þess að kynna sér skólastarf í öðrum löndum og safna þannig í þekkingarsarpinn og kennarar koma frá öðrum löndum á hverjum vetri í VMA til þess að sjá hvernig skólinn kennir hinar ýmsu námsgreinar. Þessa dagana er í VMA Ana Isabel Garcia Anón, tungumálakennari frá borginni Coruna á norðvesturströnd Spánar. Hún kom til Akureyrar í byrjun þessarar viku og hefur verið í skólanum í vikunni og verður áfram í næstu viku til þess að fá innsýn í skólastarfið, ræða við kennara, taka þátt í kennslustundum o.fl.

Ana Isabel býr í Coruna, sem er um 250 þúsund manna borg, en hún starfar í skóla í annarri 90 þúsund manna borg í nágrenninu sem heitir Ferrol. Skólinn sem hún kennir við er einskonar verknáms- eða starfsþjálfunarskóli sem skiptir náminu í annars vegar bóklegan hluta og hins vegar þjálfun og nám á vinnustað. Skólinn er öllum opinn og aldursbilið er breitt, allt frá unglingsárum að 25 ára aldri.

Ana Isabel hefur starfað við kennslu í um tvo áratugi og nú er hún mest að kenna einskonar fagensku fyrir ólíkar starfsgreinar, sem undirbúning til að starfa í viðkomandi starfsgrein. Í raun er alveg sama í hvaða starfsgrein fólk starfar, það er öllum gagnlegt að hafa góðan grunn í ensku og kunna skil á fagorðum. Þetta á við um Spán og það sama gildir um Ísland.

Ana Isabel er vel menntuð í ensku og hún hefur búið í fjögur ár í Englandi þar sem hún kenndi spænsku. Þegar bauðst að fara í skólaheimsókn út fyrir landsteinana með stuðningi Erasmus + - og Ísland var einn möguleikinn – segist Ana ekki hafa verið lengi að hugsa sig um. Til Íslands hafi hana lengi langað að koma. Og hún segir heimsóknina hafa verið lærdómsríka og skemmtilega. Mikilvægt sé að fá innsýn í hvernig staðið sé að kennslunni í VMA, alltaf séu einhver atriði sem hún hafi ekki kynnst áður og nýtist sér vel í kennslunni í Ferrol.

Ana segir snjóinn vera nokkuð framandi enda festi hann aldrei á hennar heimaslóð. Og á meðan veðurguðirnir hafa verið á köldu buxunum hér á norðurhjara hefur það sama ekki verið uppi á teningnum á Norður-Spáni. Þar hefur verið um 25 gráðu hiti að undanförnu og raunar segist Ana hafa nú þegar farið á ströndina, sem er nokkru fyrr en í meðalári. En hvað um það, Ana fær tækifæri til að upplifa örlítið vor á Akureyri um helgina og í næstu viku, ef marka má veðurspá. Og auðvitað verður hún á Akureyri á sumardaginn fyrsta, nk. fimmtudag, sem Ana segist hafa heyrt um. Óneitanlega sé það skemmtilegur siður að halda upp á fyrsta sumardaginn á sama tíma og fátt minni á sumarið, drjúgt mikill snjór sé jafnt á láglendi sem til fjalla.