Fara í efni

Finnst alltaf jafn gaman að kenna

Karen á bókasafni VMA í rauðakrosspeysunni sinni.
Karen á bókasafni VMA í rauðakrosspeysunni sinni.

„Ég byrjaði að kenna árið 1987 í gamla Gagganum, nú Brekkuskóla, og var þar tvo vetur. Árið 1989 hóf ég að kenna í VMA og hef verið þar síðan. Eftir öll þessi ár finnst mér alltaf jafn gaman að kenna, ég elska þetta starf. Í því felst að þurfa stöðugt að hugsa um hvernig best sé að koma þekkingunni til nýrra kynslóða. Að vinna með ungu fólki finnst mér mjög gefandi. Andinn í skólanum er og hefur alltaf verið góður, annars hefði ég tæplega kennt hér í rúmlega þrjátíu ár,” segir Karen Malmquist, ensku- og þýskukennari.

Karen lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1981 og lærði síðan ensku og þýsku til BA-prófs við Háskóla Íslands, ensku sem aðalfag og þýsku sem aukafag. „Það má segja að ég hafi fyrst valið að læra þýskuna og ástæðan er sú að ég er hálfur Hamborgari, eins og ég segi stundum, móðir mín er frá Hamborg í Þýskalandi. Ég var alls ekki altalandi á þýsku í æsku og einmitt þess vegna vildi ég læra hana í háskóla. Við systkinin vorum svo vitlaus að segja sem svo að við byggjum á Íslandi og því ættum við bara að tala íslensku. Mamma hélt þýskunni ekki að mér og ég hafði ekki tækifæri til þess að dvelja tímabundið í Þýskalandi eins og eldri systkini mín höfðu gert. En vissulega hafði ég nokkuð góða tilfinningu fyrir þýskunni, skrifuð voru bréf til móðurafa míns og -ömmu í Þýskalandi og tengsl okkar þangað voru auðvitað sterk og eru enn, enda á ég þar tvær móðursystur á lífi og frændsystkini,“ segir Karen.

Að stúdentsprófi loknu lá leið Karenar til London þar sem hún var „au pair“. Í London var hún í hálft annað ár og á þeim tíma  lærði hún enskuna vel. Í framhaldinu lá leiðin í Háskóla Íslands í ensku og þýsku, sem fyrr segir.

„Ég hef annað slagið kennt byrjunaráfanga í þýsku í VMA en enskan hefur verið mín aðalgrein. Einnig hef ég í nokkur ár kennt nemendum á starfsbraut og sund hef ég kennt þegar upp á það hefur verið boðið sem valgrein. Einnig hef ég kennt í tvö ár prjón og hekl á listnámsbrautinni. Ég hef því prófað eitt og annað í kennslunni,“ segir Karen.

Í kennslu í VMA í meira en þrjátíu ár
Árin í kennslunni í VMA eru komin á fjórða tuginn og Karen orðar það svo að hún sé orðin hluti af innréttingunum í skólanum! En hverjar eru helstu breytingar í enskukennslunni frá árinu 1989 þegar Karen byrjaði að kenna í VMA? „Ég vil fyrst nefna tæknibreytingarnar. Hér áður fyrr skrifaði ég allt á töfluna og nemendur glósuðu í gríð og erg. Skrifi ég eitthvað upp á töflu núna glósa nemendur ekki, heldur eru teknar myndir með símunum af töflunni. Áður var líka lögð meiri áhersla en nú á enska stíla og ritgerðir. Ég vil ekki segja að kröfur til nemenda hafi minnkað en vinnuálagið á þeim hefur breyst. Hér áður fyrr voru langflestir nemendur eingöngu í skólanum en voru ekki að vinna með skólanum eins og nú er algengt. Enska nemenda í dag er ekki sú sama og var á fyrstu árunum sem ég kenndi við skólann. Nú má lýsa henni sem tölvuleikjaensku þar sem orðaforðinn er knappur. Mér hefur fundist vera meira áberandi undanfarin ár að nemendur eiga í erfiðleikum með að skilja orð í ensku vegna þess að þau skilja ekki merkingu þeirra á íslensku. Með öðrum orðum; orðaforði nemenda í íslensku hefur stöðugt verið að minnka sem veldur þeim erfiðleikum í tungumálanáminu. Þetta helst í hendur,“ segir Karen.

Hún segist ekki geta neitað því að þessi önn og seinni hluti vorannar, eftir að Covid faraldurinn skall á, hafi verið erfiðasti tíminn sem kennari frá því hún hóf að kenna fyrir 33 árum síðan. „Vegna aðstæðna getum við ekki kennt eins og ég myndi vilja og því finn ég til þess að geta ekki þjónustað nemendur sem skyldi. Það er út af fyrir sig ekki erfitt að sitja heima og fjarkenna en það er öllu erfiðara að hafa samviskubit yfir því að geta ekki þjónustað nemendur betur. Við fengum þessar aðstæður snögglega í fangið, urðum að finna bestu leiðirnar út úr þeim og erum öll að gera okkar besta. Það hefur skipt miklu máli að við kennararnir höfum hjálpast að og miðlað upplýsingum til að finna bestu leiðirnar,“ segir Karen.

Á fullu í sundinu
Auk kennslunnar og heimilislífs hefur Karen í gegnum tíðina í ríkum mæli lagt lóð sín á vogarskálarnar í félagsstörfum í þágu samfélagsins á Akureyri. Fyrst kemur upp í hugann ómælt starf fyrir Sundfélagið Óðin. Karen þjálfaði hjá félaginu í mörg ár, var og er ennþá sunddómari og var ein þeirra sem stóð að stofnun sunddeildarinnar Garpa árið 1992, á 30 ára afmæli Óðins. Undir merkjum garpadeildar Óðins synti Karen í mörg ár og enn á hún Íslandsmet í tveimur garpasundum. „Ég hætti að æfa sund af krafti fyrir nokkrum árum vegna veikinda, ég fékk brjóstakrabbamein árið 2013, og það hefur verið erfitt að koma sér aftur af stað. Ég lét þó verða af því sl. vor og reyni að æfa eins reglulega og hægt er, en auðvitað hefur Covid sett strik í reikninginn og af þeim sökum hefur Sundlaug Akureyrar í tvígang verið lokuð í langan tíma. Ég æfði vel sl. sumar, synti þá allt að 12 kílómetra á viku og hélt áfram eftir að skólinn byrjaði en vegna þess að Sundlaug Akureyrar er lokuð núna varð rof á æfingunum. Ég reyni að synda flesta daga, t.d. hef ég nýtt eyðu í stundaskránni minni tvo daga í viku til þess að skjótast í sund og synda. Fer síðan aftur upp í skóla til að kenna. Ég hef ekki ákveðið hvort ég stefni á að keppa aftur í sundi, í augnablikinu er erfitt að gera áætlanir fram í tímann vegna Covid.“

Á sumrin hefur Karen til fjölda ára leiðsagt erlendum ferðamönnum, á bæði ensku og þýsku. Lítið var reyndar um leiðsögn á liðnu sumri vegna veirufaraldursins en væntanlega rís landið aftur í þeim efnum eftir að heimsbyggðin verður bólusett gegn Covid.

Fjölþætt starf fyrir Rauða krossinn
Og ekki má gleyma því að Karen hefur síðustu árin verið virk í starfi fyrir Rauða kross Íslands. „Ég er í stjórn Eyjafjarðardeildar Rauða krossins og er fulltrúi hans í stjórn Fjölsmiðjunnar. Einnig er ég í viðbragðshópi, sem áður kallaðist áfallateymi Rauða krossins. Þá vinn ég í verslun Rauða krossins á Akureyri, hef m.a. verið með tveggja tíma viðveru þar við afgreiðslu á laugardögum, og hef tekið þátt í vinnu við jólaaðstoð Rauða krossins.

Í upphafi kom ég inn í starf Rauða krossins sem heimsóknavinur og síðar kom ég að öðrum þáttum í starfinu. Eftir að ég greindist með krabbamein árið 2013 vildi ég gefa eitthvað til baka til samfélagsins. Ég var heppin og varð aldrei alvarlega veik. Mín leið til þess að gefa til baka var að leggja Rauða krossinum lið,“ segir Karen.

En hver er ástæðan fyrir því að hún hefur svo ríkulega tekið þátt í ýmsu félagsstarfi til hliðar við annasamt starf kennarans? „Það er erfitt að segja. En líklega er einfaldast að lýsa því þannig að mér finnst að þátttaka í hverskonar félagsstarfi sé nauðsynleg í daglegu lífi og að starfa fyrir Rauða krossinn finnst mér mjög gefandi. Mér finnst gott að gefa af mér og leggja öðrum lið eins og ég get. Þegar ég hins vegar þarf að sækja mér orku sest ég niður og prjóna og sauma út. Fyrir nokkrum árum nýtti ég námsorlof mitt til þess að sækja nám í handavinnuskóla í Danmörku. Það var skemmtilegur tími,“ segir Karen Malmquist.