Fara í efni

Bullandi óreiða í Listasafninu

Bullandi óreiða er yfirskrift sýningar þriggja útskriftarnema á listnáms- og hönnunarbraut og tveggj…
Bullandi óreiða er yfirskrift sýningar þriggja útskriftarnema á listnáms- og hönnunarbraut og tveggja nemenda á lokaári sérnámsbrautar VMA. Sýningin verður opnuð á morgun, laugardag. Myndina málaði Hafdís María Skúladóttir.

Á morgun, laugardaginn 18. nóvember kl. 15:00, verður opnuð í Listasafninu á Akureyri (Ketilhúsinu) útskriftarsýning nemenda listnáms- og hönnunarbrautar VMA, Bullandi óreiða. Samhliða sýningunni eru sýnd verk tveggja nemenda á lokaári sérnámsbrautar skólans.

Sýning á lokaverkefnum nemenda hefur lengi verið fastur liður í starfsemi listnáms- og hönnunarbrautar VMA. Sýnt er annars vegar í lok vorannar og hins vegar í lok haustannar. Þetta er níunda árið í röð sem skólinn er í samstarfi við Listasafnið á Akureyri um sýningar á lokaverkefnum nemenda listnáms- og hönnunarbrautar.

Nemendur vinna að lokaverkefnum sínum undir lok námsins. Verkefnavalið er frjálst og eftir höfði hvers og eins nemanda. Þeir leita víða fanga við sköpun verkanna og útkoman er fjölbreytt og skemmtileg.

Að þessu sinni sýna þrír nemendur listnáms- og hönnunarbrautar verk sín: Aron Rúnar Hill Ævarsson, Hafdís María Skúladóttir og Óríon Muninn Mielnik Bjarkason.

Nemendur sérnámsbrautar skólans sem sýna verk sín í Ketilhúsinu eru Klara Fanndís Sonjudóttir og Sigurður Einar Hákonarson.

Sýning á verkum þessara fimm nemenda í VMA stendur til sunnudagsins 26. nóvember og verður opin alla daga kl. 12-17.