Fara í efni

Alþjóðadagur kennara í VMA

Vígreifir verðlaunahafar ásamt formanni Þórdunu.
Vígreifir verðlaunahafar ásamt formanni Þórdunu.

Í gær, 5. október, var haldið upp á Alþjóðadag kennara út um allan heim – þar á meðal var hans minnst í VMA með stuttri dagskrá í löngufrímínútunum.

Að þessu sinni var yfirskrift Alþjóðadags kennara Faglegt frelsi – styrkjum stöðu kennara.

Stofnað var til þessa dags að frumkvæði UNESCO og Alþjóðasamtaka kennara (Education International) árið 1994.

Á heimasíðu Kennarasambands Íslands segir eftirfarandi um Alþjóðadag kennara: „Markmiðið með deginum hefur ávallt verið að vekja athygli á því mikilvæga starfi sem kennarar gegna í heiminum – en líka að efla samtakamátt kennara og huga að hvernig menntun barna verður best háttað í framtíðinni.

Í fréttatilkynningu frá Alþjóðasamtökum kennara segir að kennarar starfi við erfiðar aðstæður víða um heim. Annars vegar sé ástand sums staðar ótryggt og einkennist af ofbeldi og átökum og hins vegar sé faglegu sjálfstæði kennara víða ábótavant. „Þessari neikvæðu þróun verður að snúa við. Yfirvöld bera skyldu til þess að tryggja að störf kennara séu metin að verðleikum og þeir njóti virðingar.“ Þá segir jafnframt í tilkynningu samtakanna að tryggja verði kennurum viðunandi starfsaðstæður, öruggt og heilbrigt starfsumhverfi, faglegt frelsi og tækifæri til starfsþróunar. Kennarasamband Íslands mun sem fyrr fagna kennaradeginum með ýmsum hætti.“

Sem fyrr segir var dagsins minnst í gær með ánægjulegri samveru í Gryfjunni sem nemendur í áfanga í viðburðastjórnun stóðu fyrir.

Ólafur Göran Ólafsson Gros formaður Þórdunu var kynnir og hann beindi sömuleiðis eftirfarandi orðum til kennara skólans:

„Kennarastarfið er erfitt og krefjandi starf. Kennarar bera þá ábyrgð að mennta komandi kynslóðir og gera þær tilbúnar fyrir framtíðina. Þeir eiga skilið miklu meiri virðingu en þeir fá en sérstaklega eiga þeir skili hærri laun. Það ætti nú ekki að vera vandamál þar sem allir vita að skólinn á skítnóg af peningum!
Kennarinn þarf að vera þolinmóður, áhugasamur, góður og vingjarnlegur en mest af öllu þarf hann að þola að nemendur séu endalaust í símanum – og gefa restinni hærri einkunnir þó við vinnum ekkert meira en símafólkið.
En að öllu gríni slepptu viljum við nemendur óska kennurum innilega til hamingju með daginn!“

Tvö tónlistaratriði voru í tilefni dagsins. Særún Elma Jakobsdóttir söng lagið „Er hann birtist“ og Unnur Eyrún Kristjánsdóttir flutti lagið „Hafið og fjöllin“. Undirleik annaðist Pétur Guðjónsson.

Á þessum Alþjóðadegi kennara fengu eftirfarandi kennarar viðurkenningar:

Frumlegasti kennarinn: Valgerður Dögg Jónsdóttir
Fyndnasti kennarinn: Gunnar Bergmann
Krúttlegasti kennarinn: Jóhannes Árnason
Skemmtilegasti kennarinn: Karen Malmquist
Stundvísasti kennarinn: Elín Björk Unnarsdóttir
Hressasti kennarinn: Katrín Harðardóttir
Áhugasamasti kennarinn: Erna Hildur Gunnarsdóttir
Eftirminnilegasti kennarinn: Gunnar Möller
Rólegasti kennarinn: Indriði Arnórsson
Vinalegasti kennarinn: Íris Ragnarsdóttir
Íþróttaálfurinn: Anna Berglind Pálmadóttir
Yndið: Þorsteinn Kruger
Fyrirmyndin: Börkur Már Hersteinsson

Nokkrir af kennurunum voru fjarverandi og gátu því ekki veitt viðtöku viðurkenningum sínum sem eru forláta kórónur – en flestir voru verðlaunahafarnir mættir og tóku sig vel út með sín höfuðföt.

Hvernig er góður kennari og góður nemandi?

Í tíma hjá Valgerði Dögg Jónsdóttur kennara var umræðuefni dagsins hvernig góður kennari og góður nemandi ætti að vera. Nemendur punktuðu niður það sem þeim bjó í brjósti og hér að neðan má sjá nokkra af þeim punktum sem þeir settu á blað:

Kennarar:

- Góður kennari er að mínu mati einhver sem er sanngjarn. Það er mjög mikilvægt að vera sanngjarn sem kennari til að nemendur verði sanngjarnir við hann. 

- Nauðsynlegt er að allir kennarar séu hlutlausir. Kennari á ekki að láta skoðanir sínar hafa áhrif á það sem hann er að kenna og hann á ekki að gera upp á milli nemenda. 

- Góður kennari þarf að finna hið fullkomna jafnvægi milli aga og að vera skemmtilegur. Ekki er nóg að vera með aga en ekki skemmtilegur, þá hafa nemendur ekki gaman af því að sitja í tímum. Að sama skapi má kennarinn ekki bara vera skemmtilegur með engan aga því þá fer tíminn í algjöra vitleysu.

- Góður kennari er sá sem heldur uppi aga í bekknum, er skemmtilegur og auðvelt er að tala við og leita aðstoðar hjá ef þarf. 

- Góður kennari þarf að vera skipulagður og koma undirbúinn í tíma. Einnig er mikilvægt að kennari sé jákvæður og hvetjandi og taki tillit til þeirra sem eiga erfiðara með nám og beri virðingu fyrir öllum.

- Góður kostur kennara er að hann tali við okkur (framhaldsskólanema) eins og jafningja og geti tekið málefnalegar umræður við okkur og hlustað á skoðanir okkar. 

- Einn mikilvægasti kostur kennara er þolinmæði, hann þarf líka að hafa fulla stjórn á bekknum svo það fari ekki allt í steypu.

- Góður kennari getur sett sig í spor nemanda og er jákvæður. Hann hefur áhuga á faginu sem hann er að kenna því áhugi er bráðsmitandi. 

- Hinn fullkomni kennari er ekki bara góður að kenna, hann er líka skemmtilegur. Til eru kennarar sem eru góðir í því að troða þekkingu í heilann á manni en verður seint minnst sem skemmtilegra einstaklinga og öfugt.

- Góður kennari þekkir nemendur sína og kann að dæma hlutina út frá þeim.

- Til að verða góður kennari þarf maður að láta nemendurna skipta sig máli og sýna þeim það.

- Góður kennari er sanngjarn, hress og uppátækjasamur.

- Góður kennari hefur áhuga á því námsefni sem hann kennir, sá áhugi skilar sér nefnilega nánast alltaf til nemenda. Líkurnar á því að nemandi nenni að læra námsefni sem kennari virðist ekki nenna að kenna eru nefnilega mjög litlar.

Nemendur:

- Góður nemandi mætir í alla tíma sem hann getur. Hann þarf líka að sýna samnemendum sínum virðingu með því að hafa þögn þegar það á við.  Mikilvægt er að góður nemandi sem er kominn langt á undan í einhverjum áfanga geti aðstoðað samnemendur sína ef þörf er á því.

- Góður nemandi verður nauðsynlega að leggja sig fram í prófum og læra mjög vel undir þau og hann má ekki hafa hugarfarið sem margir eru með, að allt yfir 5 sé aukavinna.

- Góður nemandi er oftast ekki í símum í tíma eða talandi endalaust við sessunautinn.

- Góður nemandi fylgist vel með í tímum og glósar gjarnan þegar kennarinn er að tala.

- Góður nemandi hefur áhuga á efninu sem verið er að kenna og/eða trúir því að það muni gagnast honum í lífinu eða framhaldsnámi.

- Ef nemandinn er góður í að tala um efnið og spyrja spurninga varðandi það getur það bætt fyrir að kunna ekki efnið eða fylgjast ekki alltaf nógu vel með. 

- Góður nemandi veit að hann getur aldrei lært allt og gæti lært eitthvað nýtt á hverjum degi. 

- Fullkominn nemandi mætir alltaf á réttum tíma, hlustar í tímum, truflar ekki kennarann eða samnemendur og fær góðar einkunnir. 

- Góður nemandi er sá sem þorir að spyrja spurninga í tímum og kemur með góðar athugasemndir sem tengjast námsefninu, svo lengi sem það gerist ekki of oft.