Fara í efni

Að glíma við listsköpun með síþreytu

Kristín Rögnvaldsdóttir myndlistarkona.
Kristín Rögnvaldsdóttir myndlistarkona.

Í dag, þriðjudaginn 7. nóvember kl. 17:00-17:40, heldur Kristín Elva Rögnvaldsdóttir myndlistarkona fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri í fyrirlestraröðinni Þriðjudagsfyrirlestur undir yfirskriftinni Að skapa list fyrir og eftir ME greiningu. Í fyrirlestrinum mun hún fjalla um reynslu sína af listsköpun með og án vitneskju um að vera haldin taugasjúkdómnum ME. Eitt af helstu einkennum ME er yfirþyrmandi þreyta, oft í kjölfar andlegrar eða líkamlegrar áreynslu. Oft er ME sjúkdómurinn skilgreindur á íslensku sem síþreyta.

Þegar Kristín Elva stundaði myndlistarnám var hennar stærsta hindrun öll þau ólíku einkenni sem eru í sjúkdómnum. Í dag notar hún listsköpunina til þess að milda einkenni sjúkdómsins.

Kristín Elva Rögnvaldsdóttir útskrifaðist með meistaragráðu í myndlist frá Konunglega Listaháskólanum í Stokkhólmi 2001 og hafði áður útskrifast frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands með diplómu í skúlptúr. Hún hefur tekið þátt í sýningum og listahátíðum bæði hér heima og erlendis.
Kristín býr og starfar í Reykjavík og eru verk hennar byggð á fíngerðum línum sem flæða á milli þess að vera fígúratíf og abstrakt. Hún finnur viðfangsefnin í nærumhverfinu, heimilinu og garðinum og er fókusinn á pottaplöntur, gróður og skordýr. Verk Kristínar Elvu hafa þróast í furðuverur ásamt abstrakt vefum af línum, munstrum og formum sem hún endurtekur. Liturinn og línan eru samt ávallt í forgrunni hennar.

Þriðjudagsfyrirlestrar eru samstarfsverkefni VMA, Listasafnsins á Akureyri og Gilfélagsins. Aðgangur er ókeypis.