Fara í efni

Brostu hringinn

Það er óhætt að segja að nemendurnir hafi skemmt sér vel á skíðunum í Hlíðarfjalli.
Það er óhætt að segja að nemendurnir hafi skemmt sér vel á skíðunum í Hlíðarfjalli.

„Þeim fannst þetta ótrúlega gaman, brosið fór ekki af þeim,“ segir Jóhanna Björk Sveinbjörnsdóttir, verkefnastjóri erlendra nema, en síðasta vetrardag (miðvikudag í síðustu viku) fóru tólf nemendur í íslensku sem öðru máli með kennurum sínum á skíði í Hlíðarfjall. Einhverjir nemendanna höfðu áður farið á skíði í útivistartíma hjá Ólafi H. Björnssyni íþróttakennara en bróðurpartur þeirra var að stíga á skíði í fyrsta skipti. Upplifunin var því sterk. Og ekki skemmdi umgjörðin, frábært skíðaveður og færi eins og best verður á kosið í Hlíðarfjalli.

Krakkarnir sem brugðu sér á skíði eru frá sex þjóðlöndum: Venesúela, Póllandi, Kólumbíu, Sýrlandi, Úkraínu og Brasilíu. Útivistarfyrirtækið Fjallakofinn, sem rekur skíðaleigu í Hlíðarfjalli, lánaði krökkunum skíðabúnaðinn endurgjaldslaust. Fjallakofanum og starfsfólki hans eru færðar sérstakar þakkir fyrir stuðninginn og hjálpina.

Farið var á skíði um kl. 13 og var skíðað í blíðviðrinu til kl. 16 – að sjálfsögðu með nestispásu þar sem boðið var upp á kakó og heimabakað brauð. Ánægjulegur og eftirminnilegur dagur í alla staði.

Auk Jóhönnu Bjarkar voru með krökkunum Valgerður Húnbogadóttir, sem sér um erlend samskipti í VMA og starfar einnig á bókasafninu, og íslenskukennarar krakkanna Bryndís Indíana Stefánsdóttir, Dagbjört Lauritz Agnarsdóttir og Sigrún Kristín Jónsdóttir.