Löng byggingarsaga
„Mönnum var mjög í mun að sanna tilverurétt sinn og það tókst með samstilltu átaki sem var til mikils sóma. Ég þekki ekki til í neinum íslenskum framhaldsskóla þar sem önnur eins hlaup, hvernig sem viðraði, áttu sér stað eins og hjá okkur. Ég þekki heldur engan framhaldsskóla sem hefur verið svona lengi í byggingu.“
Þetta sagði Bernharð Haraldsson, fyrsti skólameistari VMA, í síðustu brautskráningarræðu sinni í starfi skólameistara, laugardaginn 22. maí 1999 í Íþróttahöllinni á Akureyri, þar sem brautskráningar skólans voru á þeim tíma. Að þessu sinni voru 116 brautskráningarnemar, þar af 87 stúdentar, 8 vélstjórar, 16 iðnnemar, 2 matartæknar og 3 starfsbrautarnemar.
Bernharð hafði verið skólameistari frá því að skólinn var settur á stofn haustið 1984. Eins og fram hefur komið á skólinn því 40 ára afmæli á þessu ári og verður þess minnst reglulega hér á heimasíðunni á afmælisárinu og ýmislegt rifjað upp frá fyrri tíð.
Húsnæðismál skólans voru sem sagt fráfarandi skólameistara ofarlega í huga enda ekkert skrítið því byggingarsagan var þá þegar orðin drjúgt löng og nokkru lengri en lagt var upp með í upphafi. En eins og gengur miðast hraði framkvæmda jafnan við þær fjárveitingar sem úr eru að spila og um var að ræða samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga og því þurftu allir að vera á sömu blaðsíðunni.
Og enn, fjörutíu árum eftir að skólinn var settur á stofn, eru húsnæðismál VMA enn í brennidepli. Því betur hefur verið mjög mikil aðsókn að verknámsbrautum skólans síðustu ár sem þýðir að verulega hefur þrengt að þeim. Því eru húsnæðismálin aftur í deiglunni, við þessu þarf að bregðast. Fulltrúar frá Framkvæmdasýslunni voru einmitt í VMA í gær til þess að kynna sér núverandi húsnæði skólans og afla sér upplýsinga til undirbúnings fyrir stækkun og/eða breytingu á núverandi húsnæði. Áhugavert verður að sjá hvað út úr þessu kemur.
Byggingarsaga VMA hófst árið 1981 og þegar Bernharð sleit skólanum með formlegum hætti vorið 1999 nefndi hann að þá væri enn nokkuð óbyggt. Sem var hárrétt því þá var eitt og annað ókomið, t.d. D-álman, vestasta kennsluálman. Bernharð sagði að ekki yrði lokið við byggingu skólans fyrr en komið væri inn í nýja öld og þar reyndist hann sannspár.
Í nefndri skólaslitaræðu Bernharðs vorið 1999 ræddi hann m.a. um stærð skólans og umfang. „Æ fleiri nemendur sóttust eftir framhaldsnámi að loknu námi í grunnskóla. Sú þjóðfélagslega breyting, sem og sú ákvörðun okkar að veita öllum viðtöku, leiddu til þess að dagskólanemendur urðu áður en langt um leið yfir 900 og hafa síðustu árin verið vel á ellefta hundraðið. Ég er þess fullviss að þarna kom skólinn til móts við kröfu samfélagsins og það er auðvitað eitt af hlutverkum hans, en jafnframt leiddi það til langs vinnudags bæði nemenda og alls starfsfólks, því dagskólakennsla stóð yfirleitt til kl. 6 síðdegis og stundum lengur. Það má halda langar tölur um heppilega stærð skóla og gefa sér margs konar forsendur. Skoðun mín er einföld: skólar eiga helst ekki að vera fjölmennari en 7-800 nemendur og í hverjum einstaklingi búa hæfileikar. Ef við virkjum þá ekki þegar til okkar er leitað, kunnum við að missa af þeim, þjóðfélaginu og þó öllu fremur viðkomandi einstaklingi til tjóns. Því áttum við aðeins einn kost: að veita öllum sem til okkar leituðu einhverja lausn.“
Geirharður Þorsteinsson var arkitekt skólans. Hann lést árið 2017. Sonur hans, Þorsteinn Geirharðsson, starfaði um tíma með föður sínum og tók síðan við keflinu. Þorsteinn hannaði nýjustu álmur skólans. Hann færði skólanum að gjöf á síðasta ári ýmis gögn sem faðir hans hafði varðveitt sem tengjast byggingarsögu skólans.