Vetrarfrí í VMA
Í dag, fmmtudaginn 15. febrúar, og á morgun, föstudag, er vetrarfrí nemenda og starfsfólks VMA. Vetrarfríið er tileinkað formæðrum Eyfirðinga, Þórunni hyrnu, sem var eiginkona landnámsmannsins Helga magra, og Þorbjargar hólmasólar, sem var dóttir þeirra hjóna.
Þórunn hyrna var móðursystir Auðar djúpúðgu, sem var mikill kvenskörungur og landnámskona vestur í Dölum. Móðir Auðar hét Yngveldur og var Þórunn önnur tveggja systra hennar.
Sagan segir að þegar Helgi magri flutti með fjölskyldu sína frá Kaupangi yfir í Kristnes í Eyjafirði hafi Þórunn hyrna kona hans orðið léttari og fætt Þorbjörgu dóttur þeirra á Þórunnareyju í kvíslum Eyjafjarðar og viðurnefnið hólmasól hafi hin nýfædda dóttir fengið með vísan til hólma í Eyjafjarðará.
Kennsla hefst í VMA að loknu vetrarfríi samkvæmt stundaskrá mánudaginn 19. febrúar.