Sex í sveinsprófi í vélvirkjun
Um liðna helgi var sveinspróf í vélvirkjun í húsakynnum málmiðnbrautar VMA og þreyttu sex prófið. Það hófst með skriflegu prófi sl. föstudag, 9. febrúar, en verklegi hlutinn var á laugardag og lauk síðan sl. sunnudag.
Verklegi hluti sveinsprófsins skiptist í smíðaverkefni, bilanaleitarverkefni, slitmælingarverkefni, suðuverkefni, frágang smíðaverkefnis og vinnuhraða við smíðaverkefnið og var hver þáttur metinn sérstaklega. Í prófinu er komið inn á ótal þætti sem vélvirkjar vinna við eins og t.d. vélar, loft- og vökvakerfi, frystikerfi, öryggisfræði, suðu og lóðningar, gerð verkáætlana o.fl.
Í smíðaverkefni í sveinsprófi í vélvirkjun er látið reyna á hæfni og nákvæmni próftakans í meðferð handverkfæra, mælitækja, lestur teikninga og vélavinnu. t.d. allslags spóntökuvéla. Í bilanaleit er leitað að bilun í díselvél og gerð stutt skýrsla um hana. Í slitmælingu eru ýmsir hlutir í díselvél mældir. Í suðuverkefni er prófað í flestum algengum suðuaðferðum á járni, kopar, áli, steypujárni og ryðfríu stáli ásamt kveikingu, einnig er prófað í logskurði.
Þeir sex sem þreyttu sveinsprófið í vélvirkjun að þessu sinni eru (innan sviga skólinn þar sem próftakar lærðu):
Andri Valur Óttarsson (VMA), starfar hjá Kaupfélagi Skagfirðinga
Breki Sigurjónsson (VMA), starfar hjá Kælismiðjunni Frost ehf.
Ellert Kárason (VMA), starfar hjá Kaupfélagi Skagfirðinga
Fannar Reykjalín (VMA), starfar hjá Grími ehf., vélaverkstæði
Jón Helgi Ingibjörnsson (Fjölbr. N.V. á Sauðárkróki), starfar hjá Kaupfélagi Skagfirðinga
Signý Sif Sævarsdóttir (Fjölbr. N.V. á Sauðárkróki), starfar hjá Kaupfélagi Skagfirðinga
Í sveinsprófsnefnd í vélvirkjun eru:
Sighvatur Friðriksson, formaður
Vignir Eyþórsson, prófnefndarmaður
Styrmir Petersen, prófnefndarmaður