LXR-vörur nemenda í frumkvöðlafræði
Það er löng hefð fyrir því að nemendur í frumkvöðlafræði við VMA, sem jafnan er kennd á vorönn, taki þátt í vörumessu ungra frumkvöðla sem haldin er í apríl og kynni þar vöru eða vörur sem þeir þróa í áfanganum. Svo er einnig nú. Núna á vorönninni hafa nemendur í áfanga í frumkvöðlafræði hjá Írísi Ragnarsdóttur kennara fengið góða sýn á rekstur fyrirtækis, vöruþróun og fleira. Þeir stofnuðu fyrirtækið LXR og hafa nú hafið framleiðslu á snyrtivörum og fæðubótarefni undir þessu vörumerki. Vörurnar eru komnar í sölu í Akureyrarapóteki á Akureyri. Vörurnar verða síðan kynntar á vörumessunni í Smáralind 12.-13. apríl nk. Þar er gert ráð fyrir að um 600 nemendur frá 14 framhaldsskólum um allt land kynni viðskiptahugmyndir sínar. Dómnefnd mun síðan meta þær og seinni dag vörumessunnar, laugardaginn 13. apríl, verða niðurstöður hennar kynntar.
Í LXR-vörulínunni eru fjórar vörur: Andlitsserum sem m.a. veitir húðinni raka, augnháraserum til að styrkja augnhárin og mögulega lengja þau, hárolía til að styrkja hársvörðinn, þétta hárið og auka hárvöxt og astaxanthin belgir til inntöku, sem eru góðir fyrir liði, húð, augu og auka þol og styrk.
Laxerolía er grunnefnið í andlitsseum, augnháraserum og hárolíunni og þaðan er nafn fyrirtækisins LXR, komið. LXR fékk Pharma Arctica á Grenivík til að framleiða vörurnar og hefur það samstarf gengið afar vel. Astaxanthin belgirnir eru hins vegar unnir úr örþörungum og framleiddir af fyrirtækinu Algalíf Iceland hf. í Reykjanesbæ en Pharma Arctica sér um pökkun.
Hlutirnir hafa gengið hratt og vel fyrir sig, enda hafa nemendur haft takmarkaðan tíma til þess að gera allt sem gera þarf til þess að koma fullbúinni vöru á markað. Frá því að hugmyndirnar urðu til í byrjun annar og þar til nú eru aðeins liðnir tæpir þrír mánuðir. Til að byrja með var hugmyndavinnan, næsta skref var að sjá hugmyndirnar þróast í vörur, vinna að markaðsmálum – t.d. vörumerki útlit umbúða o.fl. - og loks eru sölu- og kynningarmálin.
Nemendurnir að baki LXR eru:
Baldvin Einarsson, fjármálastjóri
Bríet Sara Sigurðardóttir, ritari
Gígja Sigurðardóttir, gæðastjóri
Heiðmar Örn Björgvinsson, sölustjóri
Hilmar Þór Hjartarson, fjármálastjóri
Ísidór Elís Hermannsson, markaðsstjóri
Steinar Bragi Laxdal Steinarsson, forstjóri
Þór Reykjalín Jóhannesson, markaðsmál
Auk þess að selja framleiðsluvörur LXR í Akureyrarapóteki verða þær til sölu á vefnum á heimasíðunni www.lxr.is. Hægt er að fylgjast með framgangi verkefnisins á fb.síðu þess.
Vörumessa ungra frumkvöðla í Smáralindinni er undir alþjóðasamtökunum Junior Achievement Worlwide sem hefur það markmið að búa ungt fólk undir framtíðina og auka færni þess til atvinnuþátttöku og -sköpunar með m.a. nýsköpunar- og frumkvöðlanámi í skólum landsins.
Steinar Bragi Laxdal Steinarsson, forstjóri LXR, sem kemur víða við því hann hefur auk hins daglega náms verið undanfarna tvo vetur formaður nemendafélagsins Þórdunu, segir að LXR-verkefnið hafi í senn verið mjög skemmtilegt og krefjandi og allir séu mjög sáttir við útkomuna. Steinar Bragi segir hann og samnemendur sína í LXR hafa tröllatrú á verkefninu, þeir sem til þekki séu sannfærðir um ágæti laxerolíunnar og þessar vörur fylli upp í ákveðið gat á markaðnum. Hann segir samstarfið við Pharma Arctica, Algalíf Iceland hf. og Akureyrarapótek hafa verið einstaklega gott og hvetjandi og fyrir það beri að þakka af heilum hug.
Áður en varan var sett á markað var myndaður einskonar prufuhópur neytenda sem prófuðu vörurnar í einn mánuð og lofuðu þær mjög.
Næstu skref eru að selja þann vörulager sem þegar hefur verið framleiddur og auðvitað að kynna vörurnar á vörumessunni í Smáralind um aðra helgi og síðan vill Steinar Bragi alls ekki útiloka að þetta verði meira en skólaverkefni, mögulega verði þessu tímabundna nemendafyrirtæki í fyllingu tímans breytt í ehf-félag til sölu á þessum nýju vörum. Það mun tíminn leiða í ljós.